Morgunblaðið - 30.08.1981, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 30.08.1981, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 30. ÁGÚST 1981 65 nótabátinn í haust.. afli, fór í vasa sin, tók þar fram Vísi og bað menn gerast leitarmenn að hvítum ketti með svartan blett í enni og blátt band úr silki um hálsinn. Hann hafði farið að heiman fyrir þrem dögum, og eigendur báðu menn láta vita í ákveðið símanúmer, ef til þessa forláta kattar hefði sézt. Fundarmenn setti hljóða, og Kjarval endaði mál sitt eitthvað á þessa leið: „Þið hafið sýnt hér mikinn hetjuskap og gert tilraun til að höggva mann og annan, en væri nu ekki nær að gera eitthvað þarft í þjóðfélagi, sem á eins og ætíð í erfiðleik- um. Erfiðleikum, af því það hugsar ekki eins og vera ber um ketti sína, og á ég þar sérstaklega við ungdóminn. Auðvitað er það kettlingur, sem er týndur, og Vísir biður um hjálp til að leiðbeina honum heim. Væri ekki nær, að við sameinuðumst allir í leit að þessu ágæta dýri heldur en að meiða hér hver annan útaf einhverjum misskilningi og hégóma. Góðir hálsar, þeir sem vilja vinna í anda ungmennafélag- anna, gerið svo vel og komið í kattarleit. Persónulega skal ég ganga í ábyrgð fyrir góðum fundarlaunum." Menn setti hljóða, og kyrrð komst á fundinn, en ekki man ég, hvort nokkur fór i kattarleit. Kjarval stóð andartak í dyrunum, tók djúpt ofan og hvarf á braut. Eitt skiptið, er ég átti erindi við Kjarval, vildi hann endilega sýna mér mynd, sem hann hafði nýlokið við. Ég var á hraðri ferð, en Kjarval vildi endilega fá mig upp á loft í Austurstræti 12, og brátt vorum við þar komnir. Á sama augnabliki og við gengum í vinnustofu mestarans, blasti við herieg sjón. Á trönum stóð stórt og mikið málverk, sem seinna fékk nafnið „Gaman að lifa“, strákar í hraunfjöru, málaðir af miklum lífskrafti — óvenjulega litrík mynd, eitt af allra áhugaverðustu mál- verkum Kjarvals. Þegar í stað varð ég orðlaus og yfir mig hrifinn af þessu málverki og er enn. Áður fyrr kastaðist stundum í kekki milli mín og ýmisa þeirra, er skiptu sér af listum. Ég var frakkur og frekur, orðhák- ur, og átti það til að vera nokkuð óþjáll, eftir því sem mér er sagt. Um þessar mundir var ég eitthvað upp á kant við Ragnar nokkurn Jónsson í Smára, en ekki man ég nú hver ástæðan var, og skiptir það ekki máli. En sem ég stend þarna fyrir framan hið stórkostlega mál- verk Kjarvals, dettur svona út úr mér: „Þetta verður að fara í góðar hendur, helzt ætti þetta að vera á safni." Kjarval segir, að þessi mynd eigi að fara til Ragnars Jónssonar. Þá fussa ég og sveia og segi, að sá idíót eigi ekki slíkt skilið. Kjarval glottir, og það tístir í honum, um leið og hann segir: „Það er nú nokkuð góður idíót, hann Raggi í Smára." Þar með var það útrætt mál. Myndina fékk Ragnar, og mörgum árum seinna var hún í hinni miklu gjöf Ragnars, sem nú heitir Lista- safn ASÍ. Nokkru eftir að Ragnar gaf safnið, hitti ég Kjarval og minnti hann á þetta. Þá brosti minn maður breiðu brosi og endurtók: „Það var nú nokkuð góður idíót, hann Raggi í Smára." Ég held það hafi verið í sama skiptið, að meistarinn bauð mér flatkökur, hákarl og brennivín. Þessar kræsingar geymdi hann í kofforti, sem var meðal gersemanna í vinnustofunni. Hann sagðist eiga flösku af brennivíni — með hrosshári í — sem væri sérlegur viðburður, og hefði mikla náttúru. Hákarlinn var frá góðvini fyrir norðan og flatkökurnar frá vinkonu úti í bæ. Siðan týndi hann upp úr kistlinum hvern pakkann á fætur öðrum, en alltaf var innihaldið myglað. „Það gerir annars ekkert. Þetta er bakað af góðum konum úti í bæ, og brennivínið er frá honum Guðbrandi. Hrosshárið veit ég hins vegar ekkert um, nema hvað það hefur fína náttúru. Hákarlinn er excellent. Já, kæri vinur, ef þú kannt ekki að