Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. APRÍL 2004 1. Maður fer yfir götu og hittir konu með blæju M aður fer yfir götu og gengur í átt að torg- inu. Hann er hvorki ungur né gamall. Húðin er ekki dökk en ekki heldur bein- línis hvít. Tveir lögreglu- menn standa vörð á torginu. Þeir veita manninum enga athygli. Hann stansar spöl- korn frá þeim og lítur í kringum sig. Hann virðist bíða eftir einhverjum. Við erum á Plaza de Castilla í Madrid, nokkrir dagar eru liðnir frá hryðjuverka- árásinni þann 11. mars. Ung kona kemur upp úr neðanjarðarlest- argöngum. Hún lítur í kringum sig, sér manninn og gengur í átt til hans. Þau halda af stað. Hún er augljóslega arabísk því að hún er í síðum kyrtli og hylur hár sitt með einhverskonar blæju. Þegar lögreglumennirnir koma auga á konuna grípa þeir strax til símans og byrja að tala í hann; það heyrast einkennileg málmkennd hljóð. Þeir horfa gaumgæfilega í kringum sig meðan þeir tala. Við lifum á tímum þar sem þörf á örygg- isgæslu fer vaxandi, við vitum þó ekki ná- kvæmlega hverju við erum að verjast. Áður fyrr lofuðu stjórnmálamenn því að við vær- um að hnattvæðast í tryggum fjárhagsleg- um vexti en nú tala þeir um hnattvæðingu í sívaxandi hryðjuverkaógn. Og við verðum að berjast gegn því. Það virðist hins vegar sem við áttum okk- ur ekki á að með vaxandi öryggisþörf sköp- um við almennt óöryggi og óstöðugleika. Málmkenndu hljóðin deyja nú út. Lög- reglumennirnir líta hvor á annan og hefjast handa. Annar þeirra gengur til mannsins. Hann segir eitthvað. Maðurinn sem hvorki er ungur né gamall svarar engu. Hann tæm- ir vasa sína með hraði og setur orðalaust innihaldið á gangstéttina milli fóta sinna eins og til að varðveita eigur sínar. Hann gæti verið sérfræðingur í að tæma vasa sína sé tekið mið af hversu hratt hann hlýðir skipuninni. Ekkert kemur á óvart. Hann er svipbrigðalaus. Hinn lögreglumaðurinn fer til konunnar. Hann lyftir kyrtlinum og setur báðar hend- ur undir hann. Hún sýnir engin viðbrögð. Það virðist sem hendur hans finni ekkert grunsamlegt. Hann hættir að þreifa og sviptir af henni slæðunni. Konan stendur kyrr. Í kringum þau hefur safnast fólk en fæst- ir vegfarendur veita þessu athygli. Flestir sjá þetta ekki. Svo virðist sem þeim komi þetta ekki við eða að þeir séu orðnir vanir slíku. Eldri mennirnir eru forvitnari en þeir yngri. Þeir virðast sjá eitthvað í hegðun lög- reglumannanna sem minnir þá á svipaða at- burði á Francotímanum. Þegar lögreglumaðurinn afhjúpar konuna horfa aðrar konur á eins og þær séu að velta fyrir sér hvað sé undir slæðunni, en svo snúa þær sér undan. Aðeins ein ung kona virðist njóta þess að horfa á þegar slæðunni er svipt af konunni. Hún lyftir höndunum eins og lögreglan hafi frelsað konuna. Síðan skoða lögreglumennirnir persónu- skilríki parsins. Enn heyrist málmkennt hljóð þegar annar þeirra notar eitthvert tæki. Hann segir eitthvað og eftir stutta stund fær hann svar. Lögreglumennirnir eru hvítir. Hinar tvær manneskjurnar eru ekki beinlínis dökkar. Lögreglumennirnir hafa augljóslega leyfi til að gera það sem þeim sýnist. Þessar tvær manneskjur geta ekki annað en hlýtt. Lögreglumennirnir eru kristnir. Hin tvö eru líklega múslímar. Þegar lögreglumaðurinn hefur talað í sím- ann gefur hinn þögli bendingu. Maðurinn sem hvorki er ungur né gamall hirðir eigur sínar upp af gangstéttinni. Hann setur þær aftur í vasa sinn. Konan beygir sig og setur á sig slæðuna. Þau eru líklega laus. Maðurinn og konan ganga í