Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 31

Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 31
STUÐLABERG 1/2012 31 Þessi vísa er afar dýrt kveðin eins og gerðist gjarnan hjá rímnaskáldum. Helgi segir að hún sé: Baksneiðubróðir frumþríaðalhendur, síðtvísniðaðalhendur, táskeytt-samhendur. Ekki verður hér reynt að skýra þessi heiti nánar. Lesendur geta skemmt sér við að reyna að finna út hvað orðin merkja. Vísan er gott dæmi um rímgleði skálda fyrri tíma og þann smekk sem einkenndi rímnakveðskapinn. Margt af þessu er afar fallegt en stundum gengu skáldin heldur langt í rímþrautunum, það er að segja ef miðað er við afstöðu okkar sem nú lifum. Nýhendan – háttur Sigurðar Breiðfjörðs Nýhendan sker sig úr öðrum rímnaháttum að því leyti að í því eina tilviki eru síðlínur lengri en frumlínur. Hátturinn er gjarnan kenndur við Sigurð Breiðfjörð. Hann mun fyrstur hafa ort undir þessum bragarhætti og mótað hann; aðrir síðan lært af honum. Helgi sýnir mörg dæmi, meðal annars þetta: Þá er drauma þrotin stund þá er sjónar hringur fagur, þá skal kasta þungum blund, þá er runninn mikill dagur. (Sig. Breiðfj., sjá Helga Sigurðsson 1891:172) Frumlínurnar hér eru 7 atkvæði, fjórar kveður og sú síðasta stýfð; síðlínurnar eru 8 atkvæði, fjórar kveður óstýfðar. Helgi Sigurðsson segir í bók sinni skemmtilega sögu af því hvernig þessi háttur varð til. Í neðanmálsgrein við kafla sem heitir Nýhendu ætt (Sigurðarbragur) segir Helgi eftirfarandi sögu: „Svo að þessi smásaga detti ekki ef til vill niður, er hún þannig: Árni Böðv- arsson á Ökrum á Mýrum (í Vesturbænum) hafði af glettum skotið púðri í leirskáld eitt, er hann matti lítils, og líka gert um það vísu þessa: Sæmdalotinn svakkarinn sést um byggðir víða, púðurskotinn prakkarinn, prýði þrotinn flakkarinn. Hinn, sem þóttist vel fær við Árna, orti þá: Árni Böðvars sagður son situr á Akra sloti suður, enga vissi eg af því von, að í mig væri skotið púður. Eptir þessari vísu segja sumir, að Sig. Brfj. hafi myndað nýhendu sína og breytt henni svo á ýmsa vegi.“ (Helgi Sigurðsson 1891:172) Þessi saga sem Helgi lætur fljóta með fræðaefninu er eftirtektarverð fyrir ýmissa hluta sakir. Hér kemur meðal annars vel fram að þeir sem voru að yrkja og gerðu það ekki rétt samkvæmt hefðinni voru einfaldlega kallaðir leirskáld og ef miðað er við tóninn í sögunni hafa þeir ekki verið hátt skrifaðir. Við getum tekið undir með Helga (og Árna á Ökrum) um það að vísa leirskáldsins er hreint ekki góður kveðskapur. Sagan sýnir líka að það er ekki nýtt að einhver kveðji sér hljóðs og láti frá sér fara vísur sem hagyrðingasam- félagið getur ekki sætt sig við. Leirskáldin hafa verið til allt frá því fyrir daga Snorra. Skemmtilegust er þó sú niðurstaða, ef sagan er sönn, að leirskáldið hafi óviljandi orðið til þess að gefa snillingnum Sigurði Breiðfjörð hugmynd að nýjum og bráðfallegum bragar- hætti. Leirskáldið vissi ekki að síðlínur áttu ekki að vera lengri en frumlínur, samkvæmt hefðinni sem í þessu sem öðru hafði ævinlega orðið því ofviða. RIA. Heimild: Helgi Sigurðsson. 1891. Safn til bragfræði íslenzkra rímna að fornu og nýju. Prentað í Ísafoldarprentsmiðju, Reykjavík.

x

Stuðlaberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.