Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.1997, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.1997, Blaðsíða 11
ÚR Vonarskarði. Ángur og mein fyrir auðarrein opt hafa skatnar þegið, Starkaðar bein und stórum stein um stundu hafa legið.“ Haustið 1898, nánar tiltekið 27. september lögðu þrír menn af stað í göngur frá Tjörnum, sem er innsti bær í Eyjafirði. Einn þeirra hét Kristinn Jónsson, 22 ára gamall vinnumaður þar á bæ. Mennirnir voru allir léttklæddir og nestislausir. Þegar upp á brúnirnar kom skildu leiðir. Skömmu síðar skall á niðdimm þoka. Tveir þeirra rötuðu aftur til síns heima, en Kristinn villtist. Nokkru síðar sama dag kom hann að á, sem hann hélt að væri ein af upp- takaám Jökulsár austari sem fellur til Skaga- fjarðar. Hann fylgdi ánni, en er þokunni létti þremur dögum síðar, sá hann að svo var ekki, því áin rann um landsvæði, sem hann hafði aldrei áður séð. Enda var það engin furða því þetta var Þjórsá. Næstu daga reikaði Kristinn hungraður, kaldur og hrakinn niður með ánni uns hann nær dauða en lífí af vosbúð lagðist fyrir í Búrfellsskógi, sem er austan undir Búrfelli. Var þá kominn þriðjudagur 4. októ- ber, áttundi dagur villunnar. En Kristinn var ekki feigur, því einmitt þennan dag var bóndi úr Gnúpverjahreppi að höggva skóg skammt frá þar sem hann lá. Varð bóndinn var við Kristin og bjargaði hon- um til byggða. Kristinn var lengi að ná sér eftir þessa hrakninga. Hann kól og varð að taka af honum allar tær á báðum fótum. Hann bjó við heilsuleysi eftir þetta, fékk tær- ingu og andaðist úr þeirri veiki 1921. í maí 1916 gekk 28 ára Bárðdælingur, Sturla Jónsson einn síns liðs frá Mýri í Bárðar- dal að Skriðufelli í Gnúpverjahreppi á þremur sólarhringum réttum. Ástæðan fyrir þessari dirfskuferð var sú, að hann átti heitkonu á Hæl í Gnúpverjahreppi og hugðust þau hefja búskap að Fljótshólum í Flóa þetta vor. Á þeim tíma voru samgöngur milli landshluta að vetrarlagi miklum annmörkum háðar. Því ákvað Sturla að tefla á tvær hættur og fara gangandi beinustu leið yfir Sprengisand. Stóð hann í þeirri trú, að snjór lægi yfir öllu hálend- inu og því unnt að flýta för á skíðum. Vel útbúinn að þeirra tíma hætti, þó tjaldlaus, lagði hann af stað frá Mýri í Bárðardal, ásamt fylgdarmanni, kl. 7.30 á miðvikudagsmorgni. Gisti fyrstu nóttina í snjóhúsi í svonefndum Klifberadrögum skammt sunnan við Kiðagil. (1. áfangi um 60 km.) Mun svefntíminn hafa verið rúmar 5 klst. Þar sneri fylgdarmaðurinn við en Sturla hélt ótrauður áfram. Þegar sunn- ar dró kom í ljós að ár voru auðar og jörð snjólítil en í þess stað aur, krapi og elgur. Þegar Sturlu varð þetta ljóst tók hann þann kost að hraða för sinni sem mest. Skildi hann skíðin eftir því þau komu að litlu haldi. Næstu nótt byggði hann sér snjóhús á Múlajökli og gat sofið þar í tæpa tvo tíma. (2. áfangi um 65 km.) Hélt þá ferðinni áfram og linnti ekki göngunni fyrr en á hlaðinu á Skriðufelli um kl. 8 á laugardagsmorgni, eftir þriggja sólar- hringa ferð. Hafði hann þá gengið án svefns eða hvíldar í einni lotu frá snjóhúsinu á Múla- jökli, eða um 110 km. Á þeirri leið eru marg- ar ár, sumar vatnsmiklar s.s. Miklilækur, Kisa og Dalsá. Árnar voru auðar, og þurfti Sturla að vaða þær allar. Komst hann þá oft í hann krappan. Hættast mun hann hafa verið kom- inn í Dalsá sem hann þurfti að vaða upp í buxnastreng og varð þá að hafa sig allan við. Þar missti hann hundinn sinn og þótti Sturlu það mikill missir. Sturla og kona hans, Sigríður Einarsdóttir frá Hæl, bjuggu síðan myndarbúi í Fljótshólum og er mikill ættbogi frá þeim