Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.1984, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.1984, Blaðsíða 11
sem tröllum en ekki mönnum hafi verið ætluð þar vist. Súlnaraðir eru margfaldar og undralangar, fjörutíu og þriggja metra háar, tölu þeirra get ég ekki giskað á, þær eru óteljandi og allar flúraðar myndum og híeróglýfri. Hvarvetna gefur að líta standmyndir úthöggnar í kletta í yfirnátt- úrlegri stærð. Skoplítið er Parþenon á Akrópólishæð í samanburði við þetta. Á ökuferð minni á leiðinni til helgidóms reif ég mig til blóðs á nagla, sem rak oddinn út úr vagnbrík, og draup blóð mitt í rykið á veginum til Þebu. Þegar ekillinn varð þess áskynja að ég var sár orðinn í vagni hans, gekk hann allur úr skorðum af harmi og meðaumkun, reif rýju úr skyrtu sinni og batt um fingur minn sem best hann gat, faðmaði mig að sér innilega og bað Allah nú að græða mig skjótt. Það gerði hann líka á fáum dögum. Hér virtust allflestir ferðalangar hræddir við bakterí- ur eða sýkla einhvurja, nema ég. Mér er ekki ásköpuð þessi mikla umhyggja fyrir heilsunni, þessi árvakri ótti við leyndar hættur í hvurjum munnbita, hvurjum gúlsopa, hvurju fótmáli. Ég fel mig áhyggjulaus forsjóninni og veit hún vernd- ar mig svo lengi sem henni þykir við hæfi, en ekki lengur. Af tuttugu og sex manna hópi Kirstine frá Tjöruborg var ég víst annar þeirra tveggja, sem aldrei kenndu sér nokkurs meins í þær þrjár vikur sem dvalið var í Egyptalandi. Ekki angraði mig magapína, höfuðverkur né þursabit. Þarna í Karnak er eitt langt og breitt stræti og er fylkt frain með því báðum megin ljónsbúkum með voldugum hrúts- hausum hyrndum í besta lagi, úthöggnum í forngrýti auðvitað. Þeir eru fjörutíu að tölu og heldur en ekki kynbótalegir, en svona er allt á þessum lygilega stað, óra- langt handan við alla nútímaskynsemi, sem reyndar er kannski engin skynsemi heldur. Þetta er hægt að sýna á myndum og skoða það með eigin augum, sem er best, en ekki lýsa því skriflega að neinu gagni. Stopp. MlKLIR SÉRFRÆÐINGAR LÍKÞVOTTAMENNIRNIR Þetta Hrútastræti kvað hafa verið mikil ástargata í fornöld, og lá alla leið heim að Gullna húsinu, bústað faraós. Vinur minn, Jerzy Wielunski, sem kann öll tungumál, segir að faraó þýði „stórt hús“ bæði á forn-egypsku og hebresku máli. Þarna á bak við musterið var líka annað frægt hús til forna: Hús dauðans, þar sem líkin voru verkuð og gerðir úr þeim smyrlingar til þess að eilífir yrðu þeir. Þar inni unnu líkþvottamennirnir og sérfræðingar mik- illar iðngreinar: að gera lík eilíf. Krók- stjaka var brugðið undir kjálkabarð hins dauða og honum slengt í múglaugina, þar sem allt að þrjátíu lík voru fyrir. Laugar þessar voru fylltar og tæmdar daglega, en síðan voru líkin geymd mánuð í salti og lút til þess að verða ónæm fyrir rotnun. Prest- ar höfðu umsjón með Húsi dauðans, en ekki treystu þeir sér til að koma í veg fyrir að þvottamenn og smyrlarar stælu öllu því sem þeim sýndist. Ekki fengust nema úr- þvætti til að taka að sér þessi ógeðslegu verk, og þó því aðeins að greitt væri langt umfram Dagsbrúnarkaup. Þeir þekktust langar leiðir af ódauninum sem af þeim lagði og voru útilokaðir frá vínkrám og vændiskvennahúsum. Þeir svívirtu jafnvel lík hinna virtustu ríkisstjórnarmanna, skáru undan þeim kynfærin og seldu þau galdramönnum, sem bjuggu til úr þeim lyf gerð til að auka mönnum og konum kyn- orku, líkt og nashyrningahorn hafa lengi verið notuð í því skyni, og eru veiðiþjófar þar