Lesbók Morgunblaðsins - 21.08.1982, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 21.08.1982, Blaðsíða 11
arfleifðar, en einnig glöggt dæmi um félagslega stöðu fólks sem byggt hefur afkomu sína á hirðingjabúskap og teppagerð. Kashkai-arnir eiga sér all lit- ríka sögu. Síðustu 4—5 aldir hafa þeir að mestu lifað á hjarðbúskap og lagt mikla rækt við teppagerð, verið efnalega sjálfstæðir og náð til virðingar og áhrifa í sinni stétt, ef svo má komast að orði. Um miðja þessa öld þegar stórátak var gert til að skipuleggja framfarir í Iran, urðu hjarðbændur illa séðir, farandbúskapur samræmdist ekki nútímalegum lífsháttum og félagsleg aðstoð og uppbygging var miðuð við fasta búsetu. Kashkai-ættflokkurinn reyndist stjórnvöldum sérstaklega óþæg- ur ljár í þúfu. Þrátt fyrir að samtök þeirra væru bönnuð, tókst þeim að halda ættflokkn- um saman sem heild, og meiri- hluti þeirra stundar áfram hefðbundinn hjarðmennskubú- skap, þar sem búferlaflutningar taka um það bil mánuð bæði haust og vor, 5 mánuðir fara í sumardvöl og aðrir 5 í vetrar- dvöl. Þeir halda reisn sinni og menningararfleifð. Má það fyrst og fremst þakka mikilhæfum leiðtoga þeirra, sem er vel menntaður maður. Hann vann mjög merkilegt starf með því að skipuleggja farskólakerfi fyrir ættflokkinn og nær það nú til allra, sem farandbúskap stunda hvar sem er í Iran og hafa stjórnvöld falið honum yfir- stjórn þessa menntakerfis. Kennslan fer fram í tjöldum víða um landið, þ.e.a.s. fyrstu 5 árin. Eftir það taka við fram- haldskólar í borginni Shiraz, þar sem Kashkai-arnir hafa einnig aðsetur. Teppin sem þeir framleiða eru merkt þessu borg- arnafni og þykja ein bestu og fegurstu austurlensk teppi, sem völ er á. í þeim er aðeins ull, sem þeir vanda mjög og jurtaliti nota þeir eingöngu. Þá er ótalið merkilegt fram- lag þeirra til verndar hefðbund- inni austurlenskri teppagerð: Stofnaður hefur verið listiðnað- arskóli fyrir atbeina hins ötula leiðtoga ættflokksins, þar sem stúlkum (eingöngu) er kennt hvaðeina, sem lýtur að hefð- bundnum aðferðum við gerð teppanna. Á meðan á námsdvöl- inni stendur, í eitt ár, sér skól- inn stúlkunum fyrir öllum nauð- synjum. Áhersla er lögð á að kenna þeim listina í þeim stíl og þau vinnubrögð, sem einkennt hafa teppi Kashkai-ættflokksins og koma þannig í veg fyrir að listtækni þeirra deyi út. Að námstíma loknum fær skólinn stúlkunum nægilegt fé til að kaupa í og vinna fyrsta teppið; síðan eiga þær að vera færar um að sjá sér farborða með listiðn sinni. Hugsanlega tekst Kashkai- ættflokknum að varna því að þessi þjóðlegi heimilisiðnaður deyi út austur þar; um það er við tímann, hraðann og olíuna að keppa.svo og breytt viðhorf til lífskjara. Heimildir: World of Islam Festival 1976, Whitworth Art Gallery University of Manchester. How to know Oriental Carpets and Rugs 1952—1974, Heinrich Jacoby. ppupp mín aurasál Það hefur lengi legið í landi hér að gera takmarkaðar kröf- ur til söngljóða, að ég nú ekki tali um til þeirra kvæða, sem ætluð eru til sönglunar við fjörug danslög. Og í ábæti við hádegismatinn á meðan við bíðum eftir fréttum útvarpsins hafa í áratugi verið sungin