Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 2
H ANDRITIN heim“. Þannig hljóðaði fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins síðasta vetrardag árið 1971. Þann dag skiluðu Danir íslenskum þjóð- argersemum til föðurlandsins eftir aldalanga vörslu í Danmörku. Þetta voru Konungsbók eddu- kvæða (Codex Regius) og Flateyjarbók. Áratuga- löngu og erfiðu handritamáli milli Dana og Ís- lendinga var lokið. Hinn 1. apríl 1971 var handritasáttmáli þjóðanna tveggja fullgiltur í Kristjánsborgarhöll af menntamálaráðherrum þjóðanna, þeim dr. Gylfa Þ. Gíslasyni og Helge Larsen í „vinsamlegu andrúmslofti“ samkvæmt frá- sögn blaðamanns Morgunblaðsins á vettvangi. Handritadagurinn sjálfur rann upp þrem vikum síðar, ískaldur og ógleymanlegur öllum þeim sem biðu í nepjunni við Reykjavíkurhöfn eft- ir komu varðskipsins Vædderen með dýrgripina innanborðs. „Fögnuður Íslendinga yfir endurheimt handritanna er jafndjúpur og sannur og hann er vegna þess, að okkur finnst hún styrkja okkur í viðleitni okkar til þess að vera Íslendingar, til þess að varðveita allt íslenzkt,“ sagði Gylfi Þ. Gíslason í ræðu sinni við afhendingarathöfnina í Háskólabíói síðar um daginn. Kvað hann Dani hafa drýgt dáð með afhendingu dýrgripanna og komið fram við litla frændþjóð með þeim hætti að hún myndi aldrei gleyma því. „Þið hafið sýnt þjóðum heims fordæmi, sem veraldarsagan mun varðveita. Ég vona að hér muni það sannast, að hið bezta sem mað- ur gerir sjálfum sér, sé að gera öðrum gott,“ sagði Gylfi. Danskur starfsbróðir hans, Helge Larsen, sagði í ræðu sinni að rúm- lega 300 ára útlegð Konungsbókar Sæmundar Eddu og Flateyjarbókar væri nú lokið og þær væru afhentar til Íslands „til þess að vera varð- veittar þar sem þær urðu til. Íslendingar fá aftur handritin, en Íslend- ingar verða ekki einir um menningarverðmæti þeirra. Íslendingar unnu svo stórkostlegt menningarafrek fyrir mörgum öldum, að til urðu andleg verðmæti, sem eru orðin sameiginleg eign Norðurlandabúa og alls mann- kynsins,“ sagði Larsen. Sigurður Bjarnason fyrrverandi sendiherra í Kaupmannahöfn hafði gegnt sendiherraembætti sínu í rúmlega eitt ár þegar handritamálinu lauk og sagði í samtali við Morgunblaðið á handritadaginn, að réttlæt- istilfinning og víðsýni Dana hefði ráðið úrslitum í málinu. Spurður um þær tilfinningar sem hann bar í brjósti þegar Vædderen lagði úr höfn áleiðis til Íslands með handritin innanborðs, sagði hann: „Þakklæti og virðing fyrir þeirri staðreynd, að sagan endurtekur sig. Árið 1656 kom Flateyjarbók til Kaupmannahafnar sem gjöf frá Brynjólfi biskupi Sveins- syni til Friðriks III. konungs Danmerkur og Íslands. Árið 1662 fluttist Sæmundar Edda hingað af sömu ástæðum. Á fjórða hundrað ár hafa þessar gömlu skinnbækur, sem geyma sál og sögu Íslands, raunar allra Norðurlanda, haft viðdvöl hér. Nú eru þær á heimleið,“ sagði Sigurður. Einn þeirra Íslendinga sem komu hvað mest við sögu í handritamál- inu, dr. Sigurður Nordal, prófessor og fyrrum sendiherra í Kaupmanna- höfn, sagði í samtali við Morgunblaðið sama dag, að „við nútíðarmenn eigum hvorki að sitja heima, né jóðla of mikið á hinum gömlu skinn- bókum. Því aðeins getum við tekið við þeim kinnroðalaust, að við lítum ekki fyrst og fremst á þær sem forngripi, heldur sem eggjun fyrir fram- tíðina, – brýningu til þess að skapa ný menningarverðmæti á hinum eldra grunni, hvort sem er frá 12., 17. eða 19. öld.