Morgunblaðið - 30.07.1982, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 30.07.1982, Blaðsíða 39
Manchester Utd. er eitt sigursælasta og frægasta knattspyrnufélag veraldar MANCHESTER Utd. er eitt sigursælasta knattspyrnufélag Bretlandseyja og jafnvel þó vídar væri leitað, á því leikur enginn vafi. f tilefni af komu þessa fræga knattspyrnufélags hingað til lands í boði Vals, væri ekki úr vegi að renna yfir helstu þættina í sögu félagsins. • Frank Stapleton, hinn frábæri miðherji Manchester Utd. Félagið var stofnað árið 1878 og árið 1885 gerðist félagið atvinnu- mannalið. I þá daga hét það ekki Manchester Utd., heldur hinu fremur lágreista nafni Newton Heath. Það nafn loddi við félagið í 24 ár, eða til ársins 1902, er stjór- ar félagsins komu sér saman um nafnið Manchester Utd. Fyrsti heimavöllur félagsins hét North Road og lék liðið á þeim slóðum frá 1880-1893. Þá flutti félagið sig til Monsall Road og lék þar allar götur til 1910, er hinn heims- kunni heimavöllur liðsins í dag, Old Trafford, var tekinn í notkun. Hefur félagið leikið þar síðan ef frá eru skilin árin 1941—1949, en það stafaði af því að heimavöllur liðsins varð illa úti í loftárásum Þjóðverja í síðari heimsstyrjöld- inni. A þessum árum varð Man. Utd. að bíta í það súra epli að leika á heimavelli erkifjendanna Manchester City, Main Road. Ef rennt er yfir feril félagsins þá fékk það inngöngu í 1. deild árið 1892. Það gekk hins vegar fremur illa og árið 1894 féll félagið í 2. deild og lék þar allt til 1906. Þá tóku við betri tímar með blómum í haga, liðið átti sæti í 1. deild allt frá 1906 til 1922, en féll þá aftur í 2. deild og hékk þar til 1925. 1. deildin var aftur vettvangur fé- lagsins frá 1925 til 1931, en þá var enn fallið niður og dvalið í 2. deild til ársins 1936. Var nú mikill hringlandaháttur á félaginu, það lék í 1. deild 1936—37 og í 2. deild 1937—38. En þá sá loks fram á endann í hringlinu, 1938 tók liðið aftur sæti í 1. deild og lék þar síðan allar götur til 1974. Þá féll stórveldið mikla með þungum dynk niður í 2. deild og spáðu því margir á sínum tíma að félag eins og United myndi ekki þola dvöl í 2. deild eftir öll velgengnisárin í 1. deild. Félagið myndi hrynja sam- an. En svo fór þó ekki, stoðir fé- lagsins voru orðnar of sterkar og eftir aðeins ársdvöl í 2. deild var United mætt til leiks á ný í 1. deild eftir frækinn yfirburðasigur í 2. deild. Frá 1975 hefur Manchester United leikið í 1. deild og þó svo að félagið hafi ekki unnið titilinn síð- an 1967, hefur félagið ávallt verið í fremstu röð. Og á siðasta keppn- istímabili hafnaði liðið í þriðja sæti deildarinnar eftir að hafa haft forystu um langt skeið fyrir áramótin. Manchester Utd. hefur unnið marga frækna sigra á ferli sínum. 7 sinnum hefur félagið orðið Eng- landsmeistari, síðast 1966—67, en áður tímabilin 1907—1908, 1910-1911, 1951-1952, 1955—1956, 1956—1957 og 1964—1965. Þá hefur liðið átta sinnum hafnað í 2. sæti deildar- innar, 1947, 1948, 1949, 1951, 1959, 1964, 1968 og 1980. Tvisvar sinnum hefur félagið borið sigur úr býtum í 2. deild, árin 1936 og 1975 og fjórum sinnum hefur félagið hafn- að í 2. sæti þeirrar deildar. FA- bikarinn eftirsótta hefur United unnið fjórum sinnum, en leikið alls átta sinnum til úrslita. Bikar- inn vannst árin 1909,1948,1963 og 1977. í 2. sæti hafnaði félagið hins vegar árin 1957,1958,1976 og 1979. 