Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.1976, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.1976, Blaðsíða 5
Grillo mundi þetta atvik vel. ,,Ég lamdi hann í hausinn með svip- unni minni. Það er ein af mínum kærustu minningum." En allir vita, að Pava'rotti er aðeins leikur í hug, þegar svona ber undir. Hann er vel liðinn af starfsbræðrum sínum. Annars verða fáir til að veita honum verulega keppni. Fáar sópran- söngkonur þora að keppa við hann í háum tónum. ,,Reyni þær það er mér að mæta,“ segir Pavarotti. ,,En sópransöngkonur eru annars flestar miklir vinir mínir. Þær beztu að minnsta kosti. Því betri manneskja, sem söngkona er, þeim mun betur syngur hún." Pavarotti er maður siðavandur. „Miklir söngvarar hljóta jafnframt að vera góðir menn,“ segir hann. „Tónlistin er ekki einhlít. Stundum kemur það fyrir, að vondur maður syngur frábærlega vel. En það festist ekki i minni.“ Þaó er þó til einskis að vera góður maður ef röddina vantar. „Brauð verður ekki bakað, ef hveitið vantar," segir Pavarotti og er sú samlíking ekki verri en hver önnur. Og Pavarotti getur trútt um talað. Hann varð fyrstur núlif- andi tenóra til að syngja öll níu háu C-in í „Dóttur herdeildarinn- ar“ eftir Donizetti. „Ég var svo skelkaður í fyrsta sinn,“ segir hann nú, „að ég vissi ekki, hvaða vöðva ég ætti helzt að beita við sönginn." En þótt Pavarotti séu gefnir þessir háu tónar, sem eru mörgum öfundarefni, vill hann heldur draga úr dýrkun manna á þeim. „Að syngja hæstu tóna er eins og ganga á línu. Áheyrendur fylgjast spenntir með og velta því fyrir sér, hvort tenórinn muni detta eða komast klakklaust alla leið. Tenórinn veltir því einnig mjög fyrir sér. Mistakist honum eitt hátt C fer allur ljóminn af kvöldinu. Þetta er fáránlegt. Og enn fáránlegra, þegar hugsað er til þess, að Caruso gat ekki sungið C-ið. Ekki heldur Tito Schipa. Schipa hafói ekki einu sinni mikla rödd. Samt var hann mikill söngvari." Röddin er söngvurum náttúr- lega þýðingarmest. En þar næst vill Pavarotti telja skapgerðina. „Sá, sem ekki nær sambandi við áheyrendur sína ætti ekki að syngja á sviði heldur í baðinu heima hjá sér.“ Pavarotti þarf litt um þetta að hugsa. Hann nær sambandi við áheyrendur sina svo, að ekki verður um villzt. Hljómleikaferðir hans eru sifelld- ir fagnaðarfundir. Og hann er á sifelldum ferðum. „Ég vil ve'ða frægur um allar jarðir," segir hann. „Aheyrendur komast ekki til mín; ég kem því til þeirra." Og alls staðar þar sem hann kemur, fyllast tónleikasalir óðara og verð- ur að raða stólum í ganga og alla leið upp að sviði. Áheyrendur Pavarottis dá hann, og þeir fá oftast nóg fyrir snúð sinn. Hann er í essinu sinu, þegar hann syngur einsöng. Þá þarf hann ekki að reyna að leika aðra menn; hann getur leikið sjálfan sig og í því hlutverki bregzt hann ekki. Hann reiðir allt fram, sem hann á til og áheyrend- ur taka við þvi fagnandi. Pavarotti þarfnast að sinu leyti fagnaðarlátanna, rétt eins og mat- ar og drykkjar. „Ég get alls ekki án fagnaðarláta verið,“ segir hann. „Þau eru mér jafnnauðsyn- leg og loftið, sem ég anda að mér.