Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.1984, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.1984, Blaðsíða 15
Mynd: Jón Axel Hamson Bergeron Smásaga eftir Kurt Vonnegut að var árið 2081, og loksins bjuggu allir við fullkomið jafnrétti. Þeir voru ekki bara jafnir fyrir guði og mönnum, þeir voru jafningjar á allan hátt. Eng- inn var snjallari en annar. Enginn öðrum fegurri, sterkari né snarari. Hið mikla jafnrétti hafði verið tryggt með stjórnarskrárviðaukum nr. 211, 212 og 213 og harð- snúnu eftirliti haftastjóra Bandaríkjanna og fulltrúa hans. Þó var sumt í tilverunni ekki eins og það átti að vera. T.d. fór enn í taugarnar á fólki, að það skyldi ekki vora í apríl. Og það var í hráslaganum í apríl, sem hafta- fulltrúarnir komu á heimili George og Hazel Bergeron og fluttu á braut með sér 14 ára son þeirra, Harrison. Vissulega var það átakanlegt, en George og Hazel gátu ekki veitt því mikla umhugsun. Hazel, sem hafði hversdagslega meðalgreind, gat ekki hugsað um neitt nema í samhengislitlum brotum og George, sem var greindari en í meðallagi, hafði í eyranu lítið útvarpsvið- tæki til andlegrar hindrunar. Lögum samkvæmt þurfti hann að hafa það á sér öllum stundum. Það var stillt á loftskeytastöð ríkisins, sem sendi frá sér skerandi hávaða á 20 sekúndna fresti, svo fólk eins og George misnotaði ekki ósanngjarna yfirburði heilans. George og Hazel voru að horfa á sjónvarpið. Kinnar Hazel voru tárvotar en í augnablikinu var hún búin að gleyma hvers vegna. Bjalla hamaðist í höfðinu á George. Eins og glæpa- menn frá þjófabjöllu flúðu hugsanir hans stjórnlaust út í buskann. „Þetta var fallegur dans hjá þeim,“ sagði Hazel. „Ha,“ sagði George. „Dansinn — hann var fallegur," sagði Hazel. „Jamm,“ sagði George. Hann reyndi að hugsa dálítið um dansmeyjarnar. Þær voru ekki sérstaklega góðar. Að minnsta kosti ekki betri en hverjar aðrar. Þær voru grímuklæddar og pokar fylltir blýhöglum héngu í axlarfetlum, svo enginn fyndi til minnimáttar- kenndar gagnvart andlitsfegurð eða þokkafullum hreyf- ingum. George var með óljósa hugmynd um, að kannski ætti ekki að hefta dansara, en hávaði úr hlustarviðtæk- inu leysti hana upp. George hrökk við um leið og tvær dansmeyjar af átta. Hazel sá viðbragðið, og þar sem hún hafði ekkert hugsanahaft sjálf, þurfti hún að spyrja, hvernig hljóðið hefði verið. „Eins og flaska brotin með hamri," sagði George. „Það gæti verið skemmtilegt að heyra öll þessi ólíku hljóð,“ sagði Hazel dálítið öfundsjúk. „Það sem þeim dettur í hug.“ „Jamm,“ sagði George. „Veistu, hvað ég myndi gera, ef ég væri haftastjóri," sagði Hazel. Hún var reyndar nauðalík Diana Moon Glampers, konunni, sem var haftastjóri. „Ef ég væri Diana Moon Glampers," sagði Hazel, „mundi ég hafa kirkjuklukkur á sunnudögum. Svona vegna trúarbragð- anna.“ „Ég gæti hugsað, ef það væru bara kirkjuklukkur," sagði George. „Ja — kannski, ef þær hefðu mjög hátt,“ sagði Hazel. „Ég held ég yrði fínn haftastjóri." „Jafngóður og hver annar,“ sagði George. „Hver veit betur en ég, hvað er venjulegt?" sagði Hazel. „Einmitt," sagði George og tæpti á hugsun um Harri- son, þennan óvenjulega son, í fangelsinu. Skothríð í höfðinu batt enda á hana. „Vá,“ sagði Hazel. „Var þetta ekki algert dúndur?" Þvílíkt dúndur, að George tárfelldi rauðeygður, ná- hvítur og skjálfandi. Tvær dansmeyjar af átta steinlágu í sjónvarpssal og héldu um höfuðið. „Þú ert allt í einu svo þreytulegur," sagði Hazel. „Leggðu þig nú krúsindúllan mín. Þá geturðu hvílt farg- pokann á púðunum." Fargpokinn var úr segldúk og í honum 47 pund af blýhöglum. Hann var hlekkjaður með hengilás um hálsinn á George. „Hvíldu nú pokann svo- lítið,“ sagði hún. „Mér er sama þó við séum ekki jafn- ingjar í smástund." George handlék pokann. „Hann pirrar mig ekkert," sagði hann. „Ég er hættur að taka eftir honum. Hann er eins og hluti af sjálfum mér.