Lesbók Morgunblaðsins - 21.09.1985, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 21.09.1985, Blaðsíða 14
Hann sá fram í tímann Einn allra óskiljanlegasti hæfileiki ófreskra manna hefur ævinlega verið hvernig þeir fara að því að skyggnast inní framtíðina. Þrátt fyrir það að engum hafi tekist að gera nokkra grein fyrir því, hvernig slíkt er mögulegt, þá eru sannanir fyrir því, að til séu og hafi verið menn gæddir þessari undragáfu svo fjölmargar, að enginn dirf- ist lengur að halda því fram að slíkt sé hjátrúarþvaður. Á tuttugustu öldinni hefur enginn fært jafnskörulega fram sannanir fyrir þessum sjaldgæfa hæfileika og hollenski sjáand- inn Gerard Croiset, sem lést árið 1981. Það ætti að auka mjög sannanagildi frá- sagna um Croiset, að hann hefur frá upp- hafi verið undir eftirliti og í rannsóknum hjá frægasta dulsálfræðingi Hollands, prófessor Tenhaeff, sem nýtur álits um allan heim. i Frægustu tilraunir sem Tenhaeff pró- fessor gerði með Croiset voru hinar svo kölluðu „sætistilraunir", sem fjölluðu um hæfileika hans til þess að geta séð hvað gerist í framtíðinni. Þessar frægu tilraun- Um sjáandann Croiset eftir ÆVAR KVARAN ir voru síðan endurteknar með Croiset í fimm öðrum Evrópulöndum og Bandaríkj- unum og vöktu alls staðar stórfurðu. Tilraunin fer fram með þessum hætti: Valið er af handahófi sætisnúmer úr grunnteikningu yfir sæti á fundi, sem halda á síðar; segjum þriðja sæti í fimmtu röð. Engin sæti eru tekin frá. Auk þess er fundurinn stundum haldinn í annarri borg, og er Croiset ekki skýrt frá því fyrir- fram. Sætisnúmerið er valið af þeim, sem stjórnar tilrauninni, einhverjum sem ekk- ert er við fundinn riðinn eða Croiset sjálf- um. Ýmist dregið út eða með frjálsu vali. Hver sem aðferðin er við val á sætinu, þá segir Croiset fyrir hver muni setjast í umrætt sæti, og fyrirvarinn allt frá einni klukkustund uppí tuttugu og sex daga fyrir fundinn. Hljóðritaðar spár Croisets eru settar í innsiglað umslag og læstar inní peningaskáp, og ekki opnað fyrr en á fundinum. Spárnar eru svo rannsakaðar lið fyrir lið, eftir að fundargestir hafa komið sér fyrir í sætum sínum, með því að spyrja persónuna sem situr í sætinu vand- lega undirbúinna spurninga. En fullyrð- ingar Croisets hafa reynst svo nákvæm- lega réttar, að alls ekki er hægt að útskýra þær sem ásakanir eða tilviljanir. Stundum kemur það fyrir, að Croiset sér ekkert fyrir fundinn. Þá kemur ævinlega í ljós síðar, að sætið var autt, þegar fundur- inn hófst. Einr.ig kom það fyrir að sýnir hans voru mjög óskýrar og stafar það af því, að fléiri en ein persóna hafa setið í eða snert sætið, en það hefur sömu áhrif og þegar tvær ljósmyndir eru teknar hvor ofaní aðra á filmu. Croiset sá ekki einungis framtíð viðkom- andi einstaklings, heldur einnig fortíö hans. Þetta gerðist einkum, þegar Croiset leyfði sér aö velja sjálfur sætið fyrirfram. En skulum við nefna dæmi um slíkar til- raunir. Hjúkrunarkonan Síðari hluta dags þann 6. mars 1950 var hollenski blaðamaðurinn F.K. á snöpum í Amsterdam eftir fréttaefni. Hann hringdi þá til Gerards Croiset í Enschede og bað um ótvíræðar sannanir fyrir dulrænum hæfileikum hans, sem mikið orð hafði far- ið af um allt Holland. „Eftir tvo daga,“ sagði Croiset, „geri ég sætistilraunir á fundi í Utrechtdeild sál- arrannsóknafélagsins. Gerið þér svo vel að velja sætisnúmer fyrir þann fund. Nefnið hvaða númer sem yður kemur í hug.“ „Þriðja sæti frá hægri í sjöundu röð,“ valdi blaðamaðurinn. „Gott,“ sagði Croiset. „Skrifið vinsam- lega niður þessa lýsingu, sem ég læt yður nú fá. Ég sé að á þennan stól mun setjast kona nokkur gráhærð. Hún er grannvaxin og mjóslegin. Hún hefur ánægju af því að hjálpa fólki, en kallar allt sem hún gerir í þeim efnum kristilegt þjóðfélagsstarf." Þegar gengið var úr skugga um þessar fullyrðingar undir stjórn dr. Tenhaeffs kvöldið þann 8. mars kom í ljós, að í þessu sæti sat hjúkrunarkona mótmælendatrú- ar, systir L.B., sem vissulega helgaði sig kristilegu þjóðfélagsstarfi. I lýsingu sinni skeikaði Croiset hvergi. Lýsing hans gat ekki átt við neinn annan viðstaddra. Systir L.B. viðurkenndi að lýsing hins skyggna manns á henni væri rétt. Sagði hún, að minnstu hefði munað að hún sæti heima og að val sitt á sæti hefði verið algjörlega af handahófi. Nánari rannsókn dr. Tenhaeffs leiddi