Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 15
ast góðrar birtu og þá verður Leifur að haga verki sínu þannig að slíkt markmið náist einnig. Glerlistamaður verður að taka tillit til birtunnar, sem á að gefa verki hans líf, — og birtan hér á landi er miklu kaldari en á suðlægari slóðum. Leifur kveðst nota heitari liti í glugga hér en hann mundi gera úti í Evrópu. Glugginn í Fossvogs- kapellu snýr að mestu leyti í norðaustur og nýtur þar ekki sólar nema þá morg- unsólar öðrum megin. Leifur tók tillit til þess og lét gera sérstakt gulhvítt ópalgler úti í Þýzkalandi og notaði það til að vega á móti þessu kalda ljósi. En það er ekki bara í kirkjugluggum, sem taka verður tillit til þessa. Leifur segir: „Sé um að ræða glugga, sem snýr í sólarátt, get ég betur notað kalda liti, blátt og grátt, en miklu oftar óskar fólk eftir heitum litum til að vega upp á móti köldu birtunni hér. Sé um útsýni að ræða, nota ég glært gler með því litaða til þess að útsýnið sjáist að einhverju leyti í gegn- um myndina. Ég get nefnt dæmi úr Prestbakkakirkju; þar sést í gegnum gluggann út í kirkjugarðinn og landslag- ið. Það sem gefur steindu gleri líf er það sem sést í gegn og síður en svo að það trufli sjálft myndverkið. Þarna er komin þrívídd til skjalanna, sem frá upphafi er gert ráð fyrir og er þýðingarmikill þáttur í þessari listgrein." Við ræddum um þetta til og frá og Leif- ur hafði ekki lengur næði til að skera glerið, en Sigríður óhagganleg með hníf- inn, sem hún brá á blýið annað veifið. Ólafur, litli sonur þeirra, 6 ára, dundaði sér við teikningar á gólfinu, en Jóhann, sem er 9 ára, var í skólanum. Við komum að hugmyndafræðinni — því frásagnarlega, sem stundum þarf að vera með, eða öllu heldur: því sem myndin á að miðla. Eigum við ekki að gera ráð fyrir því, að myndin sé miðill; ekki fjöl- miðill, en einhverju miðlar hún ef vel á að vera. „Hugmyndalega hliðin skiptir mig ekki mestu máli — heldur það formræna; það sem er hreint myndrænt,“ segir Leifur í þessu sambandi og ennfremur: „Minna skiptir hvort verkið segir einhverja sögu; þó getur sú hlið komið upp á teningnum, að verkinu sé beinlínis ætlað að segja sögu og það gerðist einmitt hjá mér í sambandi við gluggann í St. Giles-kirkj- unni í Edinborg, þar sem hann átti að vera helgaður minningu skozka skáldsins Robert Burns.“ Sú ákvörðun kirkjuyfirvalda á staðnum að fá Leif til verksins var verulegur list- rænn sigur fyrir hann. Efnt var til sam- keppni, sem Leifur tók raunar alls ekki þátt í, en niðurstaðan varð sú að hafna öllu sem fram kom í samkeppninni og var að lokum leitað til níu listamanna á sviði steindra glugga í Evrópu. Tveir voru valdir úr þeim hópi og var Leifur annar þeirra, en hinn er franskur og frægur á þessu sviði. Segja má, að þeir tveir hafi keppt um heiðurinn og varð Leifur end- anlega fyrir valinu. Leifur fékk frjálsar hendur um út- færslu, en þáði vísbendingar og ráðlegg- ingar og þau hjónin lásu heilmikið um skáldið Burns og tíma hans í Skotlandi. Það lá þó alla tíð ljóst fyrir, að Leifur ætlaði ekki að nota gluggann til að mynd- lýsa lífi Burns eða sýna það í einhvers- konar myndasöguformi. Eins og löngum fyrr, sat það formræna og myndræna í fyrirrúmi, en auk þess þurfti Leifur að gera sér Ijóst það ljósmagn, sem