meta þessa þrenningu, sem hér er á boðstólum, veizt þú ekki hvað er hin rétta tólg. Hin rétta tólg er innihald og gilligogg íslenzku þjóðarinnar. Það er sko náttúra allra hluta, og ef ekki er smekkur fyrir hinni réttu tólg, ja, þá er miklu betra að tala dönsku. Eg skal segja þér eitt. Systir mín, sem er fín ekkja hérna í Vesturbænum og á uppkomna syni, var eitt sinn trúlofuð Dana, og síðan hef ég alltaf talað dönsku við hana. Ekki af því, að hún kynni ekki að meta hina réttu tólg, heldur sko, vegna þess að hún er radíóaktíf. En nú mátt þú ekki misskilja formúluna um hina réttu tólg, því það drekkur ekki nokkur maður brennivín með hrosshári í. Ég skal segja þér leyndarmál. Ef ég drekk brennivín, verð ég svo fjandi edrú, að ég verð algerlega óþolandi. Sko! Nú geymum við bara brennivínið með hrosshárinu, fáum okkur hákarlinn seinna, og flatbrauðinu sleppum við algerlega. Sko, þetta er að hemja náttúruna og fínleika hlutanna, þannig að ekkert verði eftir. Gilligogg og gilligogg, gakk nú með mér út á Borg, og þar fáum við okkur kaffi." Kjarval átti sér uppáhaldsorð, sem aðrir menn notuðu lítið eða ekki. Stundum smíðaði hann þau sjálfur, og stundum þýddi hann úr öðrum málum. Hann kom mér á óvart eitt sinn, er ég kom með enskutalandi mann í heimsókn til hans. Það var verulega flott enska, er hann notaði í það skiptið, og dönsku talaði hann eins og innfæddur, þegar hann vildi það við hafa. GILLIGOGG var heimatilbúið, að ég held, og gat þýtt allt milli himins og jarðar. Yfirskilvitlegt var uppáhalds orð, og hlutirnir höfðu mikla náttúru, aðrir voru radíóaktívir og inikið var um ídeas- sósíasjónir. Allt þetta notaði Kjarval á mjög lifandi og skemmtilegan hátt, enda var orðræða hans oftast á þann veg, að maður hreifst með á eitthvert æðra svið, sem enginn fær nákvæmlega skilgreint. Enda engin þörf á slíku. Kjarval var áfengur og geislavirkur, þannig að allt umhverfi, bæði land og menn, öðlaðist annarlegan tilgang í nærveru hans. Ég man eftir þeim bræðrum, Þorsteini og Jóhannesi Kjarval, er þeir mættust á götu í miðbænum. Það var mikið tekið ofan, og það voru miklar hneigingar, en ekki mæit eitt einasta orð. Þannig gekk þetta lengi vel, og einstaka sinnum kom bros, síðan alvara, enn meiri ofantökur og enn meiri hneigingar, og þessum fundi var lokið. Þegar Kjarvai var horfinn inn í Austur- stræti 12, varð Þorsteini að orði: „Já, hann Jóhannes bróðir má muna tímana tvenna." „Það er fráhverfa í öllum mínum skáldskap," sagði Kjarval. „Mér dettur ekki til hugar að endurlífga eða endur- segja kvæði eftir aðra. Nei, ég þarf að ná einhverri lógík út úr hlutunum, og það verður að vera fráhverft og eitthvað nýtt.“ Þegar Játvarður Bretakonungur stóð í hinum víðfrægu ástarmálum, sem kostuðu hann krúnuna að lokum, gerði Morgun- blaðið sér til dundurs að kasta fram vísuparti, sem síðan var botnaður af lesendum blaðsins, sjálfsagt hundrað sinn- um, ef ekki meir. Fyrri parturinn var þannig: Simpson kemur víða við og veldur breyttum högum. Kjarval botnaði: Mogginn kemur ckki út snemma á mánudögum. Ég held, að ég fari ekki með neina vitleysu, er ég held því fram, að þessi botn Kjarvals hafi einn lifað af þessi ár, sem liðin eru frá því er íslendingar gerðu það sér til gamans að yrkja um kvennamál Bretasjóla. Kjarval gaf út ljóðasafn og aðrar bækur, sem flestar munu nú ófáanlegar. Eitt leikrit skrifaði hann, sem menntaskóla- nemendur færðu upp á listahátíð sinni hér um árið, og var höfundur viðstaddur, en vissi ekki um uppátækið fyrirfram, og mikið hafði hann gaman að þessu. „Veiztu," sagði hann, „við Picasso höfum báðir skrifað leikrit. Sko, maður verður að hafa stíl og lógik í tilverunni. Það er nefnilega heilt lífsstarf að vera maður. Já, mikið og erfitt starf, sem er alltaf að skapast og verða