Lesbók Morgunblaðsins - 28.05.1983, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 28.05.1983, Blaðsíða 4
Smásaga eftir Hafliða Vilhelmsson Þegar ég vaknaði var svefnpok- inn hans Knúts tómur. Honum líkt að fara á fætur löngu á undan mér. Ég þurfti ekki að undrast það. Knútur var gæddur þeim eig- inleika að geta sofnað um leið og hann lagði höfuðið á koddann, eða í þessu tilviki, samanvöðluð fötin sín. Ég á hins vegar afar bágt með svefn og stundum sofna ég alls ekki. Þetta heitir að vera svefn- laus, eða þjást af svefnleysi. Heilsufræðin telur svefnleysi vera af hinu illa. En mér er alveg sama. Á meðan Knútur svaf og snörlaði í svefni eða muldraði einhver óskiljanleg orð, lá ég á bakinu og reykti Life-sígarettur í gríð og erg. Hlustaði á gælur vindsins við laufin á trjánum og stytti mér stundir við að telja stjörnuhröpin á himninum. Þetta er einkennilegt. Heima hef ég aldrei orðið vitni að stjörnuhrapi, og ég man að þegar ég var barn, var ég því feginn. Amma hafði talið okkur börnun- um trú um að þegar stjarna missti takið á festingunni og pompaði til jarðar, væri eitt lítið saklaust barn að gefa upp öndina. Og það er ekkert spennandi að deyja, skildist manni þegar á unga aldri. Að minnsta kosti mátti aldrei tala hátt um það þegar einhver dó, eins og ró þeirra dauðu verði rask- að! Ég reykti næstum því hálfan pakka áður en ég sveif í svefninn eða öfugt. Og víst hlýtur barna- dauðinn að vera mikill í Malawi ef hver stjarna sem hrapar er lítið barn að deyja. Ég taldi þrjátíu blossa á svörtum næturhimninum, rauð ljós sem kviknuðu, skutust eins og eldibrandur milli stjarn- anna og dóu síðan út, eins og neyðarblys í dimmri þoku. Ég reis upp við dogg og teygði aðeins úr mér. Allt var eins og í gær. Sólin kom vel á veg uppjóð- rétta braut sína, þunglamalegar öldurnar á vatninu hvítfextust luntalega í flæðarmálinu. Rétt framundan kúrði Grand Beach Hotel og beið eftir ríkum gestum frá Suður-Afríku sem komu þang- að á hverjum degi, flýjandi amstr- ið heima til að njóta friðsællar helgi við þriðja stærsta vatn Afríku. Að baki mér slógust fátækleg fiskimannatjöldin í vindinum. Eintrjáningarnir komnir á þurrt og veiðimennirnir að gera að afl- anum sínum. Börnin að háværum leik í námunda við tjöldin og kon- urnar áttu í baksi við eldana. Ég svipaðist um eftir Knúti en kom hvergi auga á hann. Hann var ekki einu sinni niðri við vatnið að baða sig. Ég smeygði mér í föt- in og dró á mig skóna en eftir að hafa setið og beðið í smástund í þeirri von að Knútur birtist nú, ákvað ég að mér væri orðið of heitt til að bíða lengur. Best að fara á hótelið og kæla sig niður með einum bjór. Það hlyti að vera óhætt að skilja hafurtaskið eftir, ekki voru fiskimennirnir þjófóttir. Við Knútur höfðum legið þarna í viku og ekki orðið varir við að neitt hyrfi frá okkur. Ég lullaði af stað yfir heitan sandinn, fékk glýju í augun af glampandi hvítu vatninu. Klofaði yfir girðinguna inn á hótellóðina. Litlu seinna var ég kominn á bar- inn. Steve stóð fyrir innan borðið og var að þurrka glös, eins og alltaf. Hann fagnaði mér vel, brosti út að eyrum, lýsti því yfir að það væri góður morgunn og spurði síð- an hvers ég óskaði. Einn Carlsberg, takk fyrir. Steve kom með glas og einn elefant. Ég reyndi að treina ölið en horfði von bráðar í tómt glas. Best ég fái annan til, hvíslaði ég að Steve. Þegar sá bjór var búinn, þuklaði ég smápeningana, tambala heita þeir, og komst að því eftir smá umhugsun að bjórinn væri ekki svo dýr. Ekki miðað við hvað hann myndi kosta heima á íslandi. Auk þess, þá var Knútur hvergi nálæg- ur. Ég pantaði mér einn í viðbót. Það var auðfengið. Verst var að ég hafði gleymt Life-sígarettunum í svefnpokanum. Ég var að hugleiða hvort ég ætti að splæsa í einn pakka handa mér því það er svo gott að reykja