Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.1984, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.1984, Blaðsíða 12
sterka, sameinaða Þýzkalands. Ein Reich, ein Volk, ein Fiihrer — og fjórar líkbrennslur. Lestin er tóm. Magur, bólugrafinn SS-maður lítur inn, hristir höfuðið'í viðbjóði, gefur okkar hóp merki og bendir á dyrnar. „Rein. Hreinsið þetta!" Við klifrum inn. í horninu er troðinn mannasaur. í skáninni má greina armbandsúr og kramin barnalík, nakin lítil afskræmi með stór höfuð og uppblásna maga. Við berum þau út eins og kjúklinga, nokkur stykki í hvorri hendi. „Ekki kasta þeim á vörubílana. Látið konurnar fá þau,“ — segir SS-maðurinn og kveikir sér í sígarettu. Það er eitthvað að kveikjaranum hans. Hann veltir honum fyrir sér vandlega. „Takið þau, í guðs nafni!" — hrekkur út úr mér þegar konurnar hlaupa frá mér í skelfingu og grípa fyrir augun. Það er einkennilega tilgangslaust að nefna nafn guðs hér, því að bæði konurnar og börnin fara upp á vörubíl- ana hvort eð er, hver og hin einasta og barnslíkin með. Við vitum hvað þeirra bíður og við horfumst á í hatri og skelfingu. „Hvað, viljið þið ekki taka við þeim?“ — spyr bólu- grafni SS-maðurinn með undrun og ásökun i röddinni og grípur til skammbyssunnar. „Ekki skjóta. Ég skal taka þau.“ Hávaxin, gráhærð kona tekur við litlu likunum úr höndum mér og augu okkar mætast um stund. „Veslings drengur," — segir hún og reynir að brosa til mín. Hún skjögrar niður eftir götunni. Ég halla mér upp að einum vagninum. Ég er að niðurlotum kominn. Einhver þrífur í öxl mér. „En avant, komdu hérna að teinahlaðanum!" Ég lít upp og sé andlit sveima fyrir augum mér. Það leysist upp, gegnsætt, og blandast við trén og fólks- mergðina. Ég depla augunum: Henri. „Heyrðu, Henri. Erum við sæmilegir menn?“ „En sú spurning. Því smrrðu?" „Sjáðu til, vinur minn. Ég veit ekki af hverju, en ég er óður, hamstola í garð þessa fólks. Og ég er það vegna þess að ég verð að vera hér vegna þeirra. Ég finn ekkert til með þeim. Ég harma það ekki að þau eru á leiðinni í gasið. Djöfullinn hirði þau! Ég gæti kastað mér á þau og barið þau með berum hnúunum. Það er eitthvað að mér. Ég get ekki skiiið ..." „Nei, alls ekki, þvert á móti, þetta er náttúrlegt, fyrir- sjáanlegt, útreiknanlegt. Þú ert orðinn örmagna hér á hlaðinu, þú ríst upp gegn því. Auðveldasta leiðin til að gefa hatri þínu útrás er að láta það bitna á einhverjum minni máttar. Já, ég myndi jafnvel kalla þetta eðlilegt. Þetta er einföld rökfræði, compris?u. Hann kemur sér þægilega fyrir upp við teinahlaðann. „Líttu á Grikkina. Þeir kunna að gera sér mat úr þessu. Þeir troða öllu í sig sem hönd á festir. Einn þeirra var að ljúka við að gleypa fulla krukku af marmilaði." „Svín! Og á morgun drepst helmingurinn af þeim úr skitu." „Svín? Þú hefur nú soltið líka.“ „Svín!“ — endurtek ég óður. Ég loka augunum. Loftið er þungt af hræðilegum ópum. Jörðin skelfur undir fótum mér. Ég finn límkenndan vessa á augnalokunum. Hálsinn er þurr sem gulnað laufblað. Fólksmergðin streymir framhjá. Vörubílarnir urra sem óðir hundar. Ég loka augunum og sé líkin dregið út úr vögnunum, kramin börn og afskræmd, kastað upp á líkahaug, ein aldan af annarri... vöruflutningavagnar renna inn á stöðina, haugar af fatnaði, ferðatöskum og pinklum, fólk klöngrast út, horfir í sólskinið, dregur að sér andann, biður um vatn, er hlaðið upp á bílana og ekið burt. Og aftur járnbrautarvagnar, aftur fólk... Allt þetta rennur saman í eitt. Er þetta að gerast í raun eða er mig að dreyma? Það er eins og það suði í höfðinu á mér. Ég finn til klígju. Henri