til. Já, það er fullkomið ævistarf að vera maður, ef einhver náttúra á, sko, að vera í tilverunni." Hvalasagan er ein af bókum Kjarvals. Hann var mikill dýravinur að eðlisfari. Hann hafði ímugust á því fólki, sem skaut fugla sér til skemmtunar, og hann var áreiðanlega fyrstur manna hér á landi til að hugsa um að friða hvalinn. Það ritverk eftir Kjarval, sem mér finnst persónulega það bezta, er hann hefur skrifað, er „Bréf frá London", þar sem hann skrifar frænku sinni heima á Fróni. Það er heilsteypt listaverk, sem hefur ótvíræðan boðskap. Glettni og einfaldleiki auðkenna þetta stutta skrif, þar sem höfundur segir þá í Bretlandi vera að smíða dreddnaut, gríð- arlegt skip. Þetta er ritað rétt fyrir fyrri heimsstyrjöld, og á öðrum stað í þessu stutta bréfi segir hann: „Þið ættuð að tjarga nótabátinn í haust, það veit enginn, hvað fyrir getur komið." Þegar Kjarval talar um fráhverfu í skáldskap sínum, er hann ekki eingöngu að tala um ljóðagerð. Það sama gæti hann sagt um málverk sitt. Það er nefnilega sama póesían í báðum þessum hlutum, í öllu, er þessi galdramað- ur lagði hönd á. Jóhannes Kjarval varð snemma á list- ferli sínum að lifandi þjóðsögu. Sú var tíðin hér í borg, að allir þekktu Kjarval og kunnu af honum margar og magnaðar sögur. Þetta hélzt til enda þeirra daga, er hann var landamerki í miðborginni, en eftir að hann hvarf af sjónarsviðinu, hefur verið mikiu hljóðara um þjóðsöguna Jó- hannes Sveinsson Kjarval. í eina tíð bjuggu þeir saman í vinnustof- unni í Austurstræti 12, Kai nokkur Millner, sem var mikill furðufugl, og Kjarval. Eitt sinn brá Kjarval sér að fyrirmyndum sínum úti á landsbyggðinni og var fjarverandi nokkra daga. Sagan segir, að er hann kom aftur til síns heima, hafi Millner nýlokið við að halda mikla veizlu og leysti þá út vini sína með málverkum Kjarvals. Þegar Kjarval sá, hverju fram hafði farið, varð honum að orði: „Mikill höfðingi, Kai Millner.“ Milln- er átti það til að fá heldur óvenjulegar hugdettur, og stundum var geðveiki hans allt að því hættuleg. Einn góðan veðurdag, er Kjarval var að bjástra við trönur sínar í vinnustofunni og sneri baki í Millner, hrópaði Millner skyndilega „Hopp, hopp!“. Kjarval sneri sér við og sá, að Millner miðaði á hann skammbyssu, og á stund- inni verður þá meistaranum að orði „Stopp, stopp!“. Þetta er dæmigerð saga af Kjarval, og guð má vita, hve mikið af þeim voru í gangi á sínum tíma. Þegar Kjarval var kominn á sjúkrahús seinustu mánuðina, sem hann lifði, var hann stundum mjög þungt haldinn, en rankaði við sér svona við og við. Hann hafði þann sið að vilja sofa helzt allsnak- inn, og mun það hafa verið vani hans um langan aldur. Sagan segir, að eitt sinn hafi gamli maðurinn fundið hjá sér sterka þrá til að skreiðast úr rúmi sinu á sjúkrahús- inu og risið úr rekkju og staulast fram á gang. Komið var fast að jólum, og hafði sjúkrahúsið verið skreytt í tilefni hátíðar- innar. Þegar Kjarval er kominn fram á gang og sér ljósadýrðina, rankar hann við sér og verður að orði: „Hver andskotinn, lenti ég þá þarna megin!" Þetta er seinasta sagan, sem ég heyrði af Jóhannesi Sveinssyni Kjarval, alias Giovanni de Efriey. Ég taldi mér trú um það í eina tíð, að ég þekkti Jóhannes Kjarval nokkuð vel. En eftir því sem árin líða og samvera við verk hans hefur orðið mér meir en stundargam- an, held ég, að ég hafi þekkt þessa miklu stærð afar lítið. Ég tek hér upp að nýju setningu eftir Kjarval, sem ég breyti aðeins og held því fram, að það sé ævistarf að þekkja verk og gerðir þessa töfra- manns. „Það er nefnilega heilt lífsstarf að vera maður. Þið ættuð að tjarga nótabát- inn í haust, það veit enginn, hvað fyrir getur komið." (Erindi Valtýs Péturssonar á Reykjavikurvikunni.)

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.