Lesbók Morgunblaðsins - 17.12.1991, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 17.12.1991, Blaðsíða 16
Timburkirkjan sem reist var 1848. Sóknar- presturinn, séra Eggert Sigfússon, stendur við horn kirkjunnar, næst á myndinni. Úr prentaðri frásögn Árna verður hér eftir haft: „Hafði ég talað í 12-14 mínútur er ég kom að helgisögninni um uppruna kirkjunnar. Ég sagði frá timburskipinu, sem var að hrekjast þar fyrir ströndinni í stórsjó, ofsaveðri og náttmyrkri, og að skipveijar flestir bjuggust þá við dauða sínum. En skyndilega birtist þeim lýsandi vera á ströndinni og héldu 'þeir það vera engil. Hann gaf þeim merki um að stefna á sig. Þeir hlýddu og skipið rann úr briminu inn í sandvík og var þá borgið bæði fé og mönn- um ... Um leið var mér litið út um kirkju- glugga hjá prédikunarstólnum... En nú brá einkennilega við. í sama vettvangi hvarf mér kirkjan og fólkið, sem þar var. Ég var staddur á víðavangi -«g umhverfis mig stór hópur manna og kvenna, sem ég hafði aldr- ei séð. Þetta fólk var að tala við mig og mér virtist erindi þess vera að fræða mig betur um sögu kirkjunnar og uppruna henn- ar. Mér var ljóst, að þetta fólk hafði verið uppi á annarri öld, sá það á búningum þess. Jafnframt sem fólkið talaði við mig, var sem brugðið væri upp fyrir sjónum mér svip- myndum úr sögu kirkjunnar. Þessar myndir voru einna Iíkastar skuggamyndum, eða jafnvel kvikmyndum, en voru þó hvorugt. Það var eins og þær svifu í glóbjörtu loftinu yfir höfðum múgsins, og hver mynd væri einhver atburður úr sögu kirkjunnar. En ég fann ekki samhengi í þeim. Þá var sem fólkið, er næst mér stóð, hyrfi til hliðar, en annað kæmi í staðinn, eldri kynslóð, sem átti að vita betur. Þetta gerðist mörgum sinnum. Þama kom hver kynslóðin af ann- arri, og gat ég séð það á búningum fólks- ins, því þeir breyttust. Hefi ég hvorki fyrr né síðar séð svo forneskjulegan klæðaburð, og sérstaklega þóttu mér búningar kvenna furðulegir og marglitir. Alltaf fjölgaði fólk- inu og var hópurinn orðinn svo stór, að vel mátti skipta þúsundum. Ég vissi að ég var kominn langt aftur í aldir og stöðugt var verið að sýna mér fleiri myndir og útskýra þær fyrir mér. Ég heyrði glöggt það sem fólkið sagði við mig, en allan tímann heyrði ég líka hjá- róma rödd. Það var rödd sjálfs mín og mér fannst sem hún kæmi ofan úr lausu lofti. Ég lagði þó ekki eyra viðlienni, því að mér þótti allt merkilegra sem fólkið var að segja mér ... Allan þennan tíma stóð líkami minn í prédikunarstólnum í Strandarkirkju og hélt áfram að tala við ferðafólkið í kirkj- unni. Það var rödd mín, sem ég heyrði koma úr lausu lofti, meðan ég var að tala við mannfjöldann mikla úti á víðavangi og virða fyrir mér myndir þær, sem mér voru sýndar þar. Hvað fram fór í kirkjunni hafði ég enga hugmynd um. Þessi stund, er líkami minn stóð sálarvana í prédikunarstólnum, er mér alveg gleymd, eins og henni hafi verið kippt burtu úr lífi mínu, því að ég var „sjálfur” annars staðar. Og nú heyrði ég að einhver í stóra hópnum sagði, að best mundi að sækja Skafta. Þóttist ég viss um, eins og mér hefur verið sagt, að hér væri átt við Skafta lögsögumann Þóroddsson á Hjalla.” (Hér er freistandi að skjóta inn í fyrirburðarreynslu Árna Óla, að Skafti lög- sögumaður var mágur Gissurar hvíta, þess er orðaður er við áheit í hafvillum og tilurð Strandarkirkju, K.B.) Næst segir Árni frá því að honum er gefíð merki um að tími hans í ræðustól sé þrotinn og að hann hafí þá örmagna sest á stól hjá altarinu. „Sýnirnar héldu áfram, ég sá, en þó miklu óglöggar en áður, stóra hópinn, sem ég hafði verið að tala við, og minningamyndir þær, sem hann var að sýna mér. Með sjálfum mér var ég sannfærður um, að reynt hafi verið að sýna mér sögu kirkjunnar sem sannasta. Og þá sóttrfað mér þessi spurning: „Hvernig getur Skafti Þórodsson komið við sögu kirkjunnar, þegfar hún var ekki stofnuð fyrr en á dögum Staða-Árna biskups, að því er sagnir herma?” Það var eins og þessi heilabrot og efa- semdir yrðu til þess, að sýnirnar þurrkuðust út, eins og hendi væri veifað. Það var sem tjald hefði fallið fyrir leiksviðið, eða krítar- myndum og letri væri sópað af töflu með svampi. Og jafnframt var gleymt mest af því sem ég hafði séð og heyrt — þurrkað út. Þá leit ég í kringum mig, en skildi alls ekki hvar ég var niður kominn. Ég sá að vísu séra Arelíus og ég sá séra Halldór Kolbeins í prédikunarstólnum og heyrði að hann var að tala, en gat ekki numið hvað hann sagði. Hvar var ég? Þetta var ekki Strandarkirkja og þama voru ekki ferðafé- lagar mínir. Hveiju undri hafði ég borist á þennan ókunna stað? Það lá við að mig gripi örvæntingarkennd. Hvar var fólks- fjöldinn, sem ég hafði verið að tala við? Hvað hafði ég sagt þessu fólki samtímis? Hafði ég verið að tala um það, sem ég heyrði á svo dularfullan hátt? Ég vissi það ekki. Frá því ég leit út um gluggann á Engilvíkina hafði ég verið í „öðrum heimi” og þeyst margar aldir aftur í tímann með áskiljanlegum hraða. Þegar gengið var út úr kirkjunni, hafði ég áttað mig, en mér varð það fyrst fyrir að ná tali af konu minni og spyija hana í einrúmi hvort ég hefði farið með tóma vit- leysu undir lokin. „Nei, en þú endurtókst setningar hvað eftir annað og það er ekki þér líkt,” svar- aði hún.” Þá sagði Árni konu sinni í fáum orðum frá fýrirburði sínum. Hann minnist þess og að hafa verið miður sín það sem eftir var dagsins. Hann kannaðist ekkert við lands- lagið í Olfusi og þekkti ekki samferðafólk sitt. Það var einna líkast því að hann hefði orðið áttavilltur, en næði smám saman rétt- um áttum undir kvöldið. Við gefum Árna aftur orðið: „Ég ritaði þennan fyrirburð mér til minn- is þegar morguninn eftir, því að mér þótti hann merkilegur, enda þótt ég hefði gleymt því, sem mér var einna sárast um, frásögn- inni um sögu kirkjunnar. Hitt mundi ég ljóst að ég hafði verið með fjölda fólks, sem var að fræða mig og sýna mér myndir úr sögu kirkjunnar. Meðan á fyrirburðinum stóð hafði ég verið mér þess fyllilega meðvitanði, að fólk- ið, sem ég sá og talaði við, hafði áður átt heima á þessum slóðum, og þarna kom fram, eins og fyrr er sagt, hver kynslóðin eftir aðra og þær elstu allt að 900 ára gamlar. Og það var eins og til að undirstrika að þessi skilningur væri réttur, hvernig klæða- burður þess breyttist og varð æ forneskju- legri. Má vera, þótt ég muni það ekki, að mér hafi verið bent á að veita þessu at- hygli, því að endurminningin um þetta var öllu öðru ljósari. Þetta ferðalag aftur í aldir tók þó ekki langa stund, ekki nema svo sem tvær mínútur í mesta lagi, eftir því sem kona mín sagði frá, og með því að athuga hvað ég hafði lesið úr minnisblöðum mínum. En sjálfur hafði ég enga hugmynd um tím- ann.” Þá hugleiðir Árni fyrirburðarreynslu sína með hliðsjón af vísindaiegri dulhyggju. Og hann fær ekki betur séð, en að fyrirburðar- sýn hans birtist honum sem tilraun til leið- réttingar, einkum á röngum tímasetningum í málflutningi þeim er hann las af minnis- blöðum og varðaði þrettándu aldar tilgátu um tilurð Strandarkirkju, sem allt of lengi hefur verið haldið á lofti. Skafti Lögmaður Mágur GissurarHvíta Út frá hinni stórmerkilegu fyrirburðar- reynslu Árna Óla í prédikunarstól Strandar- kirkju vekur ekki síst athygli að Skafti lög- maður skyldi tilkvaddur. Skafti var mágur Gissurar hvíta á Mosfelli Teitssonar og væntanlega yngri samtímamaður hans, þar sem