með bjór, en þá stöðvaði Knútur fyrirætlan mína. Þarna ertu þá, heyrði ég sagt fyrir aftan mig. Ég hefði svo sem mátt vita það. Ég sneri mér við. Knútur stóð gleiðfættur í dyrunum á slitnu sandölunum sínum og í gallabux- unum sem hann hafði breytt í stuttbuxur með því að klippa skálmarnar af. Svart hárið féll ofan á sólbrúnt ennið og í brúnum augunum örlaði á hneykslun. Knúti var ekkert gefið um að pen- ingarnir okkar væru notaðir í óþarfa. Enda áttum við ekki of mikið af peningum og lifðum afar spart. Áður en við héldum upp frá Salisbury, höfðum við fastsett okkur að nota enga peninga í far- artæki né kaupa okkur gistingu. Þetta höfðum við staðið við þá tíu daga sem við höfðum verið á leið- inni hingað til Malawi-vatns. Með einni undantekningu þó; þegar við hlupumst á brott frá klerkunum í Lilongwe, þá bráðlá okkur svo á að við tókum fyrstu rútu úr bænum. En það er nú önnur saga. Er þetta annar bjórinn þinn? spurði Knútur önuglega. Nei, svaraði ég sannleikanum samkvæmt. Ertu með sígaretturn- ar mínar? spurði ég svo eftir and- artaksþögn. Okkar, leiðrétti hann mig. Nei, ég er ekki með þær, sagði hann svo. Það eru svo fáar eftir að mér fannst ekki taka því að koma með þær. Ég þagði. Þegar þessi gállinn er á Knúti er best að segja sem minnst. Ég hætti að minnsta kosti við að spyrja hvort hann ætlaði ekki að fá sér einn bjór. Best að hafa sig sem minnst í frammi þar til fýlan er rokin úr honum. Ég sötraði bjórinn, Knútur stóð við hliðina á mér og eyðilagði ánægjuna fyrir mér. Það var eitthvert samviskubragð af bjórn- um. Hvar varstu? spurði ég eftir þrúgandi þögn. Fór á markaðinn og keypti hnetur. Ætlaði að fá banana en þeir fást ekki fyrr en í kvöld, sögðu þeir. Hnetur? Eigum við að lifa enn einn daginn á hnetum? Ég gat ekki leynt vonbrigðunum og vand- lætingunni í rödd minni. Við höfð- um ekki fengið almennilegan mat síðan við komum til vatnsins. Ef frá eru taldar rándýru samlokurn- ar sem við keyptum fyrsta daginn af því við vissum ekki hvað þær voru dýrar. Síðan höfðum við lifað á appelsínum og hnetum en af þeim var gnótt á markaðnum. Bananar fengust sjaldan og fyrir utan úldna sólþurrkaða smáfiska fékkst fátt matarkyns á markaðn- um. Auðvitað var alltaf til kóka kóla eða Chibuku, ódýri gallsúri bjórinn á fernunum. Að vísu fengum við Knútur einu sinni fisk af fiskimönnunum. Þeir veiddu aðallega jambó, bragðgóð- an fisk sem lítur út eins og hvítur karfi. Líklega myndi hann vera kallaður vatnakarfi heima. En við vorum hálflatir við að matreiða fiskinn. Við vorum ekki með nein eldunartæki með okkur og þrædd- um þess vegna fiskana upp á grein og héldum þeim yfir eldi. Allt of mikið vesen, en ég minntist hve vel þeir smökkuðust. Ég ætlaði að kaupa fisk, sagði Knútur og var drýgindalegur með sig. En ég hætti við það á síðustu stundu. Nú? Ég hitti skólastjórann. Hann var að sporta sig um á skellinöðr- unni sinni. Hann Austin Mini Kamuyango eða hvað hann heitir? Já, hann og engan annan og gettu hvað? Knútur ljómaði, hann var ekki í fýlu lengur ef ég las rétt úr andlitinu hans. Hvað heldurðu að ég sé að geta? svaraði ég og reyndi að leyna áhuga mínum. Eins og þú vilt. Ókei, hvað sagði hann? Hann bauð okkur í mat, ekkert minna. Hvenær? spurði ég ákafur og fyrir hugskotssjónum mínum flugu lærisneiðar, brúnaðar kart- öflur, grænar baunir, rabarbara- sulta og brún kekkjótt hveitisósa, uppáhaldsmaturinn minn. Við hittum Austin Mini fyrir tveimur dögum. Hann hafði keyrt fram á okkur þegar við vorum á leið á markaðinn. Renndi skelli- nöðrunni upp að okkur og heilsaði með þeim hýrleika og innileik sem fólkinu þarna um slóðir virðist í blóð borinn. Austin Mini, kom í ljós, var skólastjóri iðnskólans sem stóð þarna við vatnið ekki allfjarri hótelinu. Við höfðum farið með honum að skoða skólann. í óbæri- legum