Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.1984, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.1984, Blaðsíða 5
V Til rinstri: Gimli við Winnipeg- vatn, aðalbærinn í Nýja-íslandi. Til hægrí: Winnipeg, listamiðstöð næst á myndinni. Frumbyggjar í Nýja-íslandi úti fyrir bjálkakofa, fyrstu landnemarnir urðu að reisa sér þesskonar híbýli. Scotia, gáfu 82% íslendinga í Kanada upp íslensku sem móðurmál sitt, og voru þá 73% af því fólki fædd þar í landi. Samkvæmt skilgreiningu manntalsins frá 1931 á orðinu „móðurmál" merkti það að viðkomandi hefði lært þá tungu sem um var að ræða á undan öðrum tungum og síðan haldið viö þeim lærdómi að einhverju leyti. í kanadíska manntalinu frá 1941 stendur að 73% þeirra íslendinga sem þar er getið hafi átt íslensku að móðurmáli en skilgreiningu manntalsins á orðinu móð- urmál hafði þá verið breytt, þannig að það merkti að- eins fyrsta mál sem viðkomandi hafði lært en ekki að kunnáttu í því máli hefði verið haldið við. Einnig skal bent á að í þessu manntali sluppu írar í Quebec inn í dilk íslendinga, og stöfuðu þau mistök af mislestri á orðinu „irlandaise", og var það orð síðan þýtt á ensku sem „Icelandic“. Svo að bætt sé ögn við þessar tölfræði- legu upplýsingar þá voru íslendingar samkvæmt því sem skráð er í manntölum árið 1931,19.382 í Kanada en 7.413 í Bandaríkjunum. Árið 1960 voru þessar tölur 30.623 í Kanada en 8.669 í Bandaríkjunum. Svo að minnst sé á skiptingu milli borga og sveita, þá skiptust Manitóba íslendingar þannig niður árið 1941 að 8.122 bjuggu úti á landsbyggðinni en 5.832 í borg eða bæjum. Fimm árum síðar, þ.e. árið 1945, voru þessar tölur orðn- ar 5.460 í sveit en 2.830 í bæjum og borgum. Verður sú snögga breyting vafalaust að verulegu leyti rakin til fólksflutninga frá Manitóba vestur á Kyrrahafsströnd. Samkvæmt tölum frá 1960 voru 30.623 fslendingar í Kanada, þar frá má þó draga nokkur þúsund Ira í Quebec, og 8.669 í Bandaríkjunum. Vitaskuld er hér mestmegnis um að ræða fólk af íslenskum ættum og tölurnar ekki nákvæmar. Hyggilegt er engu að síður að hafa þá í huga þegar rætt er um vesturíslensku og þá einkum þann hluta sem gefur vísbendingu um íslensku sem móðurmál vestra og viðhald þess. Þessar prósent- tölur eru mjög háar í Kanada, einkum þegar höfð er til hliðsjónar önnur skandinavísk þjóðbrotamál þar í landi. Verður þó að hafa hugfast að höfuðvígi þeirra hefur alltaf verið í Bandaríkjunum. Þótt höfðatölurnar sem nú voru nefndar séu líklega síst of háar, þá er ekki útilokað að prósenttölurnar um „móðurmálið" kunni að vera allríflegar. Þykist ég stundum hafa rekist á fólk sem hefur tjáð mér að það hafi einungis talað íslensku í bernsku þótt slík staðhæf- ing hafi mér þótt ótrúleg. Held ég að sumum þyki gaman að trúa þessu um sjálfa sig eða bókstaflega trúi því þó ekki styðjist það við full rök. Má vera að eitthvað af þessari trúarþörf hafi slæðst inn í manntalsskýrslur þótt ég þori ekki að fullyrða þar um, en umræddar prósenttölur eru vafalaust ekki út í hött. „hið stríða MENNINGARSTOLT“ Jafnvel þeir sem þekkja aðeins lítillega til Vestur- fslendinga hafa orðið þess varir að þeim virðist það kappsmál að geta talað mál forfeðra sinna. Einar Haug- en hefur í þessu sambandi rætt um „hið stríða menning- arstolt" Vestur-íslendinga. Sú