Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.1996, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.1996, Blaðsíða 2
Mynd: Gunnar Karlsson. ENDA ÞÓTT það væri stranglega bannað, freistuðust bændur tii þess í harðindum og bjargarleysi að eiga viðskipti við Spánverjana, sem seldu þeim hvalkjöt og fleira, Þeir töluðust við með frumstæðum setningum á einskonar hrognamáli sem báðir skildu. ekki vitað, er tekin afstaða með og á móti. VlÐKVÆM SAMSKIPTI Hvalveiðimennirr.ir sem hér um ræðir voru Baskar og komu frá Baskasvæðunum beggja vegna landamæra Spánar og Frakklands. Baskar sóttu alla 16. öldina á Nýfundnalandsmið en um aldamótin 1600 höfðu Englendingar, Frakkar og Hollendingar hrakið þá þaðan. Um það leyti byijuðu Baskarnir að sækja á hin nýuppgötvuðu mið við Svalbarða, en þar lenti þeim saman við Englendinga, Hollendinga og Dani, sem sameiningu hrökktu þá burtu. A þessum tíma var þyngdarpunktur efnahagslífsins að færast norður eftir Evrópu og mótmælendaheimurinn í uppgangi á kostnað hinna kaþólsku Spánverja og Portúgala. Baskar virðast hafa farið að venja komur sínar á íslandsmið á þessum árum og er þeirra nokkrum sinnum getið í annálum í upphafi 17. aldar. Sumarið 1615 voru tvö hvalveiðiskip frá San Sebastian tekin fyrir ólöglegar veiðar við Norður-Noreg. í málskjölunum kemur fram að árið áður hafi verið átta skip frá San Sebastian við ísland og sjö frönsk, en skipveijarnir allir Baskar. Hvalveiðimönnunum var gefið að sök að hafa rænt og ráðist á fólk á íslandi en þeir neituðu þessum ásökunum og sögðust hafa fengið það sem þeir vildu með góðu og borgað fyrir með brauði, eplavíni, feiti, hvalkjöti, línklæðum og fleiru. Aftur á móti hafi verið sjóræningjaskip við landið á þessum tíma og gætu landsmenn hafa ruglað þeim saman við Baskana. Skipstjórarnir sögðust hafa fengið veiðiheimildir hjá Ariasman, sem er líklega það nafn sem Ari Magnússon í Ögri gekk undir meðal hvalveiðimannanna. Vorið 1615 sátu sextán hvalveiðiskip föst í ísnum úti fyrir Hornströndum. Þegar los komst á ísinn lögðust þijú þeirra inn á Reykjarfjörð syðri. Hin skipin héldu burtu og Jón lærði segir í Fjölmóði að þau hafi haldið til hvalveiða við Rússland, en þeirra er alla vega ekki getið við hvalveiðar hér við land þetta sumar. Baskamir höfðu verið við Strandir undanfarin ár og því hafa þeir ekki komið íbúunum á óvart. Aðstöðu þurfti í landi til þess að bræða hvalinn og samskiptin við landsmenn hafa verið miklu nánari en almennt var um erlenda fiskimenn á íslandsmiðum. Um það vitna þijú basknesk-íslensk orðasöfn frá 17. öld. Þar eru setningar á blendingsmáli, sem lýsa vel á hvaða sviði þessi samskipti voru t.d.: „bocata for mi attora þvodu fyrer mig skyrtu“ og „for mi present for ju biskusa eta sagarduna Eg skal gefa þier braudkóku og syrdryck". Baskamir stunduðu veiðamar þannig að brasðslutæki og annað sem þurfti til vinnslu hvalsins var haft í landi en til hvalveiðanna var róið á árabátum. Skipstjóramir hétu Pétur de Argvirre, Stefán de Tellaria og Marteinn de Villa Franca. Skip Marteins var stærra en hin skipin og hafði hann yfír að ráða öflugustu bræðslutækjunum en skipin þijú höfðu með sér samlag um lýsisaflann. Á Alþingi þetta sumar var lesið upp bréf