Lesbók Morgunblaðsins - 28.01.1984, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 28.01.1984, Blaðsíða 5
maðurinn. Samt hef ég bara Lesið eina bók eftir hann og það er smásagnasafn sem heitir Cockatoos. Ég sat yfir þeirri bók, mögnuð bók. Og þá ákveður maður, jæja, nú þarf ég að lesa meira eftir hann þenn- an, en það liggur við að hann sé sá eini. En úr því þú spurðir um lestur þá vil ég líta svo á að ég hafi ekki bara sótt mínar im- pressjónir í lestur. Ég hef búið og dvalist á ýmsum stöðum í útlöndum — írlandi, Sví- þjóð, Frakklandi, Kaliforníu — um lengri eða skemmri tíma, og þegar ég var krakki var ég í sveit hingað og þangað um landið. Ég hef þannig nokkuð breitt svið og það er vafasamt að ég væri rithöfundur ef ég hefði ekki sogið í mig áhrif frá þessum stöðum og fólkinu þar. Þegar ég var tíu ára var ég eitt sumar fyrir norðan, á svona þingeysku menningarheimili, þar sem kon- an á bænum sagði okkur söguna um Vesa- lingana eftir Victor Hugo meðan hún var að búa til rabarbarasultuna. Svo voru þarna bækur eins og Glæpur og refsing eftir Dostoévskí og þetta las maður. Ég var líka hjá frændfólki í Skaftafellssýsl- unum sem voru eiginlega annað menning- arsvæði. Fólkið talaði íslensku sem ég kunni ekki að meta þá en var alveg stór- kostlegt gullaldarmál, gerði ég mér grein fyrir seinna. Og lífsstíll- inn; fólkið bar álíka virð- ingu fyrir dauðum hlutum og lifándi, fyrir dýrum og mönnum, og nostraði við hvaðeina sem það tók sér fyrir hendur. Þegar ég kem þangað austur núna finnst mér ég vera komin heim, enda eru kannski bestu minningar sem ég á þaðan. Ein úti í náttúr- unni að reka beljurnar eða eitthvað svoleiðis. Þetta allt sama hefur, held ég, haft meiri og betri áhrif á mig og mín ritstörf en einhverjar bækur sem ég hef lesið. Sem betur fer man ég frekar vel allt sem fyrir mig hefur komið, bæði gott og illt, frá bérnsku og fram úr. Það er afskap- lega mikill kostur ef mað- ur man rétt — þá hefur maður samband við sjálf- an sig, veit hver maður er. Mér finnst skipta svo óendanlega miklu meira máli að vita hvað gerðist heldur en að túlka hvers vegna. Ég vil ekki segja: „Ég er svona af því að þetta-og-þetta-og-þetta“, heldur: „Ég er svona. Þetta var svona.“ Punkt- ur. Enn út í aðra sálma. Ætl- aði að spyrja þig um viðtök- urnar viö Skáldsögum. Ertu ánægö með þær? Ég má náttúrlega vel við una. Ritdómararnir voru pósítífir og fólk hef- ur verið það líká. Þessir dómar voru ábyrgari en þeir sem maður hefur oft fengið áður. Eiginlega all- ir sem skrifuðu um bókina gerðu það á ábyrgan hátt — þeir höfðu hugsað mál- ið og reynt að sjá eitt- hvert system út úr þessu, en það er ekki þar með sagt — guð minn almátt- ugur! — að maður sé endi- lega sammála þeim. Höf- undur þarf heldur ekkert að vera sammála. Sumt veit maður auðvitað að er vitleysa; maður skrifaði þetta nú sjálfur og sumt passar bara alls ekki. Einn ritdómarinn taldi mig draga dám af Guð- bergi og birti tilvitnun úr bókinni því til staðfest- ingar. Nú er það að vísu rétt að ég er mjög hrifin af Guðbergi og álít hann alls ekki hafa þann status hér á landi sem hann ætti að hafa, en ritdómarinn hefði eiginlega ekki getað fundið nokkurn kafla í bókinni sem er dæmigerðari fyrir mig og minn persónulega húmor en ein- mitt þennan! Svona getur þetta farið. Þetta er bara séns sem maður tekur þegar maður lætur eitthvað frá sér — þá er mað- ur búinn að setja þetta upp í hendurnar á fólki til notkunar og misnotkunar, túlkun- ar og mistúlkunar, og það verður að hafa það. En það var þarna ein ^rein sem fór ferlega fyrir brjóstið á mér. Mér finnst ekki hægt að byrja ritdóm um einhverja bók svona: „Steinunn er allaf létt og in- dæl.