Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.1966, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.1966, Blaðsíða 3
Saga um sögu Eftir Ingólf Jónsson frá Prestsbakka —INÍ ei, drengir, sagan er ekki dauð, og það er ferskeytlan ekki heldur. Báð- ar lifa, en dvelja í lægð í bili og rísa upp þegar minnst varir, því að þær eiga heima í sál þjóðarinnar, fólksins, manna eins og okkar, sem nú störfum við að grafa þennan hitaveituskurð fyrir Reykjavíkurborg, sagði Jón gamli og leit glettnum augum á vinnufélaga sína, þar sem þeir sátu á bekkjum Vinnuskúrsins í kaffihléinu. — Fólk eins og við, hélt Jón áfratn, hvers vegna það? Hvers vegna sagði ég ekki fyrst og fremst í sál þeirra, sem tekið hafa að sér að vera vökumenn þjóðarinnar. Manna eins og stjórnmála- mannanna, menntamannanna, vísinda- mannanna, skáldanna, sálfræðinganna, kennaranna og hvað allir þessir menn eru kallaðir. Ég skal segja ykkur hvers vegna. Ég held að þessir menn hafi flestir staðsett sjálfa sig í þær skorð- ur, sem þeim þykja bærilegastar, dreg- ið ályktanir, slegið þeim föstum sern staðreyndum og með því losað sig und- an þeirri kvöð að vera leitendur fyrir þjóðina. Það er alltaf þægilegra að vera heima en þurfa að fara í smaia- mennsku. Innst inni kunna þeir að vita, að þetta er ekki rétt, en þeir hafa svæft sig sjálfa í ysnum og hávaðanum, og eitt af því, sem þeir virðast hafa tekið gilt, eru fullyrðingar um að sönn ritlist sé fólgin í nýsköpun, sem af- neitar fornum hefðum, leita að skríp- um og hugarórum, sem við alþýðu- menn skiljum ekki og getum ekki iært, formleysum, sem hvorki eru fugl né fiskur. — Þetta er nú skárri ræðan hjá þér, Jón minn, sagði nú verkstjórinn, Björn kallaður Björn kaldi. Hvernig veiztu svona mikið um skáldskap? Þetta get ég svarið, að er fullkomin latína fyrir mig. Mér þykir fjandans nóg að lesa blaðskrattann, sem ég kaupi, og reyna að melta lygina úr því, þótt ég fari nú ekki að velta fyrir mér skáldskap til viðbótar. Það eru nógu margar út- gáfurnar samt af vitleysunni. J ón leit brosandi í kringum sig til að vita, hvað hinir segðu, en þeir þögðu, og eftirvæntingin var auðséð á svip þeirra. Þeir áttu von á snörpum orðahnippingum milli Jóns og verk- stjórans. — Já, Björn minn, svaraði Jón með sinni norðlenzku rósemi. Það er svo sem ekki allt satt, sem stendur í blaða- greyjunum, en ég er sveitamaður eins og þið vitið, afstúfaður búhokrari eins og þú, Björn, sagðir um daginn, en ég hef alltaf lesið og oft keypt bækur, þeg- ar ég fékk varla úttekt í kaupfélaginu fyrir skuldum, en nóg um það. Ég ætla að segja ykkur stutta sögu um sögu, ef ég má svo að orði komast, úr mínu byggðarlagi. Þegar ég var barn, þið vitið, að ég er nú á sjötugsaldri, kom þýdd saga í Nýjum kvöldvökum, vinsælu Akur- ej'rar-tímariti, sem enn er gefið út. Saga þessi hét „Móðir snillingsins" og fjallaði um fullorðna jómfrú, sem aldrei hafði gifzt né átt barn. Hún var ósköp einmana, þreytt á lífinu og tilgangs- leysi þess að vera alltaf ein með sjálfri sér. Svo kom henni í hug snjallur mál- ari, sem hún kannaðist við, og dreif sig á fund hans. Hún tjáði honum, að sjálfsögðu með háttvísum, kvenlegum formála, að sig langaði þau ósköp til að eignast barn, sem yrði snillingur eins og hann, en hún skyldi ein annast það að öllu leyti og engum segja fað- ernið. Það yrði bara vitað af þeim tveimur, og ekki skyldi hún verða hon- um til neins trafala í lífinu. Hann gæti farið sínar götur allar jafnt fyrir því, en hefði þó aukið við þjóð sína einum snillingi, sem ekki væri svo lítils vert. Jæja, svo tókst nú til, að málarinn var til í tuskið, kannske leizt honum á konuna, þótti lofið gott og sjálft verkið ekki svo fráhrindandi. Hvað um það, konan átti barn í fyllingu tímans samkvæmt