glugginn hleypti inn í kirkjuna. Þarna var gamall gluggi fyrir, sem verður fluttur annað; hann er mjög dökkur og með glugga Leifs mun birta til muna í kirkjunni. Þegar litið er á mynd af útfærslu Leifs á glugg- anum, tekur áhorfandinn eftir manns- mynd fyrir miðju neðantil. Undir henni stendur nafn skáldsins og ættu þá Skotar að minnsta kosti að skilja, hver þarna er á ferð. En annað í glugganum, sem meira er stílfært, stendur meðal annars fyrir hugsjónir Burns um samstöðu og jöfnuð meðal manna. Skotar halda mjög í heiðri þetta skáld og athyglisvert, að glugginn er kostaður af alþjóðlegum félagsskap, sem heitir The International Burns Soci- ety og er samband eitt þúsund klúbba, sem Skotar búsettir utan föðurlandsins eiga einkum aðild að. Stærsti hluti verka Leifs Breiðfjörð í opinberum byggingum er í kirkjum. Þeir sem hafa þurft að kveðja sína nánustu í Fossvogskapellu, hafa tekið eftir glugg- anum þar, sem sýnir píslargönguna. Það er afburðaverk, sterkt í byggingu og hrynjandi, hrifmikið í lit — og hefði gjarnan mátt láta vera að byrgja sýn að því utanfrá með þéttum skógarlundi, sem plantað var út nýlega og meira af kappi en forsjá. Ennþá stærri er þó glugginn í Bústaða- kirkju, sem veit út að Bústaðaveginum og mún einnig njóta sín þaðan. Hann hefur verið að koma upp í áföngum og mun fullgerður bregða stórum svip á þessa glæsilegu kirkju, enda 65 fermetrar. Sam- tals veröa gluggar eftir Leif í Bú- staðakirkju upp á 156 fermetra. Þar að auki má nefna fjóra nýja glugga í Flat- eyrarkirkju, en þar eru fjórir gluggar fyrir, — en einnig í Njarðvíkurkirkju, Kapellu kvennadeildar Landspítalans, Prestbakkakirkju, kapellu í Heilsuhælinu í Hveragerði og Ingjaldshólskirkju. Kynni Leifs af Edinborg hófust ekki með glugganum í St. Giles. Hann nam í The Edinburgh College of Art eftir að hafa lokið námi frá Myndlista- og hand- íðaskólanum hér, — og nú er hann orðinn prófdómari við skólann í Edinborg og fer utan árlega til þess að leggja mat á ein- kunnagjafir í glerlist. Sjálfur hefur Leif- ur orðið brautryðjandi þessarar list- greinar á íslandi; segja má, að hann hafi komið að lítt numdu landi, þar sem fyrir voru einungis steindir gluggar í nokkrum kirkjum. Um þessar mundir er ein íslenzk stúlka, Sigríður Ásgeirsdóttir, við nám í glerlist við þennan sama skóla; hún er þar á 5. ári. Þetta er góður skóli, segir Leifur. Tæknilega hliðin er annars ekki erfið, segir hann, og í Ameríku er hægt að læra það tæknilega á námskeiðum. Sú kunn- átta ræður engum úrslitum, þegar til kastanna kemur, enda þótt hún sé nauðsynleg. Mestu máli skiptir alhliða listnám og sú geta við myndsköpun, sem menn afla sér annaðhvort í skólum eða með sjálfsnámi. Svo er eitt og annað, sem vefst fyrir mönnum á byrjunarstigi, jafn- vel þótt þeir séu útskrifaðir úr skólum. Það eru hlutir, sem einnig heyra til því tæknilega, en lærast af reynslunni. Persónulegur stíll þykir skipta miklu máli í myndlist almennt og til eru þeir, sem fara út á yztu þröm í viðleitninni að vera sér á báti og ávinna sér stíl sem þekkist auðveldlega. Óhætt mun að segja, að Leifur Breiðfjörð hefur persónulegan stíl, en hann kveðst samt yfirleitt ekki hugsa um það. Eins og aðrir hefur hann orðið fyrir sínum áhrifum og teiur Þjóð- verja og Bandaríkjamenn