konungs útgefíð 30. apríl 1615 þar sem hvalveiðar útlendinga við Island vom bannaðar. Eftir það voru öll samskipti landsmanna við hvalveiðimennina ólögleg og Baskamir því afar varir um sig. Jón lærði segir að þeir hafí aldrei róið lengra en svo til veiðanna , en að til þeirra sæist eða skothljóð heyrðist til skips. Jón fullyrðir að sumir landar sínir hafí stolið frá Böskunum og tungumálaörðuleikar hafí valdið erfíðleikum við að greiða úr slíkum málum: En það var sumra vor sveitarmanna setningur og áform, bæði í fyrra sumar og nú, að taka frá þeim og villa hvað menn treystu sér, en sumir vildu þar um grandvarir vera. Því guldu nú stundum ómaklegir af oss þá hinir sýndu hnuplan í mót, en fáir eða öngvir skildu þá þó þeir segðu orðsakimar, og þetta vita margir með mér sannindi vera. Veturinn 1614-1615 var afar harður og hallæri mikið í landinu. Baskamir seldu landsmönnum hvalkjöt, þvesti og rengi við vægu verði „so að af þvílíkri gagnsemd lifði hér fátækt fólk og við hélst á þeim harðindavetri". Þetta hefur því verið hið mesta bjargræði fyrir sveitarmenn en margir þorðu ekki að kaupa vegna ótta við yfirvöld. Böskunum var mjög í mun að hvalur væri ekki látinn skemmast og leyfðu mönnum að hirða það sem ekki tókst að vinna: Því fáir voru héraðsmenn og þar með félausir eftir þann mikla fellir, sem þeir spönsku vildu heldur nokkuð hafa en alls ekkert, þó ekki væri utan ein skaka lítil eða vettlingur, leggjabönd, hundur eða hvolpur, fyrir sérhvað þetta fékk hvör maður þvesti upp á sinn hest eða bát, hvort sem hann hafði. Hvalveiðimennirnir sóttust eftir að kaupa kindur og nautgripi til matar en virðist oft hafa verið neitað um viðskipti. Þeir gripu þá stundum til þess að taka það sem þá vantaði og skilja eftir sem borgun vín, hamra, axir, járn og striga. BaskarBúastTil Heimferðar Um miðjan september fóru hvalveiðimennirnir að huga að heimför og höfðu þá fengið ellefu til tólf hvali, sem þótti bærilegur árangur. Hinn tuttugasta september, daginn áður en lagt skildi á hafíð, fór Marteinn de Villa Franca yfir í Ámes í Trékyllisvík til þess að innheimta skuld, sem hann taldi sig eiga inni hjá séra Jóni Grímssyni sóknarpresti. Séra Jón hafði verið tíður gestur um borð í öllum skipunum og átt mikil viðskipti við Baskana. Þetta gerði hann þrátt fyrir að vera góðkunningi Ara sýslumanns, en Jón hafði áður verið grestur í Ögurþingum 1599 til 1611. í Árnesi varð atburður, sem í dómum var talinn alvarlegasta misgjörð Baskanna. Marteinn bað prest um tvo sauði til heimferðarinnar en hann þverneitaði að skulda neitt. Þá reiddist Marteinn og heimtaði naut. Séra Jón þumbaðist enn við og brast þá fylgdarmann Marteins þolinmæðina og brá hann snæri um háls prestsins. Þá skárust nágrannar í leikinn og fengu séra Jón til þess að lofa Marteini nautkálfí. í Sannri frásögn er þessu lýst sem saklausri hótun en í Súðavíkurdómi sem dæmdur var síðar um haustið til að réttlæta aðförina að skipbrotsmönnunum er gert miklu meira úr þessum atburði: ... veittu presti á Ámesi heimsókn og villdu kuga af honum. X. saudi. lietu snöru vm hans háls j sialfri kirkjunne, syndu sig j hann ad heingja og hans kuinnu og dottur bordu þeir. Reykjarfjörður er frábært skipalægi frá náttúrunnar