Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 14

Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 14
14 STUÐLABERG 1/2012 Hugur og hjarta Ólafur Runólfsson er þekktur hagyrðing- ur, fljótur að yrkja og vel farinn bragarmáli. Hann hefur nú sent frá sér vísnabók mikla að vöxtum, hvorki meira né minna en 188 blað- síður. Bókin nefnist Hugur og hjarta og fjallar um heilsufarsmál. Ólafur lýsir í inngangi þeim hremmingum þegar hann lét undan þrýstingi umhverfisins og þáði flensusprautu en varð svo veikur að við sjálft lá að hann kveddi jarðheim. Upp úr þessu greindist hann með stíflaðar kransæðar og var á sjúkrahúsi heila 15 daga, sem á honum má skilja að hafi verið þeim 15 dögum of mikið. Vísurnar fjalla um sjúkrahússdvölina. Aftan á bókinni má lesa eftirfarandi umsögn eftir Jóhann Guðna Reynisson: „Vísnasnilldin er Ólafi í blóð borin og í raun má segja að hann hugsi í hendingum. Þessi bók er því sannkallaður happafengur fyrir alla þá sem unna góðum og vönduðum kveðskap og njóta þess að lesa vandað bundið mál um efni sem mörgum er hugleikið.“ Vísurnar lýsa lífinu á sjúkrahúsinu og síðan eftir að heim er komið. Þegar verið var að undirbúa skurðaðgerðina kom þessi vísa: Á lágum bekk ég liggja má, ljúf þar kona situr hjá. Af mér rakar öll mín strá allt frá höku að stórutá. Og hann yrkir um sjálfan sig: Á ytra borði er ég hrjúfur, oft er fremur stutt í grín. Inn við beinið er ég ljúfur eins og þegar sólin skín. Lauslega áætlað munu vísurnar í bókinni vera í kringum eitt þúsund. Þetta er kallað að vera hraðkvæður. Ný axarsköft eftir Jóa í Stapa Bók Jóa í Stapa, Ný axarsköft, kom út árið 2011. Þetta er falleg bók, innbundin með myndskreyttri hlífðarkápu. Höfundinn þarf ekki að kynna. Jóhann Guðmunds- son, kenndur við Stapa í Lýtingsstaða- hreppi í Skagafirði, hefur í áratugi verið þekktur sem einn af okkar fremstu hag- yrðingum. Hér verða birtar nokkrar vísur úr bókinni, valdar af handahófi. Við áningu í Austurdal Lindin hjalar kvæði kátt, hjá klettsins svala riði. Á grænum bala sitjum sátt í sól og dalafriði. Ferðalok Við höfum átt á fjöllum frí. Fegurð þeirra lokkar. Safnast hefur sólskin í sálarhirslur okkar. Kvenlýsing Konunni er létt að lýsa. Ljúf í sinni, prúð og nett. Hún er annars eins og vísa, orðuð vel og kveðin rétt. Kona ein var að fegra garðinn sinn Þú átt skilið þjóðar hrós. Þitt er markað sporið. Ef þú græðir eina rós yrkirðu ljóð um vorið. Bros Lítil snót og létt í spori laus við heimsins tál, brosir eins og blóm á vori og bræðir hverja sál.

x

Stuðlaberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.