“ Og þegar söngskemmtun lýkur verður hann að gefa áheyr- endum eiginhandarrit svo skiptir hundruðum. Hann hefur sízt neitt á móti því: „Ég sé aldrei eftir timanum sem fer i eiginhandar- áritanir." ALLTAF EINHVER ANNARBETRI Pavarotti er af óbrotnu fólki kominn og fellur bezt við það. Hann á enn lögheimili i fæðingar- bæ sinum, Modena á ítalíu, og dvelur þar, þegar hann getur. Mo- dena er á Norður-Italíu, þar búa nú 170 þúsund manns. í Modena eru votviðri mikið og moskitóflug- ur. Þar eru smíðaðir bílarnir Ferrari og Maserati, þar er brugg- að Lambruscovin og þar eru fæddir tveir frægir óperusöngvar- ar. Það eru Pavarotti og sópran- söngkonan Mirella Freni. Þau eru æskuvinir. Mæður þeirra unnu báðar í tóbaksverksmiðju. Þær skildu börnin eftir hjá sömu fóstr- unni, er þær fóru til vinnu, „og nú má sjá, hvort fékk meiri mjólk“, eins og Mirrella Freni komst að orði. Faðir Pavarottis var bakari. Hann þótti einn bezti tenórinn í Modena og syngur enn í óperu- kórnum þar. „Ég man eftir mér í stríðinu,“ segir Pavarotti. „Bandaríkjamenn vörpuðu niður sprengjum nokkrum sinnum í hverri viku og stundum sáum við flugvélar skotnar niður. Það var eins og í kvikmynd. Á kvöldin var stanzlausskothríð. Fasistar skutu, skæruliðar skutu og Þjóðverjar skutu.“ Þegar Pavarotti komst á legg lærði hann til kennara og fór aó kenna i barnaskóla. Nítján ára gamall fékk hann átta dollara (tæpar 1400 ísl. kr.) í laun á mán- uði. Jafnframt kennslunni söng hann ásamt föður sínum í karla- kórnum i Modena. Þegar Pavarotti var á tuttugasta aldurs- ári vildi svo til, að karlakórnum bauðst að fara til Llangollen í Wales og taka þátt í fjölþjóðlegri söngkeppni. Svo fór, sem enginn hefði trúað fyrir fram, að Mo- denakórinn vann. Pavarotti kveðst varla trúa því enn. „Það var mesta fagnaðarstund sem ég hef lifað,“ segir hann. „Það fékk mér enn meiri gleði en þegar ég söng fyrst i Scalaóperunni eða Metrópólítan, og voru það þó miklir viðburðir." Þessi óvænti sigur varð til þess, að Pavarotti hóf söngnám. Fór hann í söngskóla i Mantúa; það er tæpa 70 km frá Modena og tveggja tíma ferð þangað i eim- lest. „Það var einu sinni söngskóli í Modena," segir Pavarotti. „En kennararnir spilltu röddum allra nemenda, svo að skólinn var lagð- ur niður.“ Árið 1961 vann Pavarotti í söngkeppni heima hjá sér og fékk að launum að syngja í „La Bohéme". „Ég söng ágæt- lega,“ segir hann. „En faðir minn sagði samt: „Lauri-Volpi var betri.“ Árið 1963 kom Pavarotti fyrst fram í Covent Garden. Þá sagði faðir hans: „Tagliavini var betri." Tveimur árum síðar söng Pavarotti í fyrsta sinni í La Scala- óperunni. „Gigli var betri,“ sagði faðir hans þá. Þegar Pavarotti söng svo í fyrsta sinn í Metró- pólítanóperunni, árið 1968, sendi hann föður sinum svohljóðandi skeyti: „Caruso var betri." Pavarotti er mikils metinn í Mo- dena. Hann er frægastur Modena- búa ásamt Mariu frá Modena, sem giftist hertoganum af York, er síðar varð James II Englandskon- ungur. Luciano Pavarotti kvænt- ist aftur á móti Adua Veroni og varð konungur hinna háu C-a. Luciano og Adua eiga nú þrjár. dætur. Þær heita Lorenza, Christina og Giuliana og eru níu, ellefu og þrettán ára gamlar. Adua, kona Lucianos, kvartar einkum um það, að hann sé löng- um að heiman. „Stundum óska ég þess, að ég hefði gifzt skrifstofu- manni," segir hún. Pavarotti er ákaflega hændur að konu sinni og dætrum. Þegar telpurnar eiga skólaleyfi sendir hann eftir þeim og konunni og stundum langar leiðir, til Japans eða Bandaríkjanna. En hann er varla samvistum við þær nema svo sem tvo mánuði á ári. Það er af illri nauðsyn. „Flestir menn hætta störfum um sextugt," segir Pavarotti. „Tenórar græða pen- inga í tuttugu til tuttugu og fimm ár. Þeir verða að halda á spöðun- um þann skamma tíma, sem þeim er gefinn. Og nú er minn tími.“ Á Spáni fá eftirsóttir tenórar svo sem átta þúsund dollara fyrir hverja söngskemmtun um þessar mundir (það eru u.