hendi. Hann er grynnstur í mynninu en dýpkar innar og því er sjólag þar oftast gott þó ofsaveður sé úti fyrir. Skipin lágu þannig að vindur gat aðeins komist að þeim á einn veg. Um kvöldið skall á illviðri og og stóð vindátt þannig að íshraflið, sem hafði lónað fyrir utan allt sumarið, rak inn fjörðinn að skipum þeirra Stefáns og Péturs og braut þau. Skip Marteins, sem var innar í firðinum, slitnaði upp í rokinu, rak upp í fjöru og brotnaði. Aðeins tókst að bjarga litlu af varningi og vopnum úr skipunum og fórust þrír skipveijar. Nokkrir af róðrarbátum Baskanna voru enn uppi á landi þegar skipin fórust, en að öðru leyti stóðu þessir 83 sjómenn uppi nær allslausir í ókunnu landi. Þetta var aðfaranótt fimmtudags, en á föstudeginum þegar veðrinu slotaði, dreif að fjölda manna úr nágrenninu, þar á meðal var Jón lærði. Sumir sveitarmanna höfðu samúð með skipbrotsmönnunum og buðu nokkrum þeirra til sín til dvalar. Jón lærði segist hafa boðið Pétri skipstjóra að ícoma til dvalar hjá sér ásamt þremur eða fjórum skipsmönnum öðrum. Stýrimaður hans, Andrés að nafni, bað þá einnig um vist og brast í grát af fögnuði þegar Jón játti því. Ef skipbrotsmennirnir hefðu beðist ölmusu eins og Jónsbók mælti fyrir um, hefðu sveitarmenn verið skyldugir að taka við þeim og halda uppi þar til ferð fengist fyrir þá úr landi, sem vart hefði orðið fyrr en næsta sumar. Bændum hefur óað við því að taka við svo stórum hópi manna til framfærslu í hörðu ári. Hin fámennu heimili á Ströndum voru tæplega til þess fær í hallæri að framfleyta heimilisfólkinu sjálfu hvað þá að taka við þessum stóra' hópi fullorðinna karlmanna. Það er því skiljanlegt að einhverra ráða væri leitað til þess að koma þeim burtu. Séra Jón Grímsson ráðlagði þeim að fara til Vestfjarða og skipta sér þar í smærri hópa. Einnig var þeim sagt að Gunnsteinn bóndi á Dynjanda í Jökulfjörðum ætti haffæra skútu. Skútan freistaði skipbrotsmannanna, sem þannig eygðu möguleika á að komast heim. Jón lærði segir í Sannri frásögn að hann hafi vitað að á þessari skútu mundu þeir aldrei ná yfír hafíð. Strandamönnum hefur því verið vel kunnugt um ástand skútunnar. Það er því freistandi að álykta sem svo að hún hafi verið notuð sem tálbeita fyrir Baskana, sem vildu allt til gefa að komast heim. Þeir hafa eflaust óttast um sig, þar sem þeir voru hér í andstöðu við yfírvöld og því lögbijótar. Sumir vildu þó fá að vera, en þó margir hafí vorkennt þeim, þorðu menn ekki að taka við þeim í andstöðu við séra Jón Grímsson og aðra málsmetandi menn. Það er því kaldhæðnislegt að alvarlegasta lögbrotið, sem borið var á Baskana í dómum, var að þeir hafi ekki leitað ölmusu samkvæmt ákvæðum Jónsbókar. Þannig firrtu þeir sig öllum rétti og urðu óbótamenn. Lagamennirnir íslensku áttu þannig ekki erfiðleikum með að gera skipbrotsmennina réttlausa og réttdræpa. Baskarnir bjuggust nú til vesturferðarinnar á þeim átta róðrarbátum sem þeir höfðu tiltæka og flestir voru litlir. Þeir gátu því aðeins tekið með sér lítinn hluta þess sem bjargaðist úr skipunum og Pétur skipstjóri gaf séra Jóni Grímssyni mest af því sem þurfti að skilja eftir. Næsta dag kom prestur með þrettán físka og færði Pétri, sem í staðinn gaf honum hverfistein einn