hitanum sveittumst við milli skálanna og skoðuðum hvernig ungir Malawi-búar læra handverk og iðnir, allt undir ötulli leiðsögn Austin Mini. Hann sagði tilgang skólans vera að kenna ungu fólki svo það gæti séð um sig sjálft að námi loknu, hver heima í sínu byggðarlagi. Þess vegna var ekki notast við nein rafmagnsknú- in tæki við kennsluna því rafmagn finnst óvíða til sveita. Austin Mini var menntaður í Þýskalandi og Bretlandi og því á margan hátt líkur Evrópumanni í hugsun og framkomu. Hann var brennandi af eldheitri framfara- þrá og vildi reisa ótal verksmiðjur við vatnið og hleypa fleiri togur- um á vatnið. Hann hló að sjón- armiði okkar Knúts, þegar við sögðum að okkur fyndist lífið við vatnið í fullkomnu jafnvægi. Hér hefur fólkið það ágætt, vildum við meina. Er ekki til nóg af mat þótt úrvalið sé ekki mikið, er ekki allt- af gott veður, svo hús eru sama- sem óþörf, sér ekki náttúran fyrir öllum þörfum fólksins? spurðum við en Austin Mini tók það sem grín. Og nú var okkur boðið í hádeg- ismat til hans. Klukkan tvö tygj- uðum við okkur af stað. íhuguðum mikið að taka draslið með okkur en földum það í staðinn undir runna einum, sem náttúrulega var enginn öruggur felustaður. Svo röltum við af stað, styttum okkur leið gegnum skóginn, þræddum stíginn framhjá ein- stæðum björgum eða sveigðum fyrir risavaxin baobab-trén. Von bráðar vorum við komnir upp á sandhól einn mikinn en bak við hann hvíla kennarahúsin, hvít með flötum þökum. Austin Mini hafði sagt okkur að hann byggi í næstfremsta húsinu. En þegar þangað kom sáum við að það voru tvö hús sem voru næstfremst. Hvort eigum við að pikka? spurði ég Knút. Hann pírði augun; þá er hann að hugsa. Gerum eins og biblían segir, sagði hann svo. Hvað þá? Þegar sá heimski fer til vinstri sækir sá vitri til hægri. Við bönkuðum á dyrnar á næstfremsta húsinu hægra megin. Lengi vel ætlaði enginn að koma til dyra. Við rýndum í gegnum skítugt glerið en gátum lítið séð fyrir grútdrullugum gardínunum. Við vorum um það bil að gefast upp og halda að hinu næstfremsta húsinu, þegar ung feimin kona á hvítum kjól lauk upp dyrunum og gæðist varlega út. Er Austin Mini heima? Konan fór í keng, greip saman höndunum og hörfaði tvö skref aftur á bak en gaf okkur síðan til kynna með snöggri handasveiflu að við skyldum ganga í bæinn. Hlýtur að vera þjónustustúlkan hans, hvíslaði ég að Knúti. Alveg eins eiginkonan, sagði hann. Við tvístigum í forstofunni, veigruðum okkur við að fara úr skónum því gólfið í stofunni var ekki nógu hreint fyrir sokkana okkar. Svo gengum við inn í stofu og konan flúði undan okkur en kraup svo á kné. Gjörið svo vel að setjast, herrar mínir, bauð hún okkur lágum rómi. Ég settist í trosnaðan sófa og þá valdi Knútur auðvitað að setjast í gatslitinn setubekkinn. Þegar konan sá að við vorum komnir í hægindin, skreið hún aftur á bak út úr stofunni, brosti afsakandi til okkar og hvarf svo inn um eldhús- dyrnar. Fyrr má nú vera, tautaði Knút- ur fyrir munni sér. Ég hristi höf- uðið. Svo fórum við að virða fyrir okkur stofuna með gestsaugum. Það var ekki mikið að sjá. Auk sófans og setubekksins og gamla sófaborðsins þar á milli var fátt annað húsgagna en traustbyggt matborð úr harðviði sem stóð rétt við eldhúsdyrnar. Á veggjunum héngu nokkur gömul almanök til skrauts og þar að auki fróm áminning í svörtum sorgar- ramma: Jesús er húsbóndi á þessu heimili og leggur eyrun við öllu sem hér er sagt. Amen. Þá birtist stúlkan í eldhús- dyrunum. Hún skotraði til okkar stórum augunum, læddist svo flóttaleg með tvo bolla og undir- skálar og slengdi þeim á matborð- ið. Hrökklaðist svo inn í eldhúsið aftur. Við fáum þó að minnsta kosti te, sagði ég. Ég er ekki viss um að við séum í réttu húsi, sagði Knútur. 4

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.