“ Lausn handritamálsins markaði söguleg tímamót hjá Árnasafni í Kaupmannahöfn með því að handritin voru fjarlægð þaðan eftir alda- langa varðveislu og flutt til Íslands. Jón Helgason prófessor við Kaup- mannahafnarháskóla var forstöðumaður Árnasafns í Kaupmannahöfn á þessum tíma og lýsti tímamótunum á tilfinningaþrunginn hátt í samtali við Morgunblaðið á handritadaginn. „Ég er nú búinn að vera nágranni Flateyjarbókar og Codex Regius um margra ára skeið og í gær fór ég og kvaddi þau, strauk þeim ofurlétt um vangann. Ég býst við, að ég komist meira við en þau. Auðvitað verð ég að segja sem Íslendingur, að mála- lokin gleðja mig, en sú gleði er ekki óblandin. Ég hef alið aldur minn að mestu leyti á bókasöfnum frá því ég var 17 ára unglingur, eða í 55 ár og lengst af í Kaupmannahöfn. Mér þykir því eðlilega leiðinlegt, þegar gömlum söfnum er tvístrað. Ég er líka búinn að vera hér svo lengi, að ég skil vel, að ýmsum dönskum mönnum þyki dapurlegt að sjá eftir þessum hlutum. Eftir því, sem ég bezt veit, er afhending handritanna einsdæmi í veraldarsögunni. Ég tel að Danir hafi sýnt fádæma góðvild, sem varla muni hægt að finna dæmi til annars staðar,“ sagði hann. Sorg í Konungsbókhlöðunni Mikla athygli vakti þegar flaggað var í hálfa stöng í Konungsbókhlöð- unni í Kaupmannahöfn laugardaginn 17. apríl, er Vædderen lagði úr höfn með handritin innanborðs. Ríkisbókavörður Dana sagðist bera ábyrgð á athæfinu, þótt sér hefði verið fullljóst að hann hefði með því brotið opinberar fánareglur. Í frétt Morgunblaðsins frá 20. apríl 1971 sagði að Dannebrog, hinn klofna og opinbera fána ríkisstjórnarinnar, mætti aðeins nota ef fyrir lægi sameiginleg ákvörðun ríkisstofnana vegna sérstakra helgidaga eða dauðsfalla. Palle Birkelund ríkisbókavörður sagði við fréttamenn að aðeins væri flaggað í hálfa stöng vegna sorg- aratburða, hvort sem um ræddi missi starfsmanna eða verðmætra gripa úr bókasafninu. „Ég tel að Flateyjarbók og Sæmundar Edda standi utan við samþykktina um afhendingu handritanna,“ sagði hann. „Þær eru ekki íslenzkur menningararfur. – Þessi handrit fjalla um sænska, norska og samnorræna sögu.“ Mæltist fánanotkunin illa fyrir og vakti reiði í Danmörku. Betri sýningaraðstaða í Þjóðmenningarhúsi Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, sem geymir í hirslum sínum tæplega tvö þúsund handrit og hefur undanfarin 30 ár haft yfir takmark- aðri sýningaraðstöðu að ráða, hefur nú fengið mun betri aðstöðu í Þjóð- menningarhúsi. Tekist hafa samningar um sýningaraðstöðu til ársins 2007 með mögulega framlengingu í huga. Á sýningunni „Handritin“ eru 15 handrit, en til stendur að skipta á nokkrum þeirra næstu árin, svo í heild verða þeir sýningargripir, sem koma fyrir augu almennings, talsvert fleiri. Höfundar sýningarinnar eru Stærsta sýning á íslenskum miðaldahandritum sem sett hefur verið upp hérlendis, hefst í dag, laugardag, í Þjóðmenningarhúsi. Þar verða helstu handrit íslenskra fornbókmennta til sýnis næstu árin á sýningunni „Handritin“. Þar gefur að líta helstu gersemar íslenskra handrita, m.a. sjálfa Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók. Handritadagurinn 21. apríl 1971. Fjöldi fólks beið í kuldanum eftir varðskipinu Vædderen á hafnarbakkanum. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Ómetanlegir dýrgripir. Tvö stór bindi Flateyjarbókar og Konungsbók eddukvæða. Þjóðargersemar 2 ∼ Lesbók Handritasýning 2002 Morgunblaðið

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.