eftirfarandi í ljós: Systir L.B. var ekki fé- lagi í Hollenska sálarrannsóknafélaginu. Það var hrein tilviljun að hún hlaut að- göngumiða, sem hún þar að auki ekki fékk fyrr en kl. 17.40 þann 8. mars. Croiset veitti blaðamanninum upplýs- ingar sínar áður en gestir viðstaddir til- raunina fengu boðskort sín. Auk þess vissi persónan, sem lét systur L.B. fá aðgöngu- miðann ekkert um þær upplýsingar, sem hinn ófreski maður hafði gefið fyrirfram. Sjóliðinn Kvöldið þann 15. nóvember 1949 var Croiset staddur í höfuðstöðvum lögregl- unnar í borginni Hengelo. Hann var að vinna við sakamál. Þegar hann hafði lokið störfum kl. 21.30 bað hann lögreglufor- ingjann hr. S. að skrá niður hugmyndir um sætistilraun, sem ákveðið var að halda kvöldið eftir í Enschede fyrir kvenfélag sveitarinnar í nágrenninu. Að þessu sinni sagði Croiset fyrir níu atriði: „Þetta er fjórða sætið í þriðju röð frá hægri. 1. Þar sé ég grannvaxinn, ungan mann í dökkum fötum með greitt uppfrá enn- inu. 2. Hann er með lítinn vasaklút í brjóst- vasanum. 3. Hann er sífellt að tala við unga stúlku, um tuttugu og fjögurra ára gamla, sem situr við hlið hans. 4. Þessi stúlka er með rósrauðar kinnar. Hún er í rauðu vesti og ein nöglin á fingri hennar er dálítið skemmd. Það er nöglin á löngutöng hægri handar. 5. Vinstra megin við hana situr fullorðin kona. Þessi kona er með skiptingu í hár- inu. Hún er í svörtum kjól. Hún hefur hvöss, blá augu og leikur ævinlega við það, sem hún hefur i höndum sér. 6. Þetta fer í taugarnar á eiginmanni hennar. 7. Eiginmaður hennar er digur, að verða sköllóttur og notar gleraugu þegar hann les. 8. Ungi maðurinn datt á vinstri fót og er með ör fyrir neðan vinstra hnéð. 9. Fullorðna konan á son, sem er klæddur einkennisklæðum flotans. Hann er að minnsta kosti sjómaður. Ég sé tund- urskeyti springa. Hefur þessi kona misst ættingja í slíkri sprengingu við strönd Atlantshafsins... í einhverri höfn? Þessar upplýsingar voru fengnar fund- arstjóra í innsigluðu umslagi fyrir fundinn þann 16. nóvember. Hvernig bar þeim nú saman við sann- reyndir? I hinu valda sæti sat maður sem að útliti kom mj'ög heim við þrjú fyrstu atriðin í lýsingu Croisets. Á fundinum sagði hann við þennan unga mann: „Þér eruð með ör fyrir neðan vinstra hnéð.“ Furðu lostinn viðurkenndi maðurinn að þetta væri rétt. Einnig kom það heim, að við hlið hans sat ung stúlka, rjóð í kinnum, sem hann var alltaf að tala við. Upplýsingar Croisets um hana reyndust réttar, þótt hún væri reyndar tuttugu og sex í stað tuttugu og fjögurra ára gömul. Vinstra megin við hana sat fullorðin, bláeyg kona í svörtum kjól, sem einnig viðurkenndi að lýsingin væri rétt. Auk þess reyndist lýsing skyggna mannsins á eiginmanni hennar einnig rétt. En nú kom babb í bátinn. Þessi kona neitaði því í heyrenda hljóði, að sonur hennar væri sjó- liði sem hefði farist, þegar skip hans varð fyrir tundurskeyti. En ekki hafði hún þó fyrr lokið máli sínu en önnur kona, ungfrú W.v.B. reis úr sæti sínu og gaf þessar upplýsingar: „Bróðir minn var sjóliði, slökkviliðsmað- ur hjá landgönguliði flotans í stríðinu. Hann dó, þegar skip hans varð fyrir tund- urskeyti í árás nálægt Plymouthflóa." Croiset botnaði hvorki upp né niður í þessum ruglingi. Hann sagði við konuna: „Getið þér hugsað yður nokkra ástæðu til þess hvers vegna ég fékk þessa hugmynd frá yður?“ Hún svaraði: „Ja, rétt fyrir fundinn þá sendi ég hringinn minn uppá sviðið og bað yður að segja mér eitthvað í sambandi við hann.“ Croiset hafði tekið við hringnum hjá henni og smeygt honum milli blaðanna í minnisbók sinni og sagt við hana: „Ég get ekki gert það núna, en vonast til að fá tækifæri til þess síðar á fundinum." Þótt furðulegt megi virðast,. þá hafði hinn skyggni maður þannig fengið skýra mynd í sambandi við þennan tengihlut kvöldið áður en hann hafði tekið við hringnum, enda þótt mynd þessi að vísu blandaðist saman við önnur áhrif. Hér verð ég plássins vegna að láta stað- ar numið við að segja meira af undrum Gerards Croiset. En ef einhverjir lesendur kynnu að hafa áhuga á að heyra meira, þá vil ég benda þeim á það, að til er á íslensku bók um Croiset eftir Jack Harrison Poll- ack, sem sá sem þetta hripar þýddi og gaf nafnið Hugsýnir Croisets, og Víkurútgáf- an gaf út. ->

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.