1976 tapaði liðið mjög óvænt 0—1 fyrir Southampton, sem þá var ekki annað en tæplega miðlungslið í 2. deild, en United hafði þá náð þriðja sætinu í 1. deild. 1979 tap- aði liðið 2—3 fyrir Arsenal í leik sem verður lengi í minnum hafður vegna fimm síðustu mínútnanna. Arsenal leiddi 2—0, en tvö mörk á síðustu mínútunum jöfnuðu leik- inn á ótrúlegan hátt fyrir United. Það dugði ekki til, Arsenal læddi inn sigurmarkinu á síðustu mín- útu leiksins og hafði bikarinn með sér heim til Lundúna. Deildarbikarinn hefur United aldrei unnið og aldrei leikið til úr- slita, en betur hefur gengið í Evr- ópukeppnunum. í Evrópukeppni meistaraliða hefur liðið sigrað einu sinni og leikið auk þess fjór- um sinnum í undanúrslitum. Sig- urinn var auðvitað hinn frækni 4—1 sigur gegn Benfica á Wembl- ey árið 1968. En í undanúrslitum lék liðið árin 1957, 1958, 1966 og 1969. Þá tók liðið þátt í UEFA- keppninni 1976—77 og sló þá út bæði Ajax og St. Etienne áður en Porto sló United út í þriðju um- ferðinni. Og á næsta keppnistíma- bili tekur liðið einnig þátt í UEFA-keppninni. Stærsti sigur sem United hefur unnið í sögu sinni var 10—0 gegn belgíska félaginu Anderlecht í Evrópuleik árið 1957. Stærsti ósig- ur félagsins leit dagsins ljós árið 1930, er Aston Villa vann 7—0 í 1. deildarleik. Manchester-liðið hefur löngum verið frægt fyrir sóknarknatt- spyrnu sína, ef frá eru talin nokk- ur ár fyrir skemmstu er Dave Sex- ton réði ríkjum. Tvisvar hefur fé- lagið skorað yfir 100 mörk í 1. deildarkeppninni, fyrst 103 stykki 1956—1957 og síðan aftur 103 mörk 1958—1959. Þar næsta keppnistímabil, 1959—60, skoraði Denis Violett 32 mörk í deildar- keppninni og hefur enginn leik- maður MU skorað fleiri mörk fyrir félagið á sama keppnistíma- bilinu. Sá leikmaður liðsins sem flest hefur skorað mörkin yfir ákveðið tímabil með félaginu var Bobby Charlton, en á árunum frá 1956—1973 skoraði hann 198 mörk. Snillingurinn Charlton er einnig sá leikmaður MÚ sem flesta landsleikina hefur leikið, en hann klæddist ensku landsliðs- peysunni 106 sinnum. Charlton lék á tímabili þessu 606 deildarleiki með MU, fleiri en nokkur annar. Liðið í dag er talið vera á papp- írnum eitt það sterkasta sem MU hefur nokkru sinni teflt fram. Snjallir landsliðsmenn eru þar í hverri stöðu og svo sterkur er hóp- urinn, að margreyndir landsliðs- menn verða að sætta sig við að komast ekki í liðið. Eftir að Hol- lendingurinn Arnold Muhren gekk til liðs við félagið í sumar, sjá margir fyrir sér sterkustu miðlínu Bretlandseyja, Bryan Robson, Ray Wilkins, Arnold Muhren og Steve Coppell. Allir koma þeir hingað til lands nema Coppell, sem á við meiðsli að stríða. Vörnina skipa örugglega Kevin Moran, John Gid- man og Arthur Albiston, en hin miðvarðarstaðan er bitbein Gord- on McQueen og Martin Buchan. Mike Duxbury, efnilegur ungur leikmaður, gerir þar einnig tilkall til, en hann getur einnig leikið sem bakvörður eða tengiliður. Frammi er Frank Stapleton kóng- ur í ríki sínu, en breytingar verða líklega á framlínunni áður en næsta keppnistímabil hefst. Fé- lagið losar sig líklega við Garry Birtles og óvíst er hver tekur stöðu hans. Félagið á tvo afar efnilega unga framherja, Scott McGarvey og Norman Whiteside, en einnig hefur heyrst að félagið hafi áhuga á því að festa kaup á Alan Brazil hjá Ipswich. Tíminn mun skera úr um hvað ofan á verður.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.