Börn og menning - 01.04.2004, Blaðsíða 9

Börn og menning - 01.04.2004, Blaðsíða 9
Samspil mynda og texta 7 fyrir það sem koma skal. Textinn fellur að myndbyggingu hverrar opnu fyrir sig og stendur vel út úr mislitum grunnum. Næsta opna er gott dæmi um það hvernig texti og myndir geta fléttast saman (sjá mynd 2). Eggið veltur út á götu, rétt í þann mund sem bleikmálaður og sármóðgaður strætisvagn kemur akandi. Það drynur í vagninum að hann sé bíll en ekki auglýsingaskilti. Er víð skoðum myndina nánar sjáum við að á hlið strætisvagnsins eru myndir af hænu, kjúklingi og brotnu eggi (það sýnir okkur hvað gæti komið fyrir aðalpersónu sögunnar, eggið). Síðan er auglýsingatexti eins og „Bezt bleik egg", „Bezt bragðlaus og bleikur kjúlli". Framan á vagninum stendur svo leið 3 Eggholt - Hreiðurás. Eggið veltur eftir gangbraut, framan við fúllyndan strætisvagninn, út af síðunni hægra megin. Svona rúllar það svo áfram í gegnum bókina og á hverri opnu er einhver leikur með eggið. Það fellur inn í myndirnar og við þurfum að leita að því vegna þess að það líkist einhverju öðru. Á einni opnunni kastar götuleikari því á loft og það svífur í boga með mislitum boltum. Á annarri opnu er verið að matreiða egg á mismunandi vegu og síðan líkist eggið sápulöðri, skallanum á skáldi, golfbolta og gorkúlum svo eitthvað sé nefnt. En svo lendir eggið í miklum háska er stór svartur hrafn kemur fljúgandi inn á opnu frá hægri. Undankomuleið eggsins lokast og við skynjum hættuna. Hrafninn grípur eggið og ætlar að gefa ungum sínum gómsætan bita. Hann flýgur með eggið í átt að kirkjuturni. Á næstu opnu sjáum við þrjá gráðuga unga, kirkjuklukkur, rautt kirkjuþakið og þrjá krossa ( bakgrunni. Þessi opna er mjög táknræn, við erum að komast að leiðarlokum, feigðin kallar og staðan er tvísýn. En eggíð er útsjónarsamt, segir eggjabrandara og hrafninn hlær og missir eggið. Á næstu opnu skoppar það niður stiga (sjá mynd 3) og er myndbyggingin á þeirri opnu dæmi um það hversu vel höfundurinn þekkir miðil sinn. Fyrir neðan stigann til hægri bíður kötturinn með gapandi ginið. Rauð tunga hans kallast á við rautt kirkjuþakið. Undir kettinum er appelsínugulur stígur sem liggur út af opnunni ofarlega til hægri en kötturinn lokar leiðinni. Eggið er á hreyfingu niður tröppurnar, niður í svart kok villikattarins sem er innrammað með beittum tönnum hans. Textinn á vinstri síðu situr á nýmáluðum hvítum grunni og málningarfatan og stiginn segja okkur þá sögu. Á næstu opnu fáum við svo að sjá hvað gerist. Eggið brotnar í tvennt og unginn þenur út vængina. Hann flýgur yfir höfuð kattarins yst til hægri út úr opnunni og inn á heiðan himininn á næstu opnu. Bókin byrjar á drungalegri senu og lýkur á bjartri opnu sem nær inn á bakspjald bókarinnar og unginn syngur „Láttu þig bara dreyma". Textinn á bakkápu bókarinnar „Eggið er óskabók allra unnenda góðra myndabóka" á vel við. Bókin er sterk heild og fallega hönnuð. Myndir og texti vinna vel saman að því að miðla ferðasögu eggsins á eftirminnilegan hátt.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.