Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. APRÍL 2004 11 Hvers vegna hlær fólk þegar það er kitlað? SVAR: Vísindamenn hafa lengi talið að við- brögð við kitli tengist vörnum líkamans og séu ætluð til þess að forðast snertingu sem gæti reynst okkur hættuleg. Þegar við erum kitluð vindum við upp á líkamann og færum okkur undan snertingunni. En þá er eðlilegt að spyrja hvers vegna fólk hlær þegar það er kitlað, fyrst um varnar- viðbrögð er að ræða og jafnvel ótta. Þessi spurning hefur raunar þjakað fræðimenn sem skrifað hafa um hlátur og fyndni í aldanna rás. Charles Darwin var víst manna fyrstur til að benda á þróunarfræðilega þáttinn í viðbrögðum okkar við kitli – þau væru skyld viðbrögðum dýra, til dæmis hesta og naut- gripa, við ásókn flugna og annarra kvikinda á viðkvæm svæði á líkamanum. Þá blasir augljós staðreynd við okkur: Hesturinn eða kýrin hlær ekki þegar fluga sest á skrokkinn á þeim, að minnsta kosti ekki svo að við vitum til. Önnur staðreynd er jafn mik- ilvæg: Við hlæjum alls ekki allt- af þegar við erum kitluð. Ungversk-breski fræðimað- urinn Arthur Koestler (1905– 1983) setti fram hugmyndir sín- ar um hlátur og fyndni í grein frá árinu 1949 og síðar í bókinni The Act of Creation sem kom út 1964. Hann telur að hlátur spretti af árekstri ólíkra orð- ræðna. Koestler smíðaði raunar sérstök hugtök fyrir þetta fyr- irbæri, bi- og disociation, sem hann notaði á mismunandi tíma en tákna það sama. Erfitt er að þýða þessi hugtök á íslenku en skilgreining Koestlers felur í sér að þegar við sjáum/heyrum eitt- hvað fyndið, upplifum við okkur á tveimur (eða fleiri) orðræðu- sviðum. Þetta virðist eiga vel við fyndni í mæltu og rituðu máli, jafnvel einnig myndræna, en hvað segir þessi setning um kitl? Koestler vitnar til rannsóknar sem gerð var við Yaleháskólann og sýndi fram á að börn hlógu 15 sinnum oftar þegar móðir þeirra kitlaði þau en þegar þau voru kitluð af einhverjum ókunnugum. Börnin voru ennfremur mun líklegri til að gráta þeg- ar sá ókunnugi kitlaði þau en að hlæja. Þetta útskýrir Koestler með því að börnin upplifi kitl móðurinnar sem platárás og tengir þetta kenningu sinni með því að benda á að líklega sé kitl móður (eða annars náins aðstandanda) fyrsta skiptið sem barnið upplifir sjálft sig á tveimur (orðræðu-) sviðum; það veit að ráðist er á viðkvæm svæði þess en um leið að árásin er ekki raunveruleg og það mun ekki hljóta neinn skaða. Niðurstaðan er því þessi: Við hlæjum þegar við erum kitluð ef við treystum þeim sem kitl- ar. Hvort sem það er ættingi, elskhugi eða vinur sem kitlar, verður manni að vera ljóst að ekki er um alvöruárás að ræða heldur atlot sem enda oftar en ekki með einhverju inni- legra og ástúðlegra. Um þetta getum við ekki verið örugg þegar ókunnugir eiga í hlut. Þetta skýrir líka hvers vegna okkur gengur illa að kitla okkur sjálf. Við ráðumst ekki á okkur sjálf, nema ef við glímum við alvarlega geðræna sjúkdóma. Þegar við setjum okkur viljandi í hættu, sem er þó um leið langoftast örugg, eru okkar fyrstu viðbrögð eftir á venjulega að hlæja. Teygjustökk, fallhlíf- arstökk og rússíbanakeyrsla eru því eiginlega dæmi um aðferðir sem við notum til að „kitla“ okkur sjálf. Unnar Árnason bókmenntafræðingur. Er til tónn sem er svo ljótur að hann er kenndur við djöfulinn? SVAR: Hugtakið tónskratti eða diabolus in musica varð til á miðöldum og á við tónbil en ekki stakan tón. Ekki er víst hvort ástæðan fyrir nafngiftinni hafi verið sú að tónbilið þótti ljótt. Á