af leiðandi nálega búnir að útrýma nashyrningum úti á villimörkinni. Heyrst hefur, að Japanir geri góð boð í selskaufa hér á landi núna, svo þetta er bæði nýtt og gamalt mál. Minnstan ama höfðu verka- menn í Húsi dauðans af fátæklingunum. Þeir lágu friðsamlega í sínu ramma lútar- og saltbaði, en líkum hinna beturmegandi varð að sýna meiri natni. Verð smurningar var mjög mismunandi eftir efnum, en á smurningunni var óheyrilega svindlað, og voru gerðir háir reikningar fyrir dýr smyrsl af ýmsu tagi, enda þótt allir fengju sömu sesamolíuna. Aðeins líkamir fyrirfólksins voru smurðir samkvæmt lögskipuðum reglum. Hinir voru bara fylltir olíu, sem eyddi innyflun- um, og síðan úttroðnir með harpískenndu efni. Meðal starfsliðs Húss dauðans voru þó alltaf nokkrir fyrirtaks verkamenn, sem báru virðingu fyrir iðn sinni og höfðu hvur um sig sína sérgrein: einn höfuðið, annar kviðarholið, þriðji hjartað, fjórði lungun. Einn hafði tilmynda þann starfa að draga heilann út gegnum nefið og skola síðan heilabúið með hreinsandi olíum. Það er annars ekki tilgangur minn með þessum skrifuðum orðum að fræða aðra um það sem ég þekki illa sjálfur og fæ ekki skilið eigin skilningi, heldur verð að slæða upp úr frásögnum annarra, sem ef til vill eru jafn villuráfandi í myrkri fortíðarinn- ar og ég sjálfur. SUMT HAFÐI ÉG SÉÐ í HOLTUNUM Ætli sé þá ekki nærtækara að hugsa til bændafólksins á ökrunum sunnan og aust- an við Cairo? Það sá ég eigin augum og við endurminninguna um það hressist ég allur og verð næstum því eins og heima hjá mér, eða niðri í Flóanum á Baugstaðarjómabúi austan við Stokkseyri, þar sem stórt vatnshjól snýst og snýr einföldum vélum með því að láta litla lækjarsprænu steyp- ast í tréhólfin á vatnshjólinu, og fá það með þeim hætti til að snúast heiminum til blessunar. í Egyptalandi er þessu öfugt farið: þar er það asni eða uxi sem snýr stóra vatnshjólinu og þeir snúa því rang- sælis svo að vatnið streymir upp og rennur inn á landið, á Baugstöðum fellur það niður og streymir til hafs. í egypsku sveit- inni sá ég sitthvað sem ég hafði séð heima í Guttormshaga á barnsaldri, tilmynda konur að þvo þvott út undir beru lofti niðri við vatnsbólið og berja óhreinindin úr flík- unum með tréklappi. Egypsku konurnar gerðu þetta niðri við síkið, en við heima við Lindina. Lindin var köld og tær, Nilar- síkið gruggugt og volgt. Eftir áhrifamikla, heita og þreytandi göngu um fagurflúruð hof Karnak, komum við að „Vatninu helga" sem er stór fer- hyrnd tjörn og er búin að vera við lýði í mörgþúsund ár, enda var hún notuð sem vígsluvatn til að lauga ungpresta, sem ætl- uðu að þjóna Amon Ra sólguði á dögum Ramsesar II. Á þessum slóðum, í gömlu Þebu, eru gróðursældin og hrjóstrin hvar- vetna í nábýli: sandblásnar hæðir, sígræn- ir pálmalundir. Nútíma Listaverk Verða Hjákátlega Smá í Lúxor er annað hérumbil jafn fárán- lega hrikalegt musteri. Við héldum þangað sitjandi uppi í skrautlegum, en fremur skítugum lystikerrum, sams konar og þeirri sem ég hafði flipað fingur minn á í morgun. Erindið var hið sama og fyrr: að falla í stafi og vera orðlaus andspænis risalíkneskjum af guðum og kóngum, súlnagöngum, óbilískum, lituðum veggrist- um og híeróglífri. Auðvitað væri það ekki annað en heimska af versta tagi, ef ég færi að bisa við skriflegar lýsingar á yfirgengi- legu skrauti þessara gömlu menningar- minja. Nöfn guða, kónga, drottninga, hirð- gæðinga og hershöfðingja þekkja sagn- fræðingarnir og geta romsað