skýring er ef til vill ekki alröng ef litið er til 19. aldarinnar, en nær þó líklega full skammt. Vesturfaraskrár, sem áður var vitnað til, sýna að tala útflytjenda frá fslandi til Kanada var mjög há miðað við stærð íslensku þjóðarinnar á því tímabili sem skrárnar ná til. Enn athyglisverðari er þó sú staðreynd að fyrstu árin vestanhafs hélt þetta fólk hópinn og stofnaði árið 1875 sérstaka nýlendu sem það nefndi Nýja ísland. Hefur margt verið ritað um stofnun þeirr- ar nýlendu. Ekki dreg ég í efa að íslensk þjóðerniskennd hinna fyrstu Ný-íslendinga hafi verið sterk, enda þótt þeir væru orðnir langþreyttir þegar áfangastað var náð. Nýja ísland var hluti af óbyggðum Kanada þegar fs- lendingar komu þangað fyrst og ekki enn hluti af Mani- tóbafylki, og voru norðurmörk fylkisins jafnframt landamerki Nýja íslands að sunnanverðu. Af þessu leiddi að ekkert stjórnmálasamband var milli Nýja ís- lands og fylkisstjórnar Manitóba. Sat yfirstjórn nýlend- unnar, eins og það var nefnt, í höfuðborginni Ottawa, en hvort tveggja var að sá staður var í órafjarlægð við nýlenduna og samgöngur svo erfiðar í milli að nýlendu- búar urðu að taka alla stjórnun í sínar hendur. Var það gert í samráði við sambandsstjórnina í Ottawa, en ekki var um eiginlega lýðveldisstofnun að ræða þó stundum hafi verið látið að því liggja. Ný-íslendingar hófu út- gáfu blaðs árið 1877 og birtu stjórnarlög sín í fyrsta tölublaðinu. Þótt Nýja ísland yrði fáeinum árum síðar hluti af Manitóbafylki, giltu þó ýmis ákvæði stjórnar- laganna allt fram til ársins 1897. í lagagreinum þessum eru að vísu engin ákvæði um íslenskukennslu en þó má með vissum hætti segja að talsverð málvernd væri í því fólgin að nýlendunni var stjórnað á íslensku í um það bil tvo áratugi. í fyrstu var Nýja ísland einangrað í landfræðilegum skilningi og þess því síðar að vænta að áhrifa hinnar engilsaxnesku tungu gætti mjög. Auk þess hef ég getið þess til að austurevrópskir innflytjendur sem urðu næst Indíánum fyrstu nágrannar Ný-íslendinga hafi að nokkru leyti einangrað íslensku frá ensku. Fólk þetta, sem tók að flytjast til Nýja íslands eða í grannhéruð þess um og uppúr 1890, var flest af úkrænskum ættum og var lítt talandi á ensku. Auk þess hafði lestrarkunn- átta verið frá því tekin í heimalandi þess fyrr á öldinni. Þótti löndum það með ódæmum að hinir nýju grannar þeirra yrðu að krota kross á blað í stað nafns og skapað- ist af þessu nokkur stéttarmunur, að minnsta kosti í vitund íslensku innflytjendanna. Úkrænumenn og Pól- verja nefndu þeir Galla. Er það nafn dregið af nafninu Galicia og hafði niðrandi merkingu. Hlutu flest þjóðar- brot í Kanada sambærileg nöfn. í Winnipeg voru ís- lendingar nefndir Goolies, og fannst mörgum hart und- ir því að búa, þótt merking þessa uppnefnis sé hreint ekki ljós. En hvað sem þessum aukanefnum líður, þá mælti flest gegn því að móðurmál Ný-íslendinga yrði fyrir slavneskum áhrifum. Hins vegar kann ég að hafa látið of mikið frá mér fara um varnarmátt slavnesk- unnar á þessum slóðum. Dr. Albert Kristjánsson pró- fessor í þjóðfélagsfræði við Manitóbaháskóla, sem ólst upp á Gimli í Nýja íslandi, hefur tjáð mér að þegar tvö þjóðbrotamál lendi í nábýli í Vestur-Kanada þá verði enska fljótlega lingua franca (þ.e. sameiginlegt mál) í viðskiptum þeirra í