burtu. Lög- reglumennirnir standa eftir. Hvað var ósýnilegt í þessu dæmi sem við sáum og virtum fyrir okkur? Við vitum það ekki nákvæmlega. Vitum við það kannski ekki þar til ein- hvern daginn þegar þetta ósýnilega brýst fram sem sýnilegt hatur? Munu karlinn og konan líta á þessa rann- sókn sem eðlilegan hlut, hluta af daglegu lífi þeirra? Við vitum það ekki. En okkur gæti grun- að að við hræðumst ekki einungis hið sýni- lega heldur miklu fremur hið ósýnilega, þetta óljósa vald sem eitt sinn var eignað ill- um öndum eða hefndarþyrstum álfum. Vegna þekkingar okkar og vísinda nú- tímans teljum við að við séum aldrei nægi- lega varin gegn því ósýnilega. Hættan er jafnvel of mikil fyrir hin valdamiklu Banda- ríki. Jafnvel gervitungl, farsímar, njósna- kerfi, myndavélar eða háþróuð tækni koma að litlu gagni. Og Guð kemur ekki lengur til aðstoðar. 2. Maður situr í áætlunarbíl Gamall maður situr einn síns liðs í áætl- unarbílnum. Hann er á ferð frá suður- ströndinni til vesturstrandarinnar. Þetta hefur hann gert reglulega í sextíu ár til að skoða sína ástkæru fæðingarsveit. Árum saman tóku margir farþegar þennan bíl og alltaf fann hann einhvern meðal þeirra til að ræða við um atburði úr Eyrbyggjasögu. Þeir þekktu hana, söguna sem gerðist í sveitinni þeirra. Þeir voru flestir á hans aldri og á þessari löngu ferð gátu þeir borið saman hreysti hetjanna og aðalpersónurnar í öðrum Íslendingasögum. Stundum voru þeir ekki sammála. En að lokum komust þeir að þeirri niðurstöðu að Grettir sterki var sterkasti maðurinn í fornsögunum. Þessi sameiginlega niðurstaða vakti með honum talsverða gleði. En gamla manninum fannst áhugaverðast að ræða um Eyrbyggjasögu, sérstaklega hinn heillandi þátt um berserkina. Tveir bræður, Halli og Leiknir, komu frá Noregi til Íslands með Vermundi sem Eiríkur hinn sigursæli Svíakonungur hafði upphaflega sent Hákoni jarli. Það var því engin furða að gamli mað- urinn yrði sérstaklega spenntur þegar bíll- inn nálgaðist Bjarnarhöfn. Hann horfði af ákafa út um gluggann til að sjá hvort enn mætti grilla í veginn og vegginn í gegnum sögulegt hraunsvæðið. Eða var þetta kannski tálmynd sem sagan hafði kveikt í huga hans? Hann velti því fyrir sér hvort þessir tveir sænsku berserkir hafi, í nafni ástarinnar, getað rutt veginn á stuttum tíma með berum höndum. Og ef svo var, hvers vegna urðu þeir þá fyrir svo miklu órétt- læti? Hvers vegna hafði Styr, eigandi þeirra, ekki staðið við loforð sitt og gefið berserknum, Halli, dóttur sína Ásdísi, en gift hana í staðinn hinum slóttuga Snorra? Gamli maðurinn vissi að hinum berserkn- um, Leikni, hafði ekki verið ætluð ást og þess vegna hafði hann ekki lent í vandræð- um eða mótlæti. „Gerðist þetta vegna þess að berserkirnir voru útlendingar og líklega ekki þeirrar trú- ar sem viðurkennd var?“ hugsaði hann með sér. Með tímanum og eftir því sem hann varð eldri hafði æ færra fólk tekið þennan áætl- unarbíl og hann skildi ekki hvers vegna. Hann taldi að áætlunarbílar væru sérstak- lega hannaðir fyrir langar samræður. Fyrir utan hann voru þarna að mestu útlendir verkamenn. Þeir vissu auðvitað ekkert um fornsögurnar. Það var tilgangslaust að reyna. Innfæddir kusu frekar að ferðast með einkabílum og þeir fáu sem voru í áætl- unarbílnum vildu annaðhvort ekki spjalla eða vissu jafn lítið og útlendingarnir. Gamli maðurinn viðurkenndi að lokum með sjálfum sér að héðan í frá myndi hann sitja einn með hugsanir sínar. Það leið að lokum ævidaga hans. Í hvert sinn sem hann