fremsta í flokki í þessari listgrein, en í Bandaríkjunum hefur glerlist blómstrað mjög á fáeinum árum. En Japanir sækja fast fram á þessu sviði eins og fleirum og má mikils vænta af þeim. Við ræddum sérstaklega um afstöðuna til kirkjulistar og hvort Leifur setti sig í sérstakar stellingar svo að segja, þegar það kemur upp að skapa kirkjuverk. Hann neitar því. En það er samt hægt að ýta undir trúarleg hughrif með litanotk- un í kirkjulist og stundum er unnið með tákn. Það hefur Leifur gert í Flateyrar- kirkjuglugga til dæmis, þar sem blá lilja stendur sem tákn fyrir Maríu guðsmóður. Annað í gluggum Flateyrarkirkju er svo stílfært, að trúlegt er að það muni vefjast fyrir kirkjugestum vestur þar að heimfæra formin uppá Frelsarann og annað, sem þar kemur fyrir, en mottóin fyrir vinnuteikningunum þremur eru: Leyfið börnunum að koma til mín — Yður er í dag frelsari fæddur og Jesús læknar sjúka. Við ræddum einnig þá spurningu, hvort trúaður listamaður hefði að öðru jöfnu betri forsendur til að vinna áhrifamikið kirkjuverk. Leifur taldi, að það væri varla aðalatriði, en ugglaust heldur betra. Það er mjög sérstakt að hjón vinni saman á þann hátt sem þau gera Sigríður og Leifur, — ekki bara í einni listgrein, heldur tveimur og þeim harla ólíkum. „Við köllum þetta stundum allt til sam- ans glerull," segir Sigríður. Það eru nú orðin 13 ár síðan hún hóf að blýleggja hjá Leifi og í þeim mæli síðan 1977, að það hefur verið hennar aðalstarf. Og um sama leyti fóru þau að standa sameigin- lega að vefmyndunum. Hún hefur komið víða við á menntunarbraut veflistarinnar; byrjaði á sínum tíma í Svíþjóð, en lauk síðar námi frá Myndlista- og handíða- skólanum í Reykjavík. Hún nam síðar í Noregi, Danmörku og Finnlandi og sér- hæfði sig alveg í veflist þar til hún fór að fást við blýlagningar. Blýlagningarverk- stæðið við Sigtún er það eina sinnar teg- undar hér og þau vinnubrögð, sem Sigríð- ur og Leifur stunda þar, eru einstæð hér á landi. Það er svo annað mál, að auk þeirra er til fólk hér, sem fæst við að setja saman gler og búa til glermyndir á þann hátt, að þlýræmur eru límdar ofan á heilt glerið og það síðan litað. Það er önnur aðferð sem alvöruglerlistamenn nota ekki, en getur ugglaust verið skemmtileg iðja fyrir því. En vinnutíminn; hvernig ætli hann sé hjá listafólki, sem ræður hvenær það vinnur og er hvorki háð opnunartíma né stimpilklukku? Kannski ætla einhverjir, að þesskonar fólk sofi til hádegis og dundi sér svo eitthvað frameftir deginum. Ekki er það nú samt á þeim nótum hjá þeim Sigríði og Leifi. Þau telja að vinnutíminn á verkstæðinu í Sigtúni sé frá 9—5. Þegar heim kemur er oft unnið í skyssum og teikningum. Og eftir kvöldmatinn þarf að spá í þetta allt saman: dagsverkið og það sem er á döfinni og rétt komið á pappír. Áður stundaði Sigríður kennslu í veflist við Myndlista- og handíðaskólann. Nú eru aftur á móti engin önnur störf, sem tefja þau frá áhugamálunum, sem yfirgnæfa allt þar á heimilinu. Ekkert sport eða tómstundaiðja eða eftirsókn eftir innan- tómum skemmtunum. Ekkert tefur þau frá listinni nema þetta venjulega heimil- ishald og svo að ala upp synina tvo. Lífið, segir Leifur Breiðfjörð, er sam- bland af skemmtun og vinnu. G.S. 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.