mikinn. Á VIT ÖRLAGANNA Baskarnir lögðu upp í hina hættulegu sjóferð laugardagsmorguninn 23. september. Þeir sigldu drekkhlöðnum bátunum djúpt norður fyrir og furðuðu menn sig á hvað þeir komust hratt yfir, því brim var og ósjór. Séra Jón Grímsson sendi mann til Ögurs að segja Ara sýslumanni tíðindin. Á þriðjudeginum voru Baskarnir komnir í Jökulfirði og voru þá komnir í návígi við hið öfluga útgerðarsamfélag við Ísaíjarðardjúp. Gunnsteinn bóndi á Dynjanda í Leirufirði vildi engin viðskipti eiga við skipbrotsmennina og ekki láta skútuna lausa, enda ósennilegt að þeir hafi haft andvirði hennar handbært. Um viðskipti Baskanna og Gunnsteins segir í Súðavíkurdómi: Jtem hefur og sama þiod rænt og stoled einu skipi af einum Bonda Gunnsteini Grijmssyne, er virt var IX hundruð, með öllu þui fylger, þar med honum heimsokn veitt. og hans fíe kuik og daud með ráne og herfange teked. Dómsmenn í Súðavík hljóta að hafa metið skútuna á yfirverði, hún taldist tæplega haffær og níu hundruð voru stórfé. Til samanburðar má nefna að jörðin Dynjandi var metin á sextán hundruð og var stór jörð miðað við jarðir á Vestijörðum. Baskarnir dvöldu tvær nætur í Leirufirði og ákváðu þá að skipta sér í hópa. Skipsmenn af skipum Péturs og Stefáns tóku skútuna og höfðu báta sína með í togi. Heimildum ber ekki saman um hversu margir fóru á skútunni en Jón lærði telur þá hafa verið 51 og er sú tala líklegust. Marteinn og menn hans skiptu sér í tvo hópa og fór Marteinn á með átján menn inn Djúpið áleiðis til Æðeyjar. í hinum hópnum voru fjórtán menn og réru þeir til Bolungarvíkur. Þeir dvöldu þar þó stutt og héldu áfram suður með Vestfjörðum. Baskarnir höfðu nú brotið allar brýr að baki sér og áttu ekki lengur möguleika á að komast af öðruvísi en að taka það sem þá vantaði með valdi. í Dýrafirði rændu þeir kaupmannshúsin á Þingeyri. Ekki stálu þeir þó miklu, aðeins lítilsháttar af salti og skreið. Að því loknu tóku Baskarnir sér náttstað í sjóbúðum í landi Fjallaskaga, sem er yst á nesinu norðan íjarðarins. Dýrfirðingar, sem hafa ekkert þekkt til þessara manna, hafa eflaust talið þá vera sjóræningja, enda talsvert um þá í norðurhöfum á þessum árum. Dýrfirðingar brugðust ótrúlega skjótt við og drógu saman lið sama dag og fóru að Böskunum um nóttina. Baskarnir voru allir drepnir nema einn unglingur, Garcia að nafni, sem hafði legið í afkró og fylgst með öllu. Líkin voru afklædd og síðan varpað í sjóinn „sem heiðnum einum er maídegt en ekki krist vesalingum ósekum“, eins og Jón lærði orðar það. Enginn Dýrfírðinganna féll, en einn særðist lítillega. Á meðan þessir atburðir áttu sér stað höfðu skútumenn rænt á Ingjaldssandi og í Súgandafirði, þar sem þeir höfðu dvalið í þijá daga. Þaðan var ferðinni haldið áfram suður með ijörðum og sigldu þeir hjá Skaga það nærri landi að Garcia gat gert vart við sig og var sendur bátur eftir honum. Þegar skútumenn heyrðu tíðindin setti að þeim óhug og héldu þeir rakleitt áfram til Arnarfjarðar, þar sem þeir fréttu af dönsku verslunarhúsunum á Vatneyri í Patreksfirði. Þangað var skútunni siglt, húsin brotin upp og búist til vetursetu. Síðari hluti birtist í næstu Lesbók. Höfundur er sagnfræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.