miðöldum voru svonefndar kirkjutónteg- undir notaðar í tónlist. Frumtóntegundirnar fjórar voru: dórísk, frýgísk, lýdísk og mix- ólýdísk. Þær voru allsráðandi í kirkjutónlist allt fram til 1600, þegar dúr og mollkerfið tók við. Í lýdísku tóntegundinni, sem samsvarar tónstiga hvítu nótnanna á píanóinu frá f til f, er tónbilið á milli 1. og 4. tóns stækkuð ferund eða tónskratti. Tónbilið fékk snemma á sig óorð og var kennt við djöfulinn. Tónskrattinn þótti ekki æskilegur og er í sumum ritum tal- inn beinlínis hættulegur. Tónfræðilegir eiginleikar tónskrattans eru þeir að hann skiptir áttundinni upp í tvo jafna hluta og speglast um miðju hennar. Þetta er eina tónbilið sem hefur þann eiginleika að vera hið sama sé það speglað. Tónskrattinn er óstöðugt tónbil, það er að segja hann leitar að lausn og hefðbundið lag getur þess vegna ekki með góðu móti endað á tónskratta. Þetta heyra flestir, hvort sem þeir eru tónlistar- menntaðir eða ekki. Á 15. öld fóru menn að lækka 4. tóninn í lýdísku tóntegundinni, h varð að b, og mynd- aði hann þá hreina ferund við 1. tóninn. Þetta er sú tóntegund sem við þekkjum í dag sem dúr. Á seinni hluta 19. aldar var tónskrattinn tekinn í sátt og hann er meðal annars að finna í tónlist eftir Liszt, Wagner og Debussy. Á 20. öld gátu tónskáld notað þetta áður forboðna tónbil óhindrað og í eyrum nútímamannsins hljómar það afar sakleysislega og erfitt er að ímynda sér að það hafi einhvern tímann þótt erfitt áheyrnar. Karólína Eiríksdóttir tónskáld. HVERS VEGNA HLÆR FÓLK ÞEGAR ÞAÐ ER KITLAÐ? Hvað þýðir orðið kaldaljós, hvernig lýsir glúten- óþol sér og hvernig er lífsferill kólfsveppa? Þess- um spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undan- förnu á Vísindavefnum og hægt er að lesa svörin á slóðinni www.visindavefur.hi.is. VÍSINDI Morgunblaðið/Ásdís Við hlæjum ef við treystum. 1907 SLÁTTUVÉL OG KÝRVERÐ Í bréfi af Fljótsdalshéraði sem birt var í Lögréttu 17. apríl 1907 sagði að skilvindur og eldavélar væru nærri á hverjum bæ en að nú væri enn ein vélin komin í Hjaltastað á Héraði „sem mörgum sýnist vel þess verð að fyrir hana sé látið hálft annað kýrverð. Þetta er sláttuvél“. Nokkrar voru pantaðar hjá búnaðarsamband- inu, aðallega frá neðstu bæjum Héraðsins „því þar eru slétt engi“. Þá var þess getið að átt- ræður bóndi, séra Jakob á Hallfreðarstöðum, hefði pantað bæði sláttuvél og rakstrarvél „og sýnir það hvern þátt hann hefði tekið í umbót- um vorum, hefði hann verið 30–40 árum yngri“. 1925 AÐ KOMAST ÚT ÚR BÆNUM Sunnudagsbílar var heiti á málefni sem sagt var frá í Morgunblaðinu 17. apríl 1925 að hefði verið til umræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykja- vík. Það fjallaði um að „erfitt væri fyrir margar efnaminni fjölskyldur að komast á sumrin út úr bænum á grasigróna bletti þó þær hefðu fulla þörf á því og löngun“, enda sæjust efnalítil hjón oft vera „að reyna að komast með börn sín fótgangandi eitthvað burt, en kæmust vitanlega stutt“. Samþykkt var að hvetja bifreiðastöðvarnar til að bjóða „ódýrar ferðir, t.d. inn að Elliðaám eða eitthvað annað. Yrði þó að velja góða staði þar sem börn gætu leikið sér og vistlegt væri“. 1936 SPÆLDU EGG UPPI Á JÖKLI „Áhugi Reykvíkinga fyrir fjallgöngum og útilegum fer hraðvaxandi,“ sagði greinar- höfundur í Vísi 17. apríl 1936. „Hver skyldi hafa trúað því fyrir nokkrum árum að góðir og gegnir menn héðan úr Reykjavík færu upp á Langjökul til að borða páskamatinn? En þetta átti sér þó stað núna um páskana. Og hvað haldið þér að þeir hafi haft til matar þar uppi á hájöklinum? Það var flesksteik og spæld egg, hvoru tveggja matbúið á staðnum. Og svo hituðu þeir sér súkkulaði á eftir.