þ.b. 1370 þús. ísl. kr.) „Ég er líka að verða mjög góður i spænsku," segir Pavarotti. Hann verður líka æ efnaðri. Féð leggur hann mest í landareignir. Hann á meðal annars vinbú fyrir utan Modena. Þar eru framleidd- ar tíu þúsund flöskur af Lam- brusco á ári. Þess konar búskapur er Pavarotti að skapi. Þótt Pavarotti hafi mikil um- svif og viða um heim, er hann alltaf hálfgerður sveitamaður. Hann treystir ekki fyllilega neinu, sem er utan Modena. Og hann er kænn og hygginn, eins og algengt er um dreifbýlismenn. Hann hefur jafnan farið hyggi- lega með sitt. Hann hefur farið með röddina eins og p*»ningana — eytt arðinum, en látið höfuðstól- inn óskertan. „Ég tek aldrei mikla áhættu," segir hann. „Ég bý mig vel undir allt, sem ég tek mér fyrir hendur. Guð sér um það, sem þá vantar á.“ Sé þetta rétt hefur guð jafnan reynzt Pavarotti vel. Pavarotti vex fiskur um hrygg. er árin líða og honum aukast burðir. Hann veldur æ erfiðari hlutverkum. I haust mun hann syngja hlutverk Cavaradossis í „Tosca“ í fyrsta sinn. Og þar næst kemur að Calaf í „Turandot", Ramades í „Aidu“, Canio í „Pagliacci" og Don José i „Car- men“. En til eru slík hlutverk, að ofviða séu Pavarotti. Othello er til dæmis ofviða rödd hans. Aftur á móti er Pavarotti ofvaxinn hlut- verki Alfredos í „La Traviata". „Ég er of feitur til þess,“ segir hann. „Annars er mér sama um Alfredo. Hann syngur allt kvöld- ið, en kemur inn á eftir sópranin- um og baritóninum. Á eftir bari- tóninum! Það er ekki merkilegur tenór! En mergurinn málsins er sá, að í svona hlutverkum verða að vera rómantiskir menn. Og ég er ekkert rómantískur. Ég er bara feitur!“ Pavarotti á beztu ár sín eftir. Hann er heiðarlegur maður og einlægur listamaður. Josep Con- rad komst eitt sinn svo að orði, að listamenn höfðuðu til barnssálar- innar i öðrum mönnum. En það er barnssálin í Pavarotti, sem höfðar til listamannsins í öðrum — og jafnvel föður hans. Þegar gamli maðurinn kom í fyrsta sinn til Bandarikjanna og hevrði son sinn syngja í „Puritani" varð honum loks að orði: „Þetta hefði enginn gert betur.“ Alexander Solshenitsyn LJÖÐKORN Hve létt er mér með þér að lifa, Drottinn. Á þig að trúa, hve létt mér er. Þegar ég i efa mínum veit ekki neitt framar, og skynsemi mín gefst upp, þegar gleggstu menn sjá ekki lengra en að kvöldi dags, og vita ekkert hvað til bragðs skal taka að morgni, þá sendir þú mér óbifanlega vissu þess, að þúr varir og gæti þess, að ekki sé öllum leiðum lokað til góðs. Séra Ásgeir Ingibergsson sneri úr þýzku. Gréta Sigfúsdöttir LÍF0G DAUÐI í hjúpi sólar hverfast pláneturnar á afmörkuðum sporbaugum v kringum hinn risavaxna kjarnakljúf sem breytir billjónum af vetnisögnum I helíum og slöngvar logandi gasfleygum út í svartamyrkur geimsins. Og jörðin tekur þátt í hringdansinum eins og þeytispjald á höllum kili og hagnýtir sér orku sólarinnar með þvi að dreifa geislum hennar í reglubundnum áföngum um yfirborð sitt Þeir skina á glæstar hallir þjóðhöfðingjanna og hreysi tötrum klæddra þegnanna þeir skina á vígtæki á sjó og landi og herþotur sem blika í lofti og menn sem sitja um lif hver annars eins og villidýr i frumskógi Þeir skína á kaupsýslumennina sem núa saman höndum af ánægju yfir hækkandi verðbréfum vegna aukinnar hergagnaframleiðslu og þeir skína á likkestina sem rotna á vigvöllunum Þeir skína á mergsoginn jarðveg og menguð höf þeir skína á feysknar stoðir þjóðfélaganna fangelsi aftökupalla og musteri þar sem rangtúlkuð siðfræði leggur blessun sína yfir misrétti og valdbeitingu Og sólin eyðir orku sinni á réttsýna og rangláta í sömu mund og blómin opna krónur sinar og fuglarnir syngja komandi degi lof er verið að lífláta mann sem risið hefurgegn valdhöfunum þvi frelsið var honum fyrir öllu ©

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.