tók sér þessa ferð á hendur fannst honum að það kynni að vera hans síð- asta ferð. Þess vegna langaði hann afskap- lega mikið til að tala við einhvern um áhugamál sín: muninn á styrk frjálsra manna og þræla. Hann langaði líka að vita hvort réttvísin hefði alltaf verið í höndum slóttugra og valdamikilla manna eins og Snorra sem giftist að lokum Ásdísi, en auð- vitað líka að einhverju leyti í höndum sterkra manna eins og Grettis en aldrei í höndum útlendinga, hvorki þræla né ber- serkja sem höfðu nytsamlegra afl en Grettir og Snorri. Hvers vegna höfðu berserkir í ókunnu landi engan rétt þrátt fyrir kraft sinn? Nú var gamli maðurinn á leið suður aftur frá vesturströndinni. Þegar áætlunarbíllinn kom til Stykkishólms var stöðvað við póst- húsið. Þar kom gamli maðurinn auga á hóp af ungum mönnum í áköfum samræðum. „Þeir hljóta að vera að ræða fornsög- urnar,“ hugsaði hann. Þarna fékk hann óvænt tækifæri til að tala við unga fólkið. Hann flýtti sér út, gekk að hópnum og spurði um berserkina. Menn- irnir litu á hann. Hann beið. Loks greip einn þeirra farsímann sinn eins og hann ætlaði að hringja til að komast að hinu sanna. Gamli maðurinn beið skjálfandi. Hinir voru hljóðir og flóttalegir. Þá gerði hann aðra tilraun. Þegar þeir heyrðu sömu spurninguna virtust þeir ekki vita hvað þeir ættu að gera af sér, þeir snerust á hæli, settust inn í bíl- ana sína og þeystu burt. Þegar gamli maðurinn kom heim var hann í uppnámi. Hann skildi ekki hvað hafði kom- ið fyrir fólkið í heimasveit hans. Landslagið var það sama. Hraunið var þar sem það hafði alltaf verið. Sjórinn blár. Jökullinn hvítur. En það mikilvægasta, Eyrbyggja- saga, var ekki lengur þar sem hún hafði allt- af verið: í huga fólksins. Aftur á móti var hann sjálfur og það sem hann sá með eigin augum og í huga sér óhreyfanlegt, óbreytt. „Það er eitthvað ósýnilegt í því sýnilega, ég skil þetta ekki,“ hugsaði hann. Hann virtist ekki skilja þær stigvaxandi breytingar sem höfðu átt sér stað í þjóð- félaginu í tímans rás. Enginn nema hann var upptekinn lengur af berserkjum, styrk, réttlæti eða óréttlæti. Hið sama átti við um hann og sögurnar hans og Don Kíkóta sem trúði á libros de caballerias. Á þessum tíma var sonur hans að þýða Don Kíkóta og hann var sammála föður sín- um um að ekki ætti að ögra ævareiði sam- anborið við reiði el caballero. En eitt sinn spurði hann hvort það væri ekki fyrir neðan virðingu hetju að þurrka föt með móður sinni eins og ein þeirra hafi gert í ákveðinni sögu. Nei, svaraði gamli maðurinn. Ef ekki þarf að berjast gegn augljósu óréttlæti þá getur hetjan hjálpað móður sinni með heimilis- verkin. Það er engin skömm að því. Stolt sonar af móður og þörf hans fyrir hana er hið sama og stolt móður af syni og þörf hennar fyrir hann. Rök gamla mannsins voru ævagömul og svo sagði hann: Það eina sem mér líkar ekki í Eyrbyggja- sögu er að sænsku berserkirnir, Halli og Leiknir, eru í 24. kafla sagðir vera svo sterkir að þeirra líka væri hvorki hægt að finna í Noregi né annars staðar. Er það mögulegt að sagan af Gretti sterka hafi HIÐ SÝNI- LEGA Í ÞVÍ ÓSÝNILEGA E F T I R G U Ð B E R G B E R G S S O N Reuters „Þegar lögreglumaðurinn afhjúpar konuna horfa aðrar konur á eins og þær séu að velta fyrir sér hvað sé undir slæðunni, en svo snúa þær sér undan. Aðeins ein ung kona virðist njóta þess að horfa á þegar slæðunni er svipt af konunni. Hún lyftir höndunum eins og lögreglan hafi frelsað konuna.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.