Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.1984, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.1984, Blaðsíða 3
F l-FgBflg Útgefandi: Hf. Arvakur, Reykjavlk. Framkvstj.: Haraldur Sveinsson. Ritstjórar: Matthlas Jo- hannessen, Styrmir Gunnarsson. Ritstjórnar- fulltr.: Glsli Sigurösson. Auglýsingar: Baldvin Jónsson. Ritstjórn: Aöalstræti 6. Slmi 10100. Siðblindan er lúmsk og vill ágerast þegar menn leyfa sér að slaka á siðferðiskröfunum. Annars eru lögmál siðfræðinnar áþekk lögmálum tungumálsins eins og fram kemur í viðtali Guðmundar Páls blaðamanns við Pál Skúlason prófessor í heimspeki Forsíðan „Á niðurleið með fiskum og fylgikonu" heitir þessi mynd Max Beckmanns og er dæmigerð fyrir stíl hans, sem var grófur og dulrænn í senn. Ekki er alveg ljóst hér, hvað hann er að fara: Maðurinn og fylgi- konan eru fjötruð við fiska — kyntákn, jafnvel reður — segja sumir, en maðurinn og konan halda hvort um sig á grímu hins Beckmann sagði í myndum sínum dæmisögur úr líf- inu, margræðar stundum en oftast hrika- legar. Þessi merkilegi þýzki málari, sem er 100 ára á þessu ári, varð að flýja undan nazistum, en er nú sýndur um víða veröld og þykir skyldur ýmsu því sem nú er efst á baugi í myndlist. Heimssýning ’84 hefur farið fram á þessu ári í New Orleans án þess að mjög hafi orðið vart við þann viðburð á íslandi. En New Orleans er líka borg jassins; þar hóf Luis Armstrong feril sinn og þar er hið litríka franska hverfi. Frá þessu er sagt í grein. JÓN úr VÖR Myndir úr morgundraumi Eins og svo oft hefur áður gerst dreymdi mig að ég vaknaði. Mér fannst ég horfa yfir til þín, þessa faðmslengd sem er á milli rúmanna eins og ég er alltaf vanur, og ég sá að þú lást með lokuð augu en svo vaknaðir þú líka án nokkurs tilefnis. Við lágum þarna bæði nývöknuð og þegjandi. Um okkur léku tónar ósýnilegra hljóðfæra, eins og verið væri að spila nærri okkur og þó var sem flóðið kæmi úