Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 32

Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 32
32 STUÐLABERG 1/2012 Jóhann Jónsson fæddist á Staðastað á Snæfellsnesi 12. september 1896 og ólst upp í Ólafsvík. Hann varð stúdent frá Mennta- skólanum í Reykjavík árið 1920. Haustið 1921 fór Jóhann til Þýskalands og kom aldrei aftur til Íslands. Hann las bókmenntir í fjóra vetur við háskólana í Leipzig og Berlín, en dvaldist lengi á heilsuhælum vegna berklaveiki. Jóhann orti í hefðbundnum stíl eins og önnur skáld á þeim tíma. Síðan fór hann að þróa ljóðformið en hélt sig lengst af við stuðla og höfuðstafi og háttbundna hrynjandi. Hann varð þjóðkunnur þegar ljóð hans „Söknuður“ birtist í tímaritinu Vöku sum- arið 1928. Tómas Guðmundsson, skólabróðir Jóhanns, sagði í bókinni „Svo kvað Tómas“ að þá hafi einn atkvæðamesti gagnrýnandi landsins ráðist á tímaritið fyrir að hafa hleypt að þessum rímlausa óskapnaði. „Nú er öllum augljóst að Söknuður er eitt af mestu snilldar- ljóðum á íslenska tungu,“ sagði Tómas. Hall- dór Laxness sagði að telja mætti Söknuð „einn fegursta gimstein í íslenskum ljóðakveðskap síðustu áratuga“. Aðrir hafa fullyrt að þetta hafi verið eitt fyrsta íslenska nútímaljóðið. Jóhann lést 1. september 1932 í Leipzig í Þýskalandi, tæplega 36 ára. Útförin fór fram 5. september að viðstöddum nokkrum þýskum vinum hans og þremur Íslendingum. „Kistan var prýdd krönsum og blómum; landar hans höfðu sent krans úr fjallagrösum, skreyttan ís- lensku litunum,“ sagði í Morgunblaðinu. Að lokum var „Allt eins og blómstrið eina“ leikið á orgel. Aðeins hálft líf Við útförina flutti Jón Leifs tónskáld ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Ísland skóp þér örlög þín, sömu örlögin og aðrir íslenskir samherjar þínir hlutu, allt frá Jónasi Hallgrímssyni og Sigurði Breiðfjörð fram að þeim íslensku listamönnum vorra tíma sem létu lífið áður en þroskanum varð náð. Þú ert sá seinasti í hópnum, sem er orðinn æði stór ... Ísland biður þig og þína buguðu samherja fyrirgefningar. Vor aldagamla neyð, líkamleg og andleg hungursneyð, teygir arma sína fram í nútímann og eyðir enn listrænum frjóöngum Íslands, lætur þá deyja áður en þeir fá borið sína bestu ávexti. Vér Íslendingar höfum enn ekki lært að sigra þá neyð að fullu. Þess vegna varð líf þitt aðeins hálft líf við sárs- auka, skort og vonbrigði. Vér biðjum þig fyrir- gefningar og kveðjum þig að hörmungum þínum loknum.“ Ljóðin hans lifa Haukur Þorleifsson hagfræðingur, einn þeirra sem voru við útförina, skrifaði um Jó- hann í Morgunblaðið: „Skáldið er fallið í valinn og með því hverfa glæstar vonir, djörf áform verða aldrei veru- leiki. En það er okkur Íslendingum harmabót að hann átti ekki aðeins óort kvæði sem týnast með honum heldur einnig formuð ljóð sem munu halda minningu hans við lýði. Við fyll- umst örvæntingar yfir staðreynd dauðans og hrópum: Of stutt, of stutt var líf hans. Það er örvæntingin yfir því að héðan af verður ekkert tekið aftur, ókleift að bæta úr því sem aflaga fór. Og nú þegar hann er horfinn sjáum við betur en áður að einmitt krafta slíks manns hefðum við þarfnast fremur en margra ann- arra við uppbyggingu hins nýja Íslands. En ljóðin hans lifa og benda skáldunum á nýjar leiðir í meðferð efnis og tungu.“ Hann lifði Ísland Jóhann Jónsson lést fyrir áttatíu árum

x

Stuðlaberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.