yfir okkur væmnustu og leiðinleg- ustu lögin í plötusafni þeirrar góðu stofnunar, oft til þess valdir bestu söngvarar lands- ins. Þó er ég nú ekki frá því, að heldur hafi skánað síðustu mánuðina, þó ekki mikið. En ég ætlaði nú fremur að tala um texta en lög að þessu sinni, enda tel ég mig hafa meira vit á skáldskap en tón- list. Yfirleitt hefur það verið eilífðarvandamál útvarpsins, að val texta við danslögin og þá tónlist sem í tísku er á hverjum tíma, er lítt vandað. Nokkur góð skáld s.s. Krist- ján frá Djúpalæk, Jónas Árna- son og Ási í Bæ, svo ég nefni þá sem enn eru við lýði, hafa þó ort ágæt dægurljóð og söngva. Það er þakkarvert og virðingarvert, því slík ljóð geta þeir einir ort, sem auk skáld- skapargáfunnar hafa næmt tóneyra. En það eru víst fyrst og fremst danslagahöfundarnir og hljómsveitarstjórarnir sem velja sér hnoðara til að semja textana sem sungnir eru. Eg hefði viljað setja strangari reglur hjá útvarpinu en nú gilda um það hvað boðlegt er þar til flutnings, beinlínis lag- færa og leiðbeina, þegar þörf er á, annars synja þar um notkun ljóðs og lags. Efni þessara danstexta hef- ur lengi verið rómantísk ástar- þvæla og sjóarabull. Hin síð- ustu ár hefur svo nýtt efni komið í tísku í stað gömlu væmninnar: hrá þjóðfélags- ádeila og ýmiskonar róttækni og gagnrýni. Bregður þar stundum fyrir góðum athuga- semdum, en oftar margtuggn- um slagorðum. Því miður kunna sumir þessara söngva- smiða lítið til verka, nema þá helst að raða atkvæðum eftir hljóðfalli lagsins. Ungir menn yrkja nú mest rímlaust og halda sumir, að orð megi velja af handahófi og láta skeika að sköpuðu um hrynjandi máls- ins. En þar fara þeir villur vegar. Hvort sem menn ríma eða láta vera að binda ljóð sín við reglu höfuðstafa og stuðla, verður að sýna sömu smekk- vísi og tónskáldið þarf að sýna við sinn hluta sköðunarverks- ins. Linja sú sem ritdómarar hafa sýnt bögubósum og við- vaningum síðustu árin segir hér til sín. Mikið er um plötuútgáfu í landinu. Upplög á þeim mark- aði eru margfalt stærri en við útgáfu ljóðabóka. Og svo bæt- ist við útbreiðsluna allt sönglið í æskulýðstímum útvarps og sjónvarps. Og er þá ekki nefndur markaður sjálfra dansskemmtananna. Það sem heyrist í þessu sambandi hlýt- ur að vera örlagaríkt fyrir málsmekk, eyra og auga varð- andi skáldskapargildið. Um plötuútgáfuna er svo ritað í blöðin. Og þá er nú ekki alltaf mikilli smekkvísi fyrir að fara, þegar minnst er söngljóðin. Hér er dæmi úr einu dagblað- anna frá 17,—18. júlí sl. „Það sem hreif mig mest á þessari hljómplötu eru textarnir og er langt síðan út hefur komið plata með jafngóðum og skemmtilegum textum. Eiga þeir drengir lof skilið. Þeir eru að vísu ekki allir jafn góðir, en stærri hlutinn er virkilega góð- ur.