kominn. Gengid á skióum yf ir Sprengisand Ekki er kunnugt um að aðrir hafl þreytt göngu yfír Sprengisand eftir ferð Sturlu Jóns- sonar, uns fjórir fullhugar úr Reykjavík, Reidar Sörensen, Áxel Grímsson, Tryggvi Einarsson frá Miðdal og L.H.Miiller, þreyttu þessa raun síðari hluta mars mánaðar 1925. Var L.H.Mull-. er foringi og aðalhvatamaður ferðarinnar. Um miðjan mars iögðu þeir af stað sjóleið- is til Akureyrar með allan útbúnað, sem var hinn vandaðasti. Höfðu þeir skíði, tvo sleða, tjald, vöðlur til að vaða ár og matværi til 18-20 daga. Þeir lögðu upp frá Tjörnum i Eyjafjarðardal, því ætlunin var að fara Vatna- hjallaveg suður á Sprengisand. Tryggvi Einarsson ritaði síðar á ævinni minningabók, sem heitir í veiðihug. Þar segir hann ítarlega frá þessari ferð. Skal nú gripið niður í bókinni á nokkrum stöðum. „Þann 19. mars var besta veður en nokk- urt frost. Fengum við nú hesta og tvo fylgdar- menn, sem voru þeir Gunnar á Tjörnum og Björn Axfjörð. Héldum við nú allir kátir og hressir af stað og héldum að svonefndri Há- karlatorfu. Nú var bundið á sleðana og áttu þrír að vera með hvorn sleða, því að fylgdar- mennirnir ætluðu að fylgja okkur upp á Vatna- hjallabrún. En við komumst ekki nema spöl- korn upp í hjallann með þessu móti. Tókum við þá það ráð að selflytja sleðana þar sem brattast var. Fóru tveir upp með 80 m línu og skorðuðu sig af og drógu af öllum kröft- um, tveir voru í aktygjunum og tveir ýttu á eftir. Gekk okkur nú vel því að enginn spar- aði kraftana. Selfluttum við sleðana svona þar til við komumst að Sankti Pétri, sem er varða þar á Vatnahjallabrúninni". Og ferðinni var haldið áfram. Næsta nótt var kaldsöm. „Undir Laugafelli tókum við náttstað. Var þá 23 stiga frost. Miiller ákvað þá, að við skyldum halda vaktir til að fyrirbyggja kal í andliti. Þegar búin var að tjalda í náttstað, var alltaf okkar fyrsta verk að hita vatn og gaf Muller okkur þá allsterkt viskítoddý, svo að ekki slægi að okkur. Eftir þá athöfn þarna undir Laugafelli drógum við um vaktir, og skyldi Axel vera fyrstur, svo ég, þá Múller og loks Sörensen. Þetta voru tveggja tíma vakir. Við áttum á klukkutíma fresti að fara út að gá á hitamælana, sem voru úti á skíða- sleða. Þegar Axel var búinn með sína vakt, vekur hann mig og segir frostið óbreytt. Skömmu áður en minni vakt lauk, var frostið komið niður í 8 stig. Vek ég svo Múller og segi honum frostgráðuna. Muller hafði sofið vært og var nokkra stund að átta sig, en seg- ir: „Tryggvi, hvar er viskíflaskan?" Datt honum víst í hug, að ég hefði lægt frostið með góðum snafs. En viskíið var á sínum stað. Múller ákvað þá að leggja niður vaktir, og við fórum að sofa. Um morguninn var frostið komið í 11 stig. Þá vöknuðu allir frískir og heitir". Daginn eftir sóttist ferðin vel, Vindur blés af norðri og blásandi byr í bakið. Segl voru sett á sleðana og fóru menn greitt um tíma. En svo fór gamanið að kárna: „Klukkan 7 um kvöldið hafði veðrið geng- ið niður og var orðið sæmilegt. Tjölduðum við þá. Þegar inn í tjaldið var komið, settust allir við verk. Múller fór að elda mat, Sörensen að smyija brauð. Axel að þrífa föt og ég að sauma. Háttuðum við svo í annað sinn undir Hofsjökli. Næsta morgun var veður ískyggi- legt og þoka, enda skall á moldbylur, en lygndi öðru hveiju. í hléunum hlóðum við tvöfaldan vegg úr snjóhnausum allt í kring um tjaldið. Undir kvöldið lygndi nokkuð, þá ætluðum við að nota tækifærið og elda mat. Þegar búið var að hita vatn, skall á svo snörp vindhviða, að prímusinn með heita vatninu valt um koll. En svo vel tókst til að enginn okkar