þau upp, en hvurjir voru listamennirnir sem mældu út, mótuðu meitluðu og máluðu? — Þau virð- ast gleymd. En eftir að hafa séð verk þeirra, finnst mér enginn listamaður leng- ur vera til. Hjákátleg er „Krían" í hraun- rimanum austan við Litla-Hraun miöað við „Nál Kleopötru", lítilsigldur er Ingólf- ur á Arnarhóli miðað við Ramses II. í Þebu, Lúxor og Abú Simbel. í samanburði við þjóðir nútímans voru þjóðir þátíðar- innar þó smáþjóðir einar að fólksfjölda. Egyptar undirokuðu að vísu sumar þeirra langtímum saman, skattpíndu þær, þótt þeir kæmust reyndar ekki í hálfkvisti við skattheimturakka okkar íslendinga nú á dögum, þrælahald iðkuðu þeir líka, svo sem lög leyfðu í þá tíð. En öngva þjóð er hægt að gæða takmarkalausum sköpun- armætti með tilskipunum og vopnavaldi. Breskir rithöfundar og leikarar hafa búið til flutnings á síðkvöldum við svinxinn mikla í E1 Gísa og musterið í Karnak nokkuð sem þeir nefna „Light and Sounds" (Ljós og hljóð). Þetta er hugleiðing í tali, tónum og kastljósaleik, hugvitsamlegri hátalaranotkun og fleiri leikbrögðum um sögu, trúarbrögð, hugmyndaheim og list Forn-Egypta. Uppfærslan er á köflum afar mögnuð og glæsileg. Áhorfendur og hlust- endur sitja á þrephækkandi pöllum eins og í leikhúsi, og fer um þá heitur hrollur þeg- ar Amon Ra, aðrir guðir og sagan sjálf tala til þeirra frá glóandi súlum og myrk- um gjám musterisbáknsins: „Hægra auga mitt er dagurinn, vinstra auga mitt nótt- in.“ En þó að bresku skáldin gerðu margt vel í þessari samantekt, þá heyrði ég þau ekki benda á undirrót og aflvaka hinnar yfir- þyrmandi húsagerðar, höggmyndalistar og skrautmunagerðar. Sjálfum datt mér hins vegar í hug, að þetta væri ekki ávöxtur guðlegs innblásturs, heldur væri það takmarkalaus sjálfselska valdhafanna fornu og löngun þeirra til að sýna lýðnum mikilleika sinn og mátt. Þeir vildu gera sjálfa sig að guðum, og lífsins kross sem drottnar Dánarheims eru á öllum vegg- myndum að rétta þeim við komuna til Vesturlandsins, hann er ekki ætlaður al- menningi. Almenningi er ekkert líf ætlað, nema jarðneskur fljótsbakkinn, þar sem þeir fæddust. Það var dýrt að láta smyrja sig til grafar og enn dýrara að láta gera sér steingröf vestur í fjöllunum. Allslaus maður átti öngvan kost á eilífu lífi. Hans beið ekki annað en gráðugur kjaftur krókódílsins í Ánni eða malardys að húsa- baki. Ekkert af þessu var nefnt í „Light and Sounds" bresku snillinganna. Þar með gekk ég um borð í „Flota Tút konungs", sem lá hvítur sem svanur við fljótsbakkann framundan Lúxorborg, og fór að lifa þar allsnægtalifi meðal annarra ferðamanna og vingjarnlegrar skipshafn- ar. Ferðinni var heitið lengst suður í land, til Aswan, þar sem við áttum pöntuð her- bergi á Katarakt Hóteli, þar sem þeir Kitchener hershöfðingi og Winston Chur- chill höfðu áður gist á herför sinni til Kartúm að bjarga Gordon, þó fyrir lítið kæmi. STEINGERÐUR GUÐMUNDSDÖTTIR Björn Ólafsson fiðluleikari Lokið er þrautum — lífsskeið runnið — liggur gullskálin brotin °g silfurþráðurinn sundur slitinn. Kveðja líkaböng — lágróma — Ijúfling beztan. Fleyg — úr viðjum váböls leyst — fer sál um langþráða Ijóssali. Óma þar yndis tónar hylla vorglaðir — vin. Ástmög hljóma vin fossa fjalla og blóma — mannvin mestan. Þökk órofa tryggð —- ævilanga ástúð og umhyggju alla. Blika daggir í bláu auga — „bróður“ minning lauga. Endurbirt vegna mistaka. LESBOK MORGUNBLAOSINS 16. JÚNÍ1984 1 1

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.