togar í handlegg minn. „Ekki sofna, við eigum eftir að hlaða ránsfengnum." Allt fólkið er farið. Síðustu vörubílarnir sjást í fjarska þyrla upp rykskýjum. Lestin er farin. SS-for- ingjar þramma fram og aftur um brautarpallinn. Það glampar á silfrið á krögum þeirra. Það gljáir á stígvélin þeirra, á rauðþrútin, kjötmikil andlitin. Meðal þeirra er kvenmaður — og nú geri ég mér grein fyrir að hún hefur verið hér allan tímann — föl, flatbrjósta, beina- ber. Þunnt litlaust hárið er greitt aftur og bundið í „norrænan" hnút. Hún rekur hendurnar í vasana á víðu pilsinu. Rottulegt bros er límt á þunnar varirnar. Hún snuðrar út í hornin á hlaðinu. Hún fyrirlítur kvenlega fegurð með hatri þeirrar konu sem er sjálf fráhrind- andi, og veit það. Já, ég hef reyndar séð hana hér oft áður og ég kannast mæta vel við hana. Hún er komand- ant í FKL Hún kom hingað til að líta á konurnar í hópnum. Sumar þeirra fengu að ganga, en var ekki troðið upp á bílpall, — í fangabúðirnar. Þar taka við þeim rakararnir frá Zauna og snoðklippa þær. Og þeir munu hlæja að viðkvæmni þeirra fyrir sjálfum sér, sem tíðkast í „heiminum fyrir utan“. Við förum að hlaða á bilana. Við verðum að lyfta öllu draslinu, einnig hinum þyngstu ferðakistum, upp á vörubílana. Þar er öllu raðað þétt í stæður. Einstaka maður hefur snör handtök og bregður hnífi á eina ferðatösku. Annaðhvort að gamni sínu, eða hann er að leita að brennivíni eða vellyktandi. Ein kista opnast. Föt, skyrtur, bækur hrynja til jarðar. Ég tek upp lítinn þungan pakka. Ég tek umbúðirnar utanaf — gull, um það bil tveir hnefar, armbönd, hringir, nælur, demant- ar... „Gib hier“, — segir SS-maður rólega og heldur skjala- töskunni opinni fyrir framan mig. Hún er þegar full af gulli og erlendu fé. Hann lokar tösku sinni, réttir öðrum foringja hana, tekur aðra tóma, og tekur sér stöðu við næsta vörubíl. Gullið fer til Þýzkalands. Hitinn er enn jafn kæfandi. Hálsinn er þurr. Hvert orð meiðir. Bara einn sopa af vatni. Getum við ekki reynt að skella þessu af, svo við megum hvíla okkur. Loks er þessu lokið og bílarnir farnir. En nú verðum við að hreinsa hlaðið. Engin merki mega vera eftir Schweinerei. En um leið og síðasti vörubíllinn hverfur að baki trjánna og við silumst áfram til að hvíla okkur í skugganum heyrist hvellt flaut handan við beygjuna. Hægt, hræðilega hægt, sniglast lestin inn og eimreiðin hvæsir og blæs. Aftur örmagna föl andlit við gluggana, flöt eins og klippt út úr pappír, með stór rauðhlaupin hitasóttaraugu. Vörubílarnir renna inn á hlaðið og snyrtilegi herramaðurinn með vasabókina er á sínum stað. SS-mennirnir koma út úr varðstöðinni með skjala- töskur undir gull og peninga. Við opnum dyrnar á lestarvögnunum. Nú höfum við enga stjórn á okkur lengur. Við hrifsum töskurnar af þeim, slítum af þeim yfirhafnirnar. Áfram með ykkur, áfram, burt úr okkar augsýn! Og fólkið fer, hverfur. Karlar, konur og börn. Sum þeirra vita. Kona gengur fram, hratt. Hún reynir að sýnast róleg. Lítið barn með rjótt engilsandlit hleypur á eftir henni en dregst aftur úr, réttir fram litlu hendurnar sínar og hrópar: „Mamma! Mamma!" „Taktu barnið þitt með þér, kona.“ „Ég á það ekki, það er ekki rnitt!" — hrópar hún móðursýkislega og hleypur áfram, og heldur höndunum fyrir andlitið. Hún vill leita skjóls, hún vill komast í hóp þeirra sem ekki er skipað upp á vörubílana. Þeir sem fá að fara gangandi, fá að lifa. Hún er ung, hraust, lagleg. Hún vill lifa. En barnið hleypur á eftir henni, grátandi: „Mamma, mamma, ekki fara frá mér!