Lesbók Morgunblaðsins - 06.02.1966, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 06.02.1966, Blaðsíða 15
Stundum hefur mér fundizt ég svo ein- angraður, að það breyti ekki miklu þó ég yrði múraður inni upp á lífstíð.“ Konan horfði á hann og svipur hennar var að gliðna í sundur og í ljós kom eitthvert jafnvægisleysi, sem var ólíkt henni, en hún þagði. „Kða í verzlun," hélt hann áfram, „það hlýtur líka að vera skemmtilegt. í>ar kemst maður í snertingu við fólk og getur fylgzt með áhyggjum þess út af verðlagi eða séð það gleðjast yfir fallegum hlut. Ung hjón að kaupa lampa í búið sitt. Gömul kona að setja upp ný gleraugu og horfa á lífið enn einu sinni koma á móti sér. Barn að stela mjólkurpeningum og kaupa sælgæti. Líf. Fólk. Gleðibros. Áhyggjustuna. Líf, umfram allt líf, en ekki pappír á papp- ir ofan.“ „Ég skil þig ekki Þráinn; þú hefur aldrei talað svona fyrr.“ Hann horfði á konuna sína, og það var eins og hann hefði verið einhvers staðar langt, langt í burtu í mörg ár. Þannig sá hann hana. Notaleg þreyta fór upp um handleggina og flóði þaðan um allan líkamann. Nú fyrst áttaði hann sig á því hvað hann hafði verið yfir sig spenntur undan- farin ár. „Ég hef ekki verið ég sjálfur fyrr en núna,“ sagði hann. „En öryggið, sem er fólgið í því að vinna hjá svona grónu fyrirtæki? Það er ólíklegt, að það fari á höfuðið. Og svo er það lífeyrissjóður verzlunar- manna með byggingarlánum og sjúkra- tryggingum, ellilaunum og ekknabót- um.“ Öryggi, öryggi, öryggi, hugsaði hann; gat fólk ekki hætt að tönnlast á þessari viðbjóðslegu uppfinningu? „Talaðu ekki við mig um öryggi. Ég er með degi hverjum í stöðugt meiri lífsháska, andlegum lífsháska. Þitt ör- yggi er mitt eitur.“ „Þú veizt, að ég er ekki að hugsa um sjálfa mig heldur börnin.“ Guð minn almáttugur, þurfti hún nú endi- lega að beita þeim fyrir sig? Hún vissi svo sem hvar hann var veikastur fyrir. „Ég get hæglega séð okkur farborða í annars konar vinnu.“ „Þú færð hvergi sömu laun og hjá Jakobssyni og Co.“ „Við gætum lifað á minni launum, ef þú værir ekki alltaf að bera okkur sam- an við þetta kunningjafólk okkar. Ég er ekki fyrr kominn heim á kvöldin en þú byrjar. Þráinn sérðu sjónvarpsloft- netið, sem þeir eru að reisa hjá Guggu og Einari? Þráinn hvernig fannst þér hornsófinn hjá Sibbu frænku? Eigum við ekki að fá okkur svoleiðis? Eigum við ekki að fá okkur Arabíustell eða ruggstól eða teppi horn í horn?“ Hún anzaði honum ekki, en fór að huga að dúknum, og það var eins og hvert nál- spor ætti leið í gegnum hjarta hans, þannig var biðin og óvissan. Hann var þó ekki úrkula vonar um, að hún féll- ist á sjónarmið hans. Reyndar vissi hann, að hún hafði fyrst og fremst gifzt honum vegna þess að hann var í fastri og öruggri vinnu. Faðir hennar hafði verið óreglusamur og hrakizt úr einu starfi í annað. Móðir hennar hafði þul- ið raunir sínar í eyru barnanna frá því þau fóru að skilja mælt mál. Hún var alin upp í sjúklegri hræðslu við glæfraskap og ævintýramennsku. Öryggi plús ráðeild var æðsta takmark hennar. Þau horfðust sem snöggvast í augu, hann biðjandi, hún skipandi. Loks- ins rauf hún þögnina. „Ef þú hættir i þessari vinnu skil ég við þig.“ Skil ég við þig, skil ég við þig, söng í eyrum hans. Hann f engi þá kannski ekki að sjá börnin nema rétt endrum og eins. Allt yrði lagt í rúst. Hvernig gat hún beitt sér gegn ákvörðun, sem myndi áreið- anlega fela í sér hamingju þeirra beggja? Skildi hún ekkj að hans líðan var hennar velferð? Hann heyrði að henni var alvara og frauðkenndur kökkur myndaðist í hálsinum, og næst- um ósýnilegt tár stóð í auga. „Veiztu hvað þú ert að gera mér?