“ „Þú hefur verið svo þreyttur og útkeyrður upp á síðkastið," sagði Hazel. „Ef við gerðum bara smágat á pokann og tækjum út fáeinar blýkúlur — bara fáeinar." „Tveggja ára fangelsi og tvö þúsund dala sekt fyrir hverja kúlu, sem ég tæki út,“ sagði George. „Léleg býti það.“ „Ef þú tækir bara örfáar, þegar þú kemur úr vinn- unni á kvöldin," sagði Hazel. „Eg meina — það er ekki eins og þú standir í samkeppni hérna. Þú bara situr einhvers staðar." „Ef ég reyndi að komast upp með það mundu aðrir reyna það líka,“ sagði George. „Og allt í einu væri aftur skollin á skálmöld. Allir á móti öllum í bullandi sam- keppni. Þú yrðir varla hrifin af því.“ „Ég mundi ekki þola það,“ sagði Hazel. „Þarna sérðu," sagði George. „Hvað heldurðu að verði um þjóðfélagið, þegar fólk hættir að virða lögin?" Þó Hazel hefði mistekist að svara spurningunni, hefði George ekki getað hjálpað henni. Eimpípa blés hraustlega í höfðinu. „Sennilega myndi það leysast upp,“ sagði Hazel. „Hvað?“ sagði George tómlega. „Þjóðfélagið," sagði Hazel. „Varstu ekki að enda við að segja það?“ „Má vera,“ sagði George.. Þá var gert hlé á sjónvarpsdagskránni vegna áríð- andi fréttatilkynningar, en þar sem þulurinn, eins og allir þulir, var alvarlega málhaltur, var efni tilkynn- ingarinnar ekki ljóst í fyrstu. Þulurinn reyndi af mikl- um æsingi í meira en hálfa mínútu að böggla út úr sér „Herrar mínir og frúr.“ Loks gafst hann upp og rétti dansmey blaðið. „Gerir ekkert til,“ sagði Hazel um þulinn. „Hann reyndi. Það er aðalatriðið. Hann reyndi sitt besta með guðs hjálp. Hann ætti að fá launahækkun fyrir að leggja svona hart að sér.“ „Herrar mínir og frúr,“ las ballerínan af blaðinu. Hún hlaut að vera mjög falleg, því gríman, sem hún var með, var óvenju andstyggileg og hún var augljóslega sterkasti og þokkafyllsti dansarinn, því fargpokarnir voru á stærð við það, sem 200 punda beljakar báru. Rödd hennar var undurþýð og hlýleg. Rödd, sem var afar ósanngjarnt að kona beitti, enda baðst hún strax afsökunar og reyndi að hljóma fullkomlega ósamkeppn- isfær. „Harrison Bergeron, fjórtán ára,“ gelti hún rámt, „sem hefur verið í haldi grunaður um samsæri gegn ríkisstjórninni, braust út úr fangelsi fyrir skömmu. Hann er mikill að burðum og greindur með afbrigðum, — er ekki nægilega heftur og álitinn stórhættulegur umhverfi sínu.“ Ljósmynd lögreglunnar af Harrison Bergeron birtist á skjánum, fyrst á haus, síðan á hlið, aftur á haus og loks rétt. A myndinni sást Harrison í allri sinni stærð upp við vegg, sem á voru strikaðir þumlungar og fet. Hann var nákvæmlega sjö fet á hæð. Annars var útlit hans járnhlunkar og skran. Þyngri höft bar ekki nokkur maður. Hann hafði vaxið upp úr höftunum hraðar en haftafulltrúarnir gátu hugsað upp ný. I stað smáviðtækis í eyra, var hann með gríðarstór hlustunartæki á báðum. Gleraugun voru með þykkum, bylgjuðum glerjum, sem gerðu hann hálf-blindan og ollu honum hræðilegum höfuðverk. Brotajárn hékk um allan líkamann. Venjulega var visst samræmi — snyrtilegt skipulag á höftum, sem sterku fólki var úthlutað, en Harrison var eins og gang- andi ruslahaugur. Hann burðaðist með 300 pund í gegn- um lífið. Til að bjarga andlitinu létu haftafulltrúarnir hann ganga með rauða gúmmíkúlu sem nef, nauðrakað- ar augnabrúnir og aðra hverja tönn sverta. „Ef þið verðið vör við þennan dreng," las ballerínan, LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 16. JÚNl 1984 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.