“ Þetta er svona axlarklapp af síðustu sort og mér finnst alveg furðulegt á þess- um kvennaumræðutímum að einhver skuli láta hanka sig á þessu. Sérðu í anda Pétur Gunnarsson fá svona ritdóm: „Pétur er alltaf léttur og indæll.“ Þetta er náttúr lega bara af því að maður er kona. Þar að auki er fullyrðingin röng. Ég er ekki alltaf létt og indæl. Ég get verið bæði þung og meinlég. Ég man eftir viðtali viö þig sem byrjaði svona: „Steinunn er sætasta skáld á íslandi". Kynferðið skiptir sem sé máli í sambandi við viðtökurnar sem þú færð? Já. Það er alveg á hreinu. Að vera kvenkyns vinnur bæði með og á móti. Enda þótt ég sé búin að vera rithöfundur í fullu starfi þetta lengi og hafi alltaf átt ágætis hljómgrunn, þá á ég ennþá í vissum erfið- leikum með að vera tekin alvarlega. Af einhverjum ástæðum á tiltölulega huggu- leg kona á besta aldri erfiðara með að vera tekin alvarlega en tiltölulega huggulegur karlmaður á besta aldri. Líklega hef ég fengið meiri athygli út á þetta en kannski ekki réttu sortina af athygli. Þetta er eitt- hvað að breytast, ég segi það ekki, og eins og ég minntist á áðan þá var þessi gagn- rýni sem ég fékk núna miklu ábyrgari en flest sem hefur verið skrifað um mig og mín verk áður. En konur búa eftir sem áður við miklu viðkvæmari status í rithöf- undabransanum en karlmenn. Ég hef séð verk eftir konur hafin til skýjanna af því höfundurinn var kona og svo eru önnur verk nídd niður af því að höfundurinn er kona. Það er helvíti „tricky" að vera kona í þessu. Konur eiga auðvelt með að komast í tísku en þær eiga líka mjög auðvelt með að detta úr tísku og eiga sér þá kannski ekki viðreisnar von eftir það. Jamm. En við vorum að tala um þessa bók, Skáldsögur. Ertu sjálf ánægð með hana? Ja, mér finnst hún standast góðan sam- anburð við annað sem er verið að gera hérna á svipuðum grunni. Ég veit líka að þetta er ekki akkúrat það sama og aðrir hafa verið að gera. Það út af fyrir sig er pósítíft. Það er ekki hægt að krefjast þess að maður sé með einhverja bullandi nýj- ung en það er samt í þessu annar tónn, og mér finnst bókin líka hafa þann kost að hún er fjölbreytt. Þetta eru eiginlega tvær bækur en hún virðist hafa sloppið furðan- lega við að verða tætingsleg. Eða hvað? Það sem mér finnst þýðingarmest við bók- ina er stíllinn á henni og málfarið; ég bregð fyrir mig — finnst mér að minnsta kosti — mörgum mismunandi tegundum af stíl. Skrýtið að það var varla minnst á þetta í ritdómunum. Ég vona að ég geti haldið áfram að hafa ólíkan stíl á því sem ég geri, ég held að það henti mér mjög vel. Svo eru auvðitað aðrir sem geta verið mjög fínir rithöfundar og alltaf skrifað með sama stíl. Ég er voðalega mikið á móti því að setja upp einhverjar formúlur um það hvernig rithöfundar eigi