“ Greininni lauk á þessum orð- um: „Og mætið þér reglulega sólbrunnum manni á götu næstu dagana þá er það óefað ein- hver þessara jöklafara.“ 1946 HÆTTULEGAR MATBAUNIR „Við og við brýst út bauna- byssufaraldur meðal stráka hér í bænum. Þeir búa sér til gúmmíslöngur til að slöngva matbaunum eða þeir blása þeim út um rör. Oft getur þetta verið hættu- legur leikur og slys hafa hlotist af er strákarnir hitta með baununum t.d. í augu félaga sinna. Það er þess vegna ekki nóg að skammarlega sé farið með matvæli í þessum ljóta leik.“ Um þetta var fjallað í Morgunblaðinu 17. apríl 1946 og lagt til að kennarar hjálpuðu til við að út- rýma baunabyssunum með því að segja nem- endum frá hörmungarástandinu í heiminum og heita á þá „til liðveislu um það að fara ekki illa með matinn“. 1953 TVEIR UTAN AF LANDI „Gullfaxi fór í gær til Parísar með Spánarfara Ferðaskrif- stofunnar,“ sagði í frétt á for- síðu Alþýðublaðsins 17. apríl 1953, og var flugvélin sex tíma á leiðinni. „Í gærkvöldi skemmti ferðafólk- ið sér í París, skoðar borgina í dag, fer svo til Versala á morgun og síðan fer það með Gullfaxa til Barcelona. 35 eru í förinni, fólk af ýmsum stéttum í Reykjavík, verslunarmenn, bifreiða- stjórar o.fl. Þá eru og með í förinni tveir bænda- synir utan af landi.“ Þetta mun hafa verið ein af fyrstu hópferðunum til Spánar. 1964 HIÐ HÁLEITA Í TILVERUNNI Hannes á horninu fjallaði um deilur um byggingu Hall- grímskirkju í Alþýðublaðinu 17. apríl 1964 og sagði að sér fyndist mynd af fyrirhugaðri kirkju vera falleg og að kirkjan „hljóti að vekja lotningu þeirra sem fram hjá henni fara eða hennar eiga að njóta. Raunar finnst mér nú- tímamaðurinn sem alltaf horfir niður fyrir sig og gruflar og grúskar í efninu hafi gott af því að líta einstöku sinnum upp fyrir sig og sjá eitt- hvað sem vekur lotningu hans, eitthvað sem leiðir hugann að því háleita og dularfulla í tilver- unni“. Og hvað kostnaðinn varðaði var bent á að hann dreifðist á mörg ár og væri álíka mikill og árleg eyðsla landsmanna í vinsælan gosdrykk. 1984 GLERAUGU OG GERVITENNUR DV sagði frá því 17. apríl 1984 að sala Hagkaupa á lestrar- gleraugum, sem þá var ný- lega hafin, ætti eftir að draga dilk á eftir sér, en gleraugun í Hagkaupum kostuðu aðeins þriðjung eða fjórð- ung þess sem slík gleraugu kostuðu í gler- augnaverslunum. Blaðið sagði að þessi sölu- aðferð hefði náð miklum vinsældum bæði í Svíþjóð og Bandaríkjunum. En gleraugnasalar voru ekki ánægðir og biðu eftir lögum til að stöðva söluna, í þeim tilgangi að vernda almenn- ing. Talsmaður þeirra sagði: „Ætli þeir finni svo næst upp á því að selja hjá sér gervitennur. Komið og mátið!“ T ÍÐARANDINN Á TUTTUGUSTU ÖLD „Karlmannafatnaðir og fataefni, afmælt í einn klæðnað af hverri gerð,“ sagði í auglýsingu sem birtist í Lögréttu 17. apríl 1912, en myndin gefur til kynna hvernig herrafatatískan var á þeim tíma. Þá var rúmur áratugur síðan orðið fermingarföt sást fyrst á prenti en orðið reiðjakki mun hafa verið nýtt í málinu. Sturla Jónsson rak verslun í Reykjavík í rúm fjörutíu ár og einnig þil- skipaútgerð um skeið. Hann var einn af stofnendum hlutafélagsins Málms, sem lét bora eftir gulli í Vatnsmýrinni í byrjun tuttugustu aldar. AFMÆLT Í EINN KLÆÐNAÐ J Ó N A S R A G N A R S S O N T Ó K S A M A N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.