“ „Ég get ekki hugsað til þess að hafa þig atvinnulausan svo mánuðum skipt- ir.“ „V eiztu hvað þú ert að gera mér?“ hélt hann áfram eins og hann hefði ekki heyrt til hennar. „Þú ert að sigra mig. Ef við skiljum þá heldur þú börnunum. Það eru þínir yfirburðir og þeim ætlar þú að beita og skilja mig eftir hjálparlausan í fullkominni niður- lægingu. Ég veit ekki hvort þér er það ljóst, að um leið og annar aðilinn sigr- ar hinn í hjónabandi, þá er því þar með lokið. Fólk heldur kannski áfram að vera gift, en því er samt lokið. Hinn sigraði byrjar að hata sigurvegarann og sigurvegarinn að fyrirlíta hinn sigraða.“ Hún lagði frá sér saumaskapinn og ætl- aði að segja eitthvað, en það var. um seinan. Hann var á undan henni. „Ég fer í fyrramálið og bið aðalbók- arann afsökunar á frumhlaupi mínu.“ Hann fann að aftur var komin þessi spenna í handleggina. Þeir voru eins og tveir strekktir kaðlar. Notaleg þreyt- an frá því áðan var horfin, en í hennar stað var kominn einhver stingandi pirr- ingur. Hann náði ekki að festa svefn um nóttina, heldur mókti. Hver hugsunin rak aðra, en engin nógu einbeitt til þess að svæfa hann. Um morgun- inn klæddi hann sig eins og í leiðslu og andvökustirður lík- aminn drattaðist í vinnuna meir eins og af gömlum vana. Tveggja mínútna gangur í strætisvagninn, svolítil bið, stympingar og olnbogaskot, Lækjar- torgið og síbrosandi Persilstúlkan, sem horfði út yfir fótumtroðið snjófölið. Hann bankaði hæversklega á dyr aðal- bókarans, og þegar hann gekk inn eft- ir mjúku teppinu fannst honum fætur hans ætla að verða eftir í því, rétt eins og það væri úr tjöru en ekki ull. Hann mumlaði eitthvað, sem átti að heita af- sökunarbeiðini. „Ég skil væni minn,“ sagði aðalbók- arinn, „það kemur yfir okkur alla ein- hverntímann að fá óbeit á starfi okkar, en það líður hjá.“ Hann gekk fram að dyrum og opnaði, en slíkt gerði hann helzt ekki fyrir nokkurn mann. „Þú jafnar þig á þessu góði minn,“ sagði hann og Þráni fannst hann ó- geðslega skilningsríkur. T ikk-tikk-tikk sagði stimpil- klukkan, og hjartað hamaðist í brjósti hans. Oralangur og þröngur gangurinn teygði úr sér framundan, en fyrir end- anum stóð hurð upp á gátt. Það var myrkur í herberginu og það kom á móti honum og ætlaði að svelgja hann í sig. En hann varð að halda áfram. Það var engin leið til baka og myrkrið nálgaðist. Áfram, áfram, áfram. En svo var hann kominn í skrifstofuna sina. Endalausar kvittanir. Skjalaskápur og Hanzagardínur. Stórt fuglabúr og engin leið út. Hann hallaði sér aftur á bak í stólnum og horfði upp í loftið, sem var þakið stórum hvítum hljóðeinangrunar- plötum með ótal smáum götum. Hon- um fannst þessi göt breytast í augu, sem horfðu spottandi á hann. „Eym- ingi, eymingi, eymingi,“ hálföskraði hann, en orðin fæddust andvana og litlu götin í hvítu plötunum voru graf- ir þeirra. í fimmtán ár hafði hann set- ið á þessum sama stað og sagt við sjálfan sig: „á morgun hætti ég.“ Nú vissi hann, að það myndi aldrei verða. Draumurinn var horfinn úr lífi hans, og hann stóð eftir nakinn eins og klett- ur upp úr rótlausu hafi. Ef hann átti ekki að tortimast varð hann að finna lífi sínu tilgang hér í þessu húsi, þessu hræðilega húsi. Kannski myndi hann einhverntímann greina áttirnar eins og hann hafði þekkt þær ungur mað- ur. 6. febrúar 1966 ■LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.