Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 15
I suðaustanverðu Póllandi, við landamæri Slóvakíu, rísa upp frá sléttunni Karpatafjöllin, giljum skorin, barrskógum vaxin og heitir Tatra hæsti tindurinn. A þessum slóðum býr enn í dag fámennur þjóðflokk- ur, kominn þangað á 15.öld, tyrkneskrar ættar, nefndur Karaímverjar, og tala enn eigið tungumál og eru nokkur bókmenntaverk skráð á karaímsku. Karamísk m xí j. M Sagan segir, að í Trakæ-borg á Lithaugalandi byggi endur fyrir löngu maður einn, Zarakk að nafni. Útlendingur í því landi var Zarakk, Karaímverji, vaxinn upp með þjóðflokki sínum af kyni Tyrkja innan suðaustur mæra Sléttumannalands. Vitur var Zarakk, frægur og veglyndur, orðinn ráðgjafi konungsins, Výtátasar hins ríka, í Li th a ugalan di. Árum saman, um langan aldur, hafði Zarakk verið tryggur vinur Výtátasar konungs. En eigi var síður víðfræður sonur hins aldna Zarakks, hár vexti, herðabreiður, hetjan Allan Kassar. í kastala sínum bjó Výtátas konungur Lithaugalands, á ströndu þess stöðuvatns, sem Galve hét. Þá var það sólskinsdag einn, að Výtátas konungur mælti við þá Allan og Zarakk: Senda vil égyður til Miklagarðs fjarlægu turna með varning til soldánsins. Síðar á þessu sumri opnuðust hallarport Výtátasar, útúr þeim mjakaðist kaupmannalest, eins og slanga liðaðist hún áfram. Tíu stórvagnar í lest dregnir af fjörutíu hestum héldu út um hallarportin, sérhvur vagn hlaðinn marðarfeldum og safalaskinnum, gæðadúkum og gulli. Dag og nótt riðu Iestarmenn Ieið sína, nótt og dag riðu þeir til suðurs, langur var sá vegur, vandfarinn var hann og erfiður: ár og fjöll, akurjörð víðlend, laufskógar og myrkviðir, mýrlendi stór, stöðuvötn óteljandi, torfærur alls konar. Og í sérhvurjum skógi leyndust ræningjar háskalegir. Sumir höfðu flúið á mörkina til þess að forðast þrældóm, aðrir fangelsi, pyndingar, dauðadóm. Allir vildu þessir menn lifa við frjálsræði, þess vegna lögðust þeir út og rændu kaupmannalestir. Þá var það kvöld eitt, lestarmenn höfðu verið á ferð frá því að morgunsól reis, og þeir riðu og riðu. Gegnum skóg leyndardómsfullan riðu þeir fákum sínum, þangað til skyndilega að andspænis þeim stóð ræningjasveit skógarins. Eins og soltnir úlfar umkringdu þeir vagnlestina, villimannlegur flokkur stigamanna. Leiðtogi þeirra, hrafnsvartur á hár, hávaxinn maður og sterklegur, gekk fremstur kumpána sinna. Svo grimmlegur var hann, að hvur og einn kenndi ótta sem í augu hans leit. Snúðugt gekk hann í mót Allan, hvessti á hann augun og kallaði heiftarrómi: Það vitum vér fullvel hvað þér flytjið í vögnum yðar og hvaða ríkismanni gersemar þær eru ætlaðar. Góðan kost býð ég yður: Afhendið oss helming vöru yðar. Hafnið þér því, skuluð þér öllu tapa — og höfði yðar að auki! Þá svarar Allan Kassar: Vér munum halda ferð vorri fram svo sem vér höfum ákveðið, og komast skal varningur vor í þær hendur sem honum er ætlað. En hyggist þér hann af oss hrifsa með ofbeldi, þá munum vér um það við yður ræða á hvössu máli vopnanna! Skutu þá eldi augu Allan Kassar. Dró hann sverð sitt úr slíðrum og reið í mót foringja skógarmanna. Leiðtogi ræningja samtímis mundaði hann sverð sitt og varpaði á Allan Kassar svofelldum orðum: Öllu framar það hlægir mig að reynum vér með oss afl vort og vígfimi. Eigi munu félagar mínir þess lengi þurfa að bíða að leiða til fullra lykta eftirleikinn — og hremma yðar góss, samkvæmt áformum vorum. Svo mælti svarthöfði, og hljóp þá að Allan. Höggum þeir skiptust, langa stund berjast þeir. Rann sveitinn af báðum þeim. Hvössum laust saman sverðum garpanna, gullu þeir ljáir söng í þeirra geirum. Sýndist að lokum Zarakk hinum gamla, að svarthöfði ræningjajarl mæddist nú nokkuð, óttast tók gamli Zarakk að sonur hans vænn deyddi andstæðing sinn. Kallaði þá Zarakk til sonar síns, Allan Kassar: Sníð eyrað af höfði hans, lát þér nægja það, sonur! Lciftraði sverðið, laut hetjan fram, lét höggið ríða, hjó eyrað frá höfði síns hrausta fjanda. Samtímis Allan sitt bitra vopn lét falla til jarðar. En blóð gaus úr und og litaði storð rauðum farfa. Hné ræninginn sjálfur að velli. Sté Allan Kassar af hestbaki, sneið ræmu af skyrtu sinni og batt sár stigamannsins vel og vandlega. Þá tók hann upp eyra útlagaforingjans, lagði það á höfuðfat hans og mælti: Grið skaltu hafa, skógarmaður. Ber höfuð þitt á hálsi af okkar fundi. Klökkt varð hjarta leiðtogans andspænis slíku göfuglyndi Karaímhetju þessarar. Skildist nú ræningjanum að verðmætara þótti líf hans en tíu vagnhlöss konungsgersema. Reis hann þá á fætur og augum sínum fránum gaumgæfði Allan Kassar. Dró hann sér af hendi gullinn baug — hring ágætan með signeti, rétti gripinn Allan Kassar og varp á hann orðum svofelldum: Þigg þessa gjöf sem vott vináttu minnar. Skal gullhringur sá verða yður verndargripur gegn sérhvurri ræningjasveit sem á leið yðar kann að verða. Þannig skildu þeir með kærleikum og mæltu til vináttu sín í millum. Héldu nú hvorir sína Ieið. Brátt spurðust tíðindi þessi til Trakæborgar á Lithaugalandi: að fyrir vísdóm Zarakks og hreysti Allan Kassar væri kaupmannalestin komin heilu og höldnu til fjarlægra turna Miklagarðs. JERZY WIELUNSKI LUBLIN í Póllandi sneri á íslensku úr karaímsku máli (sem er skylt tyrkn- esku). Guðmundur Daníelsson hreinskrifaði.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.