“ Andréj, sjómaður frá Sévastopól, grípur til hennar. Augu hans eru starandi af hitanum og brennivíni. Hann slær hana niður í einu höggi, og um leið og hún fellur rífur hann hana upp á hárinu. Það fara krampakippir um andlit hans af reiði. „Þú djöfuls gyðingakelling! Þú hleypur frá þínu eigin barni! Ég skal sýna þér, hóruskratti! Með risakrumlum sínum lyftir hann henni hátt á loft og fleygir henni upp á vörubílspallinn eins og mjölsekk. „Hana! Og taktu þetta með þér, kvensnift!" — og kastar barninu að fótum hennar. „Gut gemacht, vel gert. Þannig á að fara með úrkynj- aðar mæður," — segir SS-maðurinn sem stendur við vörubílinn. „Gut, gut, Russkí." „O, haltu þér saman,“ — rymur í Andréj gegnum samanbitnar tennur um leið og hann gengur burt. Hann tekur hermannaflösku undan haug af tuskum, skrúfar af tappann, tekur nokkra gúlsopa og fær mér flöskuna. Vodkan brennir hálsinn innan. Mig svimar, ég kikna í hnjáliðunum. Ógleðin gýs upp aftur. Ög sem múgurinn rennur áfram sem fljót knúið af ósýnilegu afli stendur þar skyndilega stúlka. Hún stekkur léttilega af vagninum ofan í mölina, lítur um kring í spurn, eins og dálítið undrandi. Hún er með mjúkt, Ijóst hár sem fellur sem straumur niður á axlir. Hún sveiflar því aftur fyrir sig. Hún rennir höndunum niður eftir blússunni og sléttir úr pilsinu. Hún stendur andartak, horfir á grúann, snýr sér að okkur, skoðar andlit okkar, eins og hún væri að leita að einhverjum. Fyrr en varir stari ég á hana þar til augu okkar mætast. „Heyrðu, segðu mér, hvert er verið að fara með okkur?" Ég horfi á hana, þegjandi. Hér stendur stúlka fyrir framan mig, stúlka með töfrandi ljóst hár, með falleg brjóst, í nærskorinni bómullarblússu, stúlka með þrosk- að, greindarlegt augnaráð. Hún stendur hér, bíður, horfir beint framan í mig. Og hér fyrir handan er gasklefinn, fjöldadauði, viðbjóður, andstyggð. Og í hina áttina eru fangabúðirnar, snoðklipping, þykkar bómull- artróðsbuxur í kæfandi hita, klígjuvekjandi fýla af skít- ugum þvölum konum, dýrslegt hungrið, ómennskt strit- ið, og að lokum sami gasklefinn, enn hræðilegri dauð- dagi... Og hvað er hún með? Ég tek eftir einstaklega snotru gullúri á mjóum úlnlið hennar. Hún fær ekki að hafa það lengi. „Heyrðu, segðu mér það,“ — endurtekur hún. Ég þegi sem fastast. Hún þrýstir saman vörum. „Eg veit,“ — segir hún með stolti og fýrirlitningu i röddinni og hnykkir til höfðinu. Hún gengur ákveðnum skrefum að einum vörubílnum. Einhver reynir að stöðva hana. Hún hrindir honum frá sér og stekkur upp þrepin. Ég sé goluna feykja til hári hennar. Það er það síðasta sem ég sé af henni. Ég fer aftur inn í lestina að hreinsa út barnalík. Ég hleð farangri. Ég hleð líkum, og smám saman grípur mig óstjórnlegur hryllingur. Mig langar til að flýja frá þessum líkum, en þau eru allstaðar: Inni í vögnunum, i mölinni fyrir framan þá, á hlaðsjaðrinum. Börn, konur og karlar. Ég hleyp brott, en þá fæ ég svipuhögg þvert yfir bakið. Ég sé SS-mann útundan mér krossbölvandi. Ég dragnast áfram og hverf inn í Kanada-hópinn. Ég verð að kasta mæðinni upp við teinahlaðann. Sól er tekin að lækka á lofti. Hlaðplássið er litað rauðleitu skini. Skuggar trjánna hafa lengst og líkjast vofum. Um þetta leyti dags er þögn í náttúrunni. Þeim mun hærra rísa hróp mannanna til himins. Héðan sem ég stend hef ég yfirsýn yfir það víti sem er í hlaðplássinu. Ég sé par sem hefur hnigið niður í síð- ustu örvæntingarfaðmlögunum. Hann kremur konuna í höndum sér og bítur í föt hennar. Hún æpir í ofboði, bölvar og grætur, þar til járnhælað stígvél lendir á höfði hennar og hún þagnar. Þau eru skilin að og dregin að vörubílnum. Ég sé fjóra Kanada-menn