áætlun og svo man ég nú ekki meira úr sögunni. etta er ekki svo vitlaus saga, sagði Maggi, ungur piltur í vinnu- flokknum. — Svona konur vildi ég hitta, þá þyrfti enga Kvíabryggju og enga afskiptasemi. — Já, sagði éinn úr hópnum, það hefði komið sér notalega fyrir þig í fyrra, þegar þú fékkst tvö í haúsinn, að þær hefðu þekkt þessa gömlu og góðu aðferð. Ha, ha. — Engar svívirðingar, svaraði Maggi byrstur. Lofum Jóni að halda áfram með söguna, sem hann svo kallar. — Jæja, drengir mínir, sagði Jón broshýr sem fyrr. í mínu byggðarlagi var ósköp venjulegt fólk, gott fólk, verra fólk, gáfumenn og sauðhausar eins og gengur og gerist í sveitum og bæjum, og meðal þessa fólks voru ekki svo fáar konur nær fimmtugu, sem aldrei höfðu gifzt né átt börn né notið neins af slíkum veraldargæðum. Þær lásu söguna sem aðrir eða heyrðu hana, því að oft var þá lesið upphátt á kvöld- in í baðstofunum, því að þá var nú ekki útvarpið komið í hvern krótc eins og nú. Já, og þær tóku við sér, drengir. Ein átti barn með húsbónda sínum, önn- ur á sama bæ með syni hans fimmtán vetra, og varð sú að hrökklast úr sveit- inni vegna aðkasts fólks, einkum kyn- systra sinna, og þá ekki sízt þeirra, sem urðu afskiptar eða útundan, eins og við kölluðum það. Ein fertug jómfrú sagaði gat á þilið undir rúmi sínu, en hinum megin við þilið og gegnt hennar rúmi var rúm smaladrengsins, sextán ára pilts, sem lærði að meta hlýju hennar og nota- legheit. Þessi kona hlaut einnig sinn skerf og átti efnilegt barn á sínum tima. Sem sagt, allt fór á fleygiferð eða á annan endann í heilu byggðar- lagi og svo fór víst víðar. Sagt var, að sums staðar hafi fólk verið í hálfgerðu svelti, því húsmóðirin hafði oft ekki sinnu á að skammta, þar sem hún þurfti að vera á sífelldum þönum til að gæta manns síns eða sona í þessum skæru- hernaði. Bændur kvörtuðu undan minnkandi afköstum vinnumanna sinna, einkum þeirra sem kvenhollir voru taldir, en aðrir sem ekki voru í þá áttina hneigðir sóttust eftir að vinna sem fjærst heimilinu, fóru óbeðn- ir í eftirleitir og sóttu mógröft til fjalla. Margar húsmæður brenndu í bræði sinni þessu örlagaríka hefti Kvöldvakn- anna, þótt seint væri, þar sem skað- inn var skeður. Þess vegna kvað hefti þetta vera næsta illfáanlegt og kosta stórfé, þá sjaldan það sést á boðstól- um. S em sagt, allt fór í bál og brand í minni sveit sem öðrum. En flestir eldar deyja út að lokum, og öldur sem rísa hæst eiga fyrir sér að hníga, svo fór að smátt og smátt dró úr þessu straumróti. Líf fólksins tók að falla í eðlilegar skorður og ástir urðu við- ráðanlegar og fólk hætti að svelta. Hús- mæður urðu aftur hlýlegar og tóku að fitna, en margar þeirra voru orðnar grindhoraðar af hlaupum og áhyggjum. Húslestrarnir og postillurnar hafa kannske hjálpað til og svo blessaðir prestarnir, þeir hafa að sjálfsögðu brýnt fyrir sóknarbörnum sínum guðlegar hugsanir og gott siðferði sem vera bar. Þetta er nú sagan um söguna, sem olli þeim fárviðrum, er enn geymast í minnum fólks, sem þá lifði, og varð hitagjafi margra í lágreistum baðstofu- kytrum í fábreytni afskekktra sveita, þar sem hugmyndaflugið er oft í dái, en neistinn sem varð þar að báli var ein stutt saga í þessu góða tímariti. J ón hafði lokið sögu sinni, en fé- lagar hans, sem voru sumir miður sin af hlátri, klöppuðu óspart fyrir hon- um. — Mikið fjandi var þetta góð saga hjá þér, Jón minn, sagði verkstjórinn, Björn kaldi. Næst þegar þú segir slíka sögu, þá framlengi ég hléið okkar eftir Framhald á bls. 6 ORÐ Eftir Ögmund Helgason í nið árinnar heyri ég vatnið hvísla hyldjúpum orðum. Silfurblár flaumur syngur við vota steina svalandi orðum. Og tunga mín er þurr af þorsta. 16. október liMW LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.