Lesbók Morgunblaðsins - 05.03.1961, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 05.03.1961, Blaðsíða 4
120 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS sótti eg eftir páska og var hann þá gaddfreðinn, og í þeirri ferð fekk eg nokkra fiska í viðbót. Þennan laugardag áræddi enginn að fara á reka nema eg. Nokkrum árum seinna var það einn dag, er eg var að ljúka gegn- ingum um nón, að mig greip óstjórnleg löngun til þess að fara á reka. Þá var mikill snjór á jörð, en veður milt og rigning, og færð því hin versta. Þegar eg sagði konunni frá fyrirætlan minni, leizt henni illa á þessa ráðagerð. Hún sagði sem satt var, að nú væri svo liðið á dag að fuglar myndu hafa hirt allt ætilegt, sem kynni að hafa skolazt á land um nóttina. Eg varð að viðurkenna að þetta væri rétt, en mér heldu samt engin bönd, og eg lagði á stað. Færð var hin versta vegna leys- ingar. Skammt frá fjörunni mætti eg þeim séra Magnúsi á Prests- bakka og Lárusi á Klaustri. Þeir voru að koma af sýslufundi í Vík, en urðu að fara austur með sjó, vegna þess að sandurinn mátti heita ófær. Eg spurði hvort þeir hefði séð nokkurn reka á fjörun- um. Ekki höfðu þeir veitt því at- hygli, en sögðu að þar væri mikið um fugl. Eg hélt svo áfram eftir slóð þeirra fram að fjöru og sá að brimlaust var, en þó hvergi nærri dauður sjór. Þar sem mig bar að fjörunni hagaði svo til, að þar höfðu myndazt tvær brimeyrar og ofur- lítið lón á milli þeirra. Og lónið var fullt af lifandi fiski. Þá kom heldur veiðihugur í mig. Eg fleygði heypokanum fyrir hestinn, svo að hann hefði eitthvað við að vera, og æddi svo út í lónið. Önn- ur veiðartæki hafði eg ekki en berar hendurnar. Og nú tók eg að grípa þorskana. Tækist mér að ná taki á þeim ofan við sporð, gat eg kastað þeim á land, en mörg urðu handtökin gagnslaus, því að fisk- urinn var sleipur og rann úr greipum mér. En þarna hamaðist eg og gleymdi öllu öð\ru en því, að þarna var blessuð björg. Stundum stóð eg í sjó í mitti og margoft gengu kvikur yfir mig. En því skeytti eg engu, hugsaði aðeins um að ná í sem flesta þorska og kasta þeim á land. Og þannig hamaðist eg þangað til svo dimmt var orðið að eg sá ekki lengur til. Þá fór eg að athuga aflabrögðin, og þau voru ekki lítil. Þama í sandinum lágu 97 stórir þorskar, og þó hygg eg að eg hafi ekki náð nema þriðja hverjum fiski er eg festi hendur á. Það varð mér til láns, að út- fall var meðan á veiðunum stóð, en hefði verið aðfall mundi það hafa tekið fiskana frá mér. Um það hafði eg ekkert hugsað á meðan veiðihugurinn var í mér, tók fyrst eftir því þegar bardag- anum var lokið. Eg dró nú aflann undan sjó. Þá var eg orðinn alldasaður og ekki var þur þráður á mér frá hvirfli til ilja. Eg skreið svo á bak hest- inum og helt heimleiðis. Þegar heim kom var svo áliðið, að börn- in voru háttuð og sváfu öll í sælli ró og áhyggjulaus. Eg hafði fata- skifti og fekk svo nógan og góðan mat hjá konunni, en hún var í sjöunda himni út af því hvað ferðin hafði gengið vel. Við allt þetta hresstist eg svo, að mér fannst eg vera nýr af nálinni, og klukkan tvö um nóttina lagði eg aftur á stað með fimm hesta til þess að sækja björgina. Þegar eg kom niður að sjó var ekki nokkur lifandi skepna í lón- inu góða. Eg hafði vonað hálft um hálft að með næturflóðinu hefði fiskur borizt á land, en svo var ekki. Að vísu fann eg þar þrjár ýsur, en þær gátu hafa legið þar kvöldið áður. Eg hafði verið á rekajörðum lengst af þessi 48 ár, sem eg hafði lifað, en aldrei hafði eg heyrt þess getið að ýsu hefði rekið á land. Og þess voru þá ekki heldur nein dæmi, að þorskur hefði verið tíndur úr sjó með berum höndum, og kastað á land. Eg var kominn með aflann heim fyrir hádegi, og þá voru margar hendur á lofti að hjálpa til að gera að honum. Að vísu voru margar þeirra smáar, en margar hendur vinna létt verk. Og mikill var fögnuðurinn út af þessari guðsgjöf, og nú höfðum við nóg að borða þetta vor. En eg var lengi að ná mér eftir þessa ferð. Hún hafði verið örðugri en eg gerði mér grein fyrir meðan á henni stóð og eg var allur með strengjum og stingjum, en um það var ekki að kvarta. Þannig var lífsbaráttan á þeim árum. Maður varð að hjálpa sér sjálfur hvernig sem veltist. Þetta var erfitt líf, en heilbrigt líf. Þá voru ekki styrkirnir. Að vísu var til sveitarsjóður, en engum lif- andi manni datt í hug að leggja niður vinnu til þess að fá styrk úr honum. Daprar stundir Og þannig leið tíminn með skini og skúrum, höppum og erf- iðleikum. Ætíð hafði eg nóg að starfa og löngum meira en eg gæti leyst sómasamlega af hendi, því að á mig hlóðust alls konar aukastörf. Eg var skipaður fjár- kláðalæknir, sótthreinsunarmaður, deildarstjóri í Sláturfélagi Suður- lands, og svo voru oddvita- störfin, en þeim gegndi eg öll ár- in sem eg var í Álftaveri. Þau voru tímafrek og sum eigi skemmtileg, því mönnum fannst i

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.