“ Svo er vitnað í texta sem heitir Meðalaðsókn. Meðalaðsókn þótti dræm að undirbúningi prestsins fermingarbarnið sat við bæn um peningagjafir gestsins. Nú skulum við í gamni virða fyrir okkur þessar vísur: Fyrst er verið að tala um fermingar- undirbúninginn og er því sleg- ið fram, að einhverjum ónefndum aðilum hafi þótt fermingarbörn sækja illa þá fundi sem presturinn ætlaði til slíks. Þó er allt svo óákveðið, að lesandi eða hlustandi gæti eins haldið að átt væri við það, að færri en ætla mætti kærðu sig um að láta ferma sig, þótt til þess aldurs væru komnir. Eitt fermingarbarn er nefnt í vísunni og ekki gott að sjá, hvort það er heima hjá sér eða á fundi prestsins, áhugalaust um það sem hann er að segja, en hugsandi um gjöf einhvers ónefnds gests, því vegna enda- ríms kemur þarna þessi ágæti gestur þarna við sögu. Hér er því um æði óljósa hugsun og vafasama málkunnáttu að ræða. Þá kemur annað vers í sálm- inum og minnir nokkuð á ann- an enn frægari eftir Hallgrím heitinn Pétursson. Upp upp mín aurasál í fullorðinna tölu buddan orðin þung sem stál hugsjónin til sölu. Hér setur höfundur sig í spor fermingarbarnsins og ávarpar sál sína eins og Hall- grímur í passíusálminum, en í sömu andrá hefur efnahagur- inn hjá barninu breyst og það hefur meira að segja einhverja ónefnda hugsjón til sölu. Svona ógreinilega má maður ekki taka til orða í skáldskap. Og þegar kemur að þriðja versi tekur ekki betra við: Komið er að kvöldi dags peningaflóðið dvínar drottinn lítur til sólarlags á aurasálirnar sinar. Hér eins og í fyrri vísunum er orðavalið svo handahófs- kennt að um heila brú í hugs- uninni er í rauninni ekki að ræða. Þó má með góðum vilja ætla að höfundur sé farinn að segja frá kvöldi fermingar- dagsins, án þess að hafa þó bú- ið lesanda eða heyranda sinn undir það. Látum það þó gott heita. Er þá gefið fyrirheit um það í vísunni að guð fylgist með atferli veislufólks og fermingarbarna, sem hér eru kallaðar aurasálir, sem ein- hverjum myndi nú þykja hart að kveðið. En sem sagt drott- inn gefur því auga fram eftir kvöldinu. Ef þá er ekki átt við ævikvöldið, og er sú líking æði langsótt og gamaldags og á nú ekki béint vel við í nýtísku dansljóði. — Við tökum eftir því að endarím er í vísunum, en að öðru leyti er ekki fylgt íslenskum bragreglum. Ekki hef ég hugmynd um hver hefur barið þetta saman, þes er ekki getið í greininni, sem ég fer eftir. En þar er „drengjum" þakkað, svo lík- lega eru þeir fleiri en einn. Kannski gætu þeir gert betur, ef þeir gerðu sér ljóst, að ekki er sama hvað fólk syngur fyrir dansi. Þeir hugsa kannski sem svo, að þetta drukkni hvort sem er í hávaða, þar sem bumbur eru barðar og málm- gjöll slegin. Ekki veit ég held- ur hver hefur skrifað þetta, sem á víst að kalla gagnrýni. Það er ekki von að yrkjendur vandi sig, þegar svona sam- setningur er lofaður hástöfum. Nú má ekki skilja orð mín svo að ungir menn, sem langar til að yrkja, eigi ekki að láta það eftir sér. En þeir sem fá^t við söng og lagasmíðar og leika auk þess á hljóðfæri verða að gera sér grein fyrir því, að skáldskapur er allt annar handleggur, til þess að geta ort frambærileg kvæði þarf ann- arskonar gáfur. Sama máli gegnir um blaðamann sem gagnrýnir tónlist. Hann kann að hafa brúklegt vit á þeim greinum, en hvorki þekkingu né þroskaðan smekk til þess að tala um kveðskap. Sé sá síðar nefndi tekinn alvarlega og hæli svona leirbulli, vinnur hann tvöfalt, ef ekki margfalt ógagn. Jón úr Vör. 11

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.