brennd- ist. Skipaði Múller svo fyrir að við tækjum allt dótið okkar saman, settum mat og allt það nauðsynlegasta í fjóra sérsmíðaða kassa fyrir þessa ferð. Annað dót settum við í stórt skíðasegl, þannig frá gengið að við hefðum getað skriðið þar undir, ef tjaldið hefði rifnað ofan af okkur. Settumst við svo á kassana hver í sitt horn og héldum við tjaldið í verstu hrinunum. Nokkru seinna sendi Múller mig út til að gá að tjaldhælunum. Að sjálfsögðu var ég í línu. Klóraði ég mig áfram og komst að því að allt var í lagi með hælana. Þeir voru úr rafmagnsrörum, krókbeygðir og beinfrusu við snjóinn. Kom sér nú vel, að inn- gangur í tjaldið var poki, á annan metra á breidd og hringsaumaður við tjaldið og bund- ið svo fyrir með bandi. Sátum við svo þarna hver í sínu horni og veittum viðnám í verstu hrinunum.... Klukkan 9 um morguninn fór að draga úr veðurofsanum. Þá vorum við fljót- ir úr pokunum og hituðum okkur súkkulaði til hátíðabrigða. Vindur hafði gengið til aust- urs og var nú jafnari, en mjög hvasst var þó. Við hituðum upp buff og elduðum hafrasúpu. Við höfðum hengt upp sokka til þerris yfir prímusinn. Þegar að var gáð, hafði einn sokk- urinn verið um stund í pottinum. Hef ég ekki séð fallegri hafrasúpu. Seinna fengum við svo vettlingasúpu, og var hún mun verri. Að sjálf- sögðu borðuðum við þessar súpur, enda er það viss glæpur að fleygja mat, ekki hvað síst við slíkar aðstæður". Veðrið fór nú batnandi og klukkan tvö var orðið ferðafært. Síðari hluti ferðarinnar gekk nokkurn veginn að óskum og slysalaust. Um hádegisbilið þann 27. mars gengu þeir í hlað á bænum Laxárdal í Gnúpveijahreppi og fengu frábærar móttökur. „Gistum við að Birtingaholti um kvöldið, og voru fjörugar samræður. Gerði Ágúst bóndi sig ekki ánægðan með minna en alla ferða- sögu okkar um Sprengisand. Eftir konungleg- ar veitingar háttuðum við ofan í rúm í fyrsta skipti í langan tíma og steinsváfum til morg- uns. Eftir morgungóðgerðir kvöddum við hús- bændur að Birtingaholti og gengum að Húsat- óftum á Skeiðum. Þar fengum við bíl að Kömb- um. Gengum svo Hellisheiði, sem var á kafi í snjó og að Lögbergi. Þaðan fengum við bíl til Reykjavíkur. Höfðum við þá farið 204 km á skíðum, 80 km fótgangandi og 50 km á bíl.“. Niðurlag í næstu Lesbók. Höfundur er kennari AXEL ÞÓR KOLBEINSSON ÞÖGN Síðan heimurinn fórst, hef ég verið, verið að leita að þér. Á þeim degi, er allt varð svart, stóðst þú mér við hlið, og varðst með mér vitni, að sekúndunum á eftir heimsendi, en þú ert ekki lengur hér, ekki hjá mér. Hversvegna þurftir þú að fara, gast þú ekki verið hjá mér? Hvert þurftir þú að fara, er þetta ekki ágætt hér, þar sem allt er svart, og ekkert er, nema ég, og þögnin. ÉG VEIT Ég lít út um gluggann, horfi á fólkið sem ekkert veit. - Ég veit. Það hugsar aðeins um sinn hag, en gleymir deginum í dag, og því sem koma skal. - Eg veit. Dagurinn í dag er viðvörun, Morgundagurinn sannar það, en enginn hlustar. Á morgun verður það of seint. - Ég veit. En hver ætti svosem að hlusta á mig? Glugginn er á geðdeild. - Eg veit, ég er þar. Höfundur vinnur í Kaupgarói GRÍMUR MARINÓ STEINDÓRSSON „LISTA- VERK“ Listin er afstæð Stórt eða smátt er ekki málið heldur tilfinningin. Gleðin yfir að skapa Gleðin yfir að gefa Gleðin og gjöfin er allt sem skiptir máli Það stóra er oft það smæsta það smáa stærst og kafað dýpst sé leitað í djúpi hjartans sést hvort list er list eða aðeins hismi. Höfundur er myndhöggvari LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 26. JÚLÍ1997 1 1 A

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.