Lesbók Morgunblaðsins - 27.08.1983, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 27.08.1983, Blaðsíða 7
Fyrir vígslu Skálholtskirkju fór höfundur kvœðisins í Skálholt með Herði Bjarnasyni, arkitekt. Upp úr því orti hann frumgerð Skálholtskvœðisins, sem flutt var í veizlu þáverandi kirkjumálaráðherra Bjarna Benediktssonar og Sig- ríðar Björnsdóttur, að ósk þeirra. Kvæðið var síðan birt í Lesbók. Nú hefur höfundur breytt kvæðinu, sleppt sumu en ort annað upp, og var það svo breytt flutt í Skálholtskirkju að tilhlutan biskups, herra Péturs Sigurgeirs- sonar, á tuttugu ára afmœlishátíð kirkjunnar. Þessi endanlega gerð kvœðisins er birt hér, eins og höfundur hefur gengið frá henni og hún var flutt í Skálholts- kirkju 24. júlí sl. Matthías Johannessen í Skálholtskirkju i Úthafsblá við bjartar nætur blundar jörð í fangi þínu. Hafið laugar landsins fætur. Lifnar sól í brjósti mínu. Tíminn grær sem tún úr vori, tindótt fjall með djúpar rætur. Ber mér unaðsilm úr spori altarið í brjósti þínu. Lithverf orð í ljóssins gluggum leita skjóls í auga mínu. Aftanröðull roðar fjöllin rökkurblá af þögn og skuggum. Geislar fylla vori völlinn. Vaknar dagur, gengur fetið inn í landsins ljósu grímu, logar nótt við strengblá fjöllin. Fyrri tíða harmahretið hverfur fyrir morgunskímu. II Eg hef setið undir skuggum altaris á hljóðu kveldi, laugað augu í ljóssins gluggum, lifna þau af fornum eldi enn við glóðir geymdra sagna. Gamlir tindar sveipast feldi langra skýja, lóur þagna ljósan eftir sumardaginn, þannig mun ég þögull bíða þín er myrkrið hylur æginn, heita á þínar hurðir, fela himni þínum nótt og kvíða. Leggst hún yfir land sem héla langmyrkvuð á tind og heiðar nóttin hinzta, kemur kaldur kyrkingur í holt og mela. Hestur vor til heljar skeiðar, hvítfyssandi öldufaldur. Leita ég þá lífs í þínum ljúfa faðmi, kirkjan góða, fel þér veikt af vörum mínum vænglaust orð í stuðlum ljóða. Landið veitir vini sínum verðugt skjól og moldin hljóða. III Sé ég hendur manna mynda meginþráð að himnastóli, lýsa milli ljósra tinda langeldar frá Öskuhóli, liðnar aldir líf sitt binda lofi og dýrð í herrans skjóli. Margt var áður orð í meinum undir grænum blómavanga eins ogflögri fugl á steinum friðlaus þar sem kjörrin anga eða lifni lauf á greinum lífsins eftir vegferð stranga. Stígur bæn til himinhæða heit og sterk sem brenni eldar þegar sár und þyrnum blæða, þínar vonir ofurseldar: þú munt kirkjan góða græða gömul mein er daginn kveldar. IV Enn skín sól við eggjar fjalla eins og bros við hraun og steina, lífsins sól og svarið eina, sólarljós of veröld alla eins og fugl á fingrum greina flögrar það við gróna veggi. Fyrrum átti eg fjöll og leggi feigðarlaust að mínum vinum núna guð á grýttum slóðum, guðs míns fylgd í éli og hreggi eins og kuli af háum hlynum hvíslar hann í sólarljóðum. V Þú ert kirkja máttug móðir mildileg og hrein á vanga, þú ert blóm sem blíðust anga, blessun yfir lönd og þjóðir, þú ert styrkust hönd af hæðum himnaguðs og lífsins brúður. Hlusta land er hljómar lúður helgra tíða í sögn og kvæðum; hlusta þegar kirkjan kallar kliðmjúkt eins og fugl á engi, hver á fegri fiðlustrengi fölum þegar degi hallar? þá er gott að heyra hljóma helgra orða vers og bænir þegar dauðans dimma rænir dagsins sól og fjallablóma; hlusta enn á horfnra alda hljóðan nið frá Skálholtsstóli, gnæfir hún á grænum hóli göfug móðir landsins kalda. Móðir græð þú mein og kvíða minnar þjóðar á villudögum, lif í fólksins ljóði og sögum lifandi orð og sólin blíða, glæsileg og rauðust rósa regn á þurrum akurlöndum, melgresi á svörtum söndum, sólarbirta á meðal ljósa, þú ert kirkja mildust móðir mun ég þína vegi ganga seinna er ég legg í langa lestarferð á huldar slóðir. Júlí ’63 — nóv. ’82, Ljósm. Ólafur K. Magnússon.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.