Þórdís systir Skafta var þriðja kona Gissurar. Þar með hófst í niðjum þeirra farsæl ættarflétta Haukdæla og Hjalla- manna. Út frá þessu samspili er því raun- hæft að álykta að um hafi verið að ræða áheitisgjöf, sem tengdist hinum miklu sigl- ingamönnum úr uppsveitum Árnesþings og kirkjulegu valdi. Allir helstu landnámsmennirnir munu hafa átt skip þau er þeir sigldu á til lands- ins og margir stýrðu þeim sjálfir. Svo var og með Ketilbjörn gamla, er sigldi knerri sínum Elliða inn í Elliðaárós, fyrir neðan heiði. En þar sem land nær sjó var þá víða byggt, hélt hann um vorið upp um heiði að leita sér Iandkosta. Hann hafði náttból og gerði sér skála, þar sem nú heitir Skála- brekka. Hann nam Grímsnes, Laugardal allan og alla Biskupstungu. Hann byggði að Mosfelli og bjó þar. Ketilbjörn gamli hefur væntanlega komið til landnáms síns upp úr 900 þegar landið var nær albyggt með sjó. Hann hefur verið fæddur nálægt 870. Sonur hans var Teitur, er fyrstur reisti bú í Skálholti og bjó þar f. nál. 920. Sonur Teits var Gissur hinn hvíti, höfðingi að Mosfelli og í Skálholti eftir föður sinn, forgöngumaður um kristni- töku og mikill siglingamaður. Hann var fæddur nálægt 960. Með Gissuri hvíta að Mosfelli upphefst höfðingja-ættbálkurinn Haukdælir. Gissur eignaðist með þriðju konu sinni, Þórdísi Þóroddsdóttur, soninn ísleif árið 1006, sem Gissur sigldi sjálfur með til Herford í Vest- falen og kom honum þar í virtan klaustur- skóla. Þar nam hann klerkleg fræði og tók vígslu til prests og varð fyrstur Íslendinga er nam kristin fræði. Hann var vígður til biskups fimmtugur að aldri 26. maí 1056. Þar með varð hann fyrsti yfirboðari hinnar íslensku kristni. Hann andaðist í Skálholti 5. maí 1080. Tveir synir ísleifs biskups vörðuðu eink- um valdaferil Haukdæla. Gissur, fæddur 1042, sem faðir hans sendi ungan til náms í Suður-Þýskalandi þar sem hann tók prests- vígslu. Hann kom svo heim og giftist ríkri ekkju austur í Vopnafirði. En hann undi ekki kyrrsetu og gerðist farmaður og var lengst af í siglingum meðan faðir hans lifði. Er Isleifur lést var Gissur kallaður til bisk- ups eftir föður sinn og vígður 4. september 1082, og tók við embætti 1083. Hann var sagður „hafa göfugastur maður á Islandi verið bæði lærðra manna og ólærðra”. Hann lést 28. maí 1118 og hafði þá fynr um 20 árum komið á kirkjutíundarlögum, fyrstum á Norðurlöndum. Hinn sonur ísleifs biskups var Teitur prestur í Haukadal dáinn 1110. Hans synir voru Magnús biskup, dáinn 1237, og Þor- valdur prestur í Hruna, dáinn 1235, faðir Gissurar jaris sem dáinn er 1268. Ef Skafti lögmaður á að vera til vitns- burðar um tilurð Strandarkirkju er hann svo kynntur í íslendingasögu Jóns Jóhannesson- ar: ,,Skafti, sonur Þóroddar goða að Hjalla í Olfusi, var lögsögumaður 27 sumur (1004—1039), lengst allra manna. Hann mun hafa erft goðorð föður síns og var tengdur voldugustu höfðingjum. Þórdís syst- ir hans var kona Gissurar hvíta en bróðir hans var Þorsteinn holmunnur er átti Jódísi dóttur Guðmundar ríka á Möðruvöllum.” Skafti var kallaður lög-Skafti og er fræg- astur fyrir löggjafarstarf sitt, enda virðist það hafa valdið tímamótum í sögu þjóðkirkj- unnar. En áhrifin af starfi hans eru svo slungin saman við áhrif kirkjunnar að þar verður ekki greint á milli. Ári fróði segir svo frá Skafta: „Hann setti fimmtardómslög um það, að enginn vegandi skyldi lýsa vígi á hendur öðrum manni en sér, en áður voru slík lög of* það sem í Noregi.” Það verður að ætla að Skafti hafi verið nær þrítugu, er hann kom fram sem lög- sögumaður, og því fæddur nálægt 974. Þótt Skafti hafi látist við lok lögsöguára sinna, svo sem fræðimenn vilja vera láta, þá hefur hann lifað nógu