milli. Báðir séu í upphafi jafnófimir í þeirri tungu og því jafnófeimnir að nota hana sín á milli. Þannig rótfestist tvítyngni (þ.e. kunnátta í ensku auk móðurmáls) fyrr við slíkar aðstæður heldur en þeg- ar enska er næsta granntungan. Ekki hef ég tekið af- stöðu til þessarar staðhæfingar dr. Alberts, en þeim sem rannsaka þjóðbrotatungur kann að vera hollt að hafa hana á bak við eyrað. VARAÐ við enskuáhrifum Því hefi ég gerst svo fjölorður um Nýja ísland að þar skaut íslensk tunga fyrst rótum vestan hafsins. Þar var hafin blaðaútgáfa, sem síðar átti eftir að verða miklu umfangsmeiri í Winnipeg. Og í blöðunum vesturís- lensku er að finna miklar umræður um málvernd. Er þar oftlega varað við enskuáhrifum og sýnilegt að þau hafa ekki látið á sér standa. Má vitna hér í kafla úr grein sem Jóhann Magnús Bjarnason rithöfundur skrif- aði í Lögberg árið 1891. Er sá ljúfi maður þar ærið hvassorður og tekur hann á einum stað svo til orða: „Flestir munu fara í og úr kótinu sínu, borða sinn breakfast, sinn dinner og sinn supper. Flestir þurfa að fá stampa á bréfin sín sem þarf að pósta. Þeir kaupa flestir flour og korvið, hafa fence fyrir framan húsin sín og kringum lotin sín. Bændur brjóta jörðina, hóa upp moldinni, grafa niður pósta, byggja sjenta og vinna daglega á fílnum, þeir láta harness á hestana, slá heyið með mower, rípa kroppið, draga út logga, og geyma kornið sitt í greiniríinu og þeir eiga uxateam, póna og cutter, og lesa pappírinn eftir te. Konurnar þurfa að hafa bauler og broom lifter við stóna, sett á borðinu, wash stand í horninu og carpet í parlorinn, og þær skrobba gólfið og fixa til í húsinu. Unga fólkið fer út fyrir drive og fer á treininu til næstu staða. Stúlkurnar horfa á sig í glasinu og hafa topp, þær bera á sig scent og láta dressmaker búa til kjólana sína, þær sækja um að verða diningroom-stúlkur, eða komast í kitsjenið og londríið, þær verða að baka pie, píla kartöflur, rósta kjöt og klína upp húsið ... “ Málfarið minnir hér allmjög á kvæðisbrotið eftir Guttorm J. Guttormsson sem áður var vitnað í. Sjálfur fræddi Guttormur mig um það að fyrsta kynslóð Vestur-íslendinga hefði staðið nokkuð berskjölduð gagnvart enskum máláhrifum, en önnur kynslóð ná meira jafnvægi. Virðast rannsóknir á vesturíslensku renna stoðum undir þessa staðhæfingu Guttorms, eins og nú skal greint. Árið 1903 birti Vilhjálmur Stefánsson grein í tímarit- inu Dialect Notes sem hann nefndi „English Loan Nouns Used in the Icelandic Colony of North Dakota." Er þar að finna mikinn fjölda tökuorða. Vekur það og sérstaka athygli hve mörg þeirra eru notuð í fleira en einu kyni, en samkvæmt grein Vilhjálms skiptast tökuorðin þann- ig eftir kynjum, 35% eru hvorugkyns, 30% karlkyns, 12% kvenkyns og 23% hvarfla á milli kynja. Árið 1967 gaf ég út grein um vesturíslensku í tímaritinu Scandi- navian Studies og skiptust þá þau tökuorð sem safnað var í þá grein þannig eftir kynjum: 47% hvorugkyn, 29% karlkyn, 20% kvenkyn og aðeins 4% sem hvarfla á milli kynja. Bendir þetta til þess að smám saman hafi skapast hefð eða föst venja um kynferði nafnorða og ruglingur á því sviði hérumbil horfið. NlÐllRLAG í NÆSTA Bl.AÐI LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 16. JÚNÍ 1984 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.