að vinna — það er ekkert algilt í því, bara hvað hverjum og einum hentar. Ég er á móti allri for- skriftastefnu; að einhver ein stefna í bókmenntum eigi að vera ríkjandi á hverj um tíma, og mér verið að lýsa eftir verkum af einhverju ákveðnu tagi. „Nú erum við búin að fá svo mikið af þessu, nú verður að fara að breyta eitthvað til“. Þó ég hafi gaman af að breyta til er ekki þar með sagt að allir eigi að gera það. Stefnur og stefnur. Finnst þér einhver stefna vera ríkjandi meðal ykkar, þessara prósa-höfunda af yngri kynslóð? Ja, það svífur einhver léttur andi yfir vötnunum, finnst þér það ekki? Ef maður tekur bækur eftir fólk af minni kynslóð og yngra þá eru þetta yfir- leitt skemmtilegar bækur, enda vill fólk lesa þær. Það er sem sagt einhver ákveðinn húmor í flestum þessum höfundum. Og svo er náttúrulega líkt með þessum höfundum að þeir skrifa mikið um voðalega svipað efni — þá er síð- asta bókin hans Þórarins, Kyrr kjör, blessunarlega undanskilin. Efnið skiptir að vísu afskaplega mis- miklu máli í þessum bók- um en það er eitthvað sem höfundarnir taka beint úr umhverfinu, úr sinni eigin reynslu. Á vissan hátt finnst mér þetta svolítill mínus — nú er ég komin út í forskriftirnar! — vegna þess að ég er orðin ægilega þreytt á þessari ævisagnatradisjón hérna heima, vont þegar hún fer alveg yfir í skáldskapinn líka. Það sem mig virki- lega langar í er einhver spuni hjá höfundinum — forskriftin enn! Ég meina, það er þetta sem mér hef- ur alltaf fundist vera svo aðdáunarvert hjá Guð- bergi; hvernig hann getur sett sig inn í sálarlíf alls mögulegs fólks án þess að þekkja svo mikið til þess. Þetta finnst mér eftir- sóknarvert, að geta spunnið um allt milli him- ins og jarðar. Listin er sú að vita hvernig hlutirnir eru án þess að hafa prófað þá. Ég er t.d. ekki sérlega ævintýragjörn af því mér finnst ég vita voðalega mikið hvernig margt er án þess að ég hafi nokkurn tima athugað málið. En stangast þetta ekki á við að rithöfundar eigi að ferðast, hitta mann og ann- an, vera á fartinni? Nei. Það er tvennt ólíkt að ferðast til þess að sækja sér inspírasjón og hitt að þurfa að prófa allt á sjálfum sér. Persónu- lega skil ég ekki hvernig það getur farið saman að vera bæði „busy-body“ og góður rithöfundur. Maður má ekki hafa of mikið um- leikis. Flýtir og hraði og asi út um allt, þetta gerir mig hræðilega heimska! Ef ég þarf að verja einum eftirmiðdegi í bönkum og sparisjóðum, fara í búðir og standa í ein- hverju svona stappi þá er ég marga daga að ná greindarvísitölunni upp á eðlilegt plan. Mér dettur í hug það sem Málfríður heitin Einarsdóttir sagði einu sinni við mig í viðtali. Ég var eitthvað að spyrja hana um lestur og hún svaraði: „Maður vitkast ekki af því að lesa.“ „Af hverju vitkast maður þá?“ spurði ég. „Ja,“ sagði Málfríður, „af því að hvíla sig... “ Mér finnst vera óskaplega mikið til í þessu. „Flýtir og hraði og asi út um allt, þetta gerir mig hræðilega heimska. Ef ég þarf að verja einum eftirmiðdegi í bönkum og sparisjóðum, fara f búðir og standa í einhverju svona stappi þá er ég marga daga að ná greindarvísitölunni upp á eðlilegt plan.“ LESBOK MORGUNBLAÐSINS 28. JANOAR 1984 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.