lengi til þess að fylgjast vel með hinni sigursælu baráttu Gissurar mágs síns í þágu hinnar íslensku kristni og hinni miklu farsæld hans í sigling- um. Þá ekki síst er Gissur siglir með son sinn til náms eða eins og hann segir í Hung- urvöku: „Honum fylgdi Gissur utan ok seldi hann til læringar abbadísi einni í borg þeirri, er Herfura heitir. íslefr kom svá til Islands, at hann var prestur ok vel Iærðr.” Þar með er ljóst að Gissur er enn í siglar- förum á eigin vegum milli landa við annan áratug eftir kristnitöku. Einmitt þá eru margir stórbændur að byggja kirkjur á jörð- um sínum, óháðir vígslum og máldagagjörn- ingum. Gerum nú ráð fyrir að það hafi verið Gissur hvíti, hinn mikli trúmaður og stór- bóndi í uppsveitum Árnesþings, sem lenti knerri sínum hlöðnum húsagerðarviði í Eng- ilvík eftir hafvillur og hrakninga, með unn- ið heit í huga. Ekki er að efa að það hafi þá verið hans fyrsta verk að ganga á fund landeiganda og afhenda honum farminn, ásamt með munnlegu handsali gegn loforði um landgæði og gögn til byggingar kirkju sem vaxið gæti og viðgengist í þágu Guðs- kristni. Mundi hann þá, sem kirkjubóndi blessun af hljóta. Hver mundi þá hafa verið hinn giftusami landeigandi er veitti viðtöku góðfarmi þeim er á land var kominn? Það hefur væntan- lega verið ónafngreindur dóttur- eða sonar- sonur Heggs Þórissonar landnámsmanns haustmyrkurs, því Heggur var sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að síðar hafi heitið Vogsósar, sem þá mun hafa átt land til Strandar. Hinn sonur Þóris er nefndur Böðmóður, en bústaður hans er ekki nefnd- ur. Hann hefur þá væntanlega fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms Þóris, sem náði austur og inn yfír Selvogsheiði, allt til víðlendis Þóroddar goða Eyvindsson- ar. Böðmóður mun þá hafa verið fyrsti bóndi að Nesi við sjó. Svo virðist sem niðjar Böðmóðs Þórisson- ar hafi tengst Haukdælum, því sonur hans var Þórarinn faðir Súganda, þess sem dr. Einar Amórsson telur hafa verið forfaðir Teits Súgandasonar prests á Keldum og Gunnarsholti, sem dáinn var 1186. Hann var giftúr Vilborgu Gissurardóttur lögsögu- manns í Haukadal, dáin 27. júlí 1206, Halls- sonar prests í Haukadal, dáinn 1150, Teits- sonar, dáinn 1110, ísleifssonar biskups, dáinn 1080, Gissurarsonar hvíta. Ekki er getið bústaðar Þóris haustmyrk- us, en í munnlegri geymd Selvogsmanna er hann að Hlíð á bökkum Hlíðarvatns und- ir Hlíðarfjalli. Hér að framan hefur verið gerð tilraun til þess að aðhæfa áheit Gissurar hvíta í sjávarháska og fyrirburðarreynslu Árna Ola, tilurð Strandarkirkju í tíma á sögunnar braut. Æ erfiðara er að aðhæfa atburði arfsagnarinnar eftir tíundar lögtöku Giss- urar (Gissurar-stata, 1096) sem og hrörnun í hafskiptakosti og siglingakunnáttu á 12. öld. í íslendinga sögu Jóns Jóhannessonar segir: „Bókmenntir íslendinga eru mest af- rek norrænna manna á miðöldum. En annað mesta afrek þeirra era siglingarnar til ís- lands og síðan til Grænlands og meginlands Norður-Ameríku ... Fyrstu aldirnar áttu íslendingar hafskip og voru miklir siglinga- menn. Allir helstu landnámsmennirnir hafa hlotið að eiga sjálfír skipin, sem þeir komu á hingað með föruneyti sínu. Engum getum verður að því leitt, hve mörg þau hafi ver- ið, en ljóst er, að í lok landnámsaldar hafa fáar þjóðir átt meiri og betri hafskipakost að tiltölu við mannfjölda en íslendinga.” Þá minnist Jón á samantekt Boga Th. Mel- steð úr fornum ritum: „ ... og að þau séu mörg frá 10. og 11. öld og að þar felist minning um að algengt hafí verið að íslend- ingar ættu hafskip fram á 11. öld.” Höfundur er fræðimaöur og er frá Þorkelsgerði í Selvogi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.