bjástra við lík. Það er lík af stórri konu, uppblásið. Sveittir og ragnandi sparka þeir frá sér börnum sem hafa hlaupið um ýlfrandi sem hundar. Mennirnir taka þau upp á höndunum og slengja þeim upp á líkahrúguna á vöru- bílnum. Þessir fjórir kalla aðra til hjálpar við að lyfta feitu líkinu upp á bílinn. Með sameiginlegu átaki tekst það. Uppbólgnum líkum er safnað saman um allt hlaðið. Fötluðum, köfnuðum, veikum og meðvitundarlausum er svo dembt ofan á hrúguna. Hrúgan stynur, æpir og kveinar. Bílstjórinn setur vélina i gang, bíllinn rennur af stað. Jialt, Halt! — öskrar SS-maður á eftir honum. „Stanzaðu, djöfullinn þinn!“ Þeir dröslast með gamlan mann í kjólfötum og með armbindi að bílnum. Höfuð hans skellur á mölina. Hann stynur upp sífellt í sama tón: „Ich will mit dem Herrn Kommandanten sprechen — ég vil fá að tala við yfirfor- ingjann..." Með þrjósku gamals manns romsar hann þessu stanzlaust upp úr sér. Jafnvel eftir að búið er að fleygja honum upp á bílinn og troða hann þar undir heldur hann áfram: Jch will mit dem ... “ „Sjáðu bara til, gamli maður!" — kallar ungur SS-maður, hlæjandi kátínuhlátri. „Eftir hálftíma færðu að tala við æðsta yfirforingjann! Og gleymdu nú ekki að heilsa honum með Heil HitlerF Nú koma aðrir menn með litla einfætta stúlku á milli sín. Þeir halda um hendurnar og fótinn. Tárin renna niður andlit hennar og hún hvíslar máttleysislega: „Herrar mínir, þið meiðið mig... “ Þeir kasta henni upp á líkahrúguna á bílnum. Hún verður brennd lifandi með þeim. Kvöldið flytur með sér svala. Stjörnur birtast. Við liggjum upp við teinahlaðann. Það er ótrúlega hljóðlátt. Blóðlausar ljósaperur hanga í háum ljósastaurum. Utan við skímuna er þykkt myrkur. I einu skrefi getur maður horfið. En verðirnir eru á sínum stað með sjálfvirkar byssur tilbúnar. „Fékkstu skóna?" — spyr Henri. „Nei.“ „Af hverju ekki?“ „Guð minn, ég er alveg örmagna, alveg gersamlega." „Svo fljótt? Bara eftir tvær lestar? Littu á mig. Frá jólum hefur að minnsta kosti milljón farið um hendurn- ar á mér. Verstar eru lestarnar frá héraðinu umhverfis París — ég rekst þá sífellt á vini mína. „Og hvað segirðu þeim?“ „Að þeir fari fyrst í bað, og að svo hittumst við í búðunum. Hvað myndir þú segja?" Ég svara ekki. Við drekkum kaffi með vodka út í. Einhver opnar dós af kókói og blandar það með sykri. Við mokum þessu upp í okkur. Kókóið límist við varirn- ar. Aftur kaffi. Og vodka. „Henri, eftir hverju erum við að bíða?“ „Það er lest væntanleg." „Ég ætla ekki að afhlaða hana. Ég get ekki rneir." „Svo þú ert búinn að fá nóg? Er ekki Kanada góð, ha?“ Henri glottir og hverfur út í myrkrið. Að vörmu spori er hann kominn aftur. „Það er í lagi. Sittu bara hér sem mús og láttu engan SS-mann sjá þig. Ég skal reyna að finna skó handa þér." „Æ, láttu mig bara vera. Og láttu þessa skó bara eiga sig.“ Ég er dauðsyfjaður. Það er framorðið. Enn er flautað. Enn kemur lest. Vöruvagnar renna út úr myrkrinu, stanza undir ljósastaurunum og hverfa aftur út í nóttina. Hlaðið er ekki stórt, en aöeins hluti af því er lýst. Það verður að fara hægt í að afhlaða. Vöru- bilarnir urra einhversstaðar. Þeir bakka upp að þrepun- um, svartir, draugalegir. Ljósgeislarnir frá þeim skella á trjánum. Wasser!Luft! Sama sagan upp aftur, eins og miðnætursýning á sömu kvikmyndinni. Kúlnademba og lestin þagnar. Nema núna þrýstir lítil stúlka sér út um gluggann, missir jafnvægið og fellur í mölina. Hún ligg- ur þar smástund, rís á fætur og fer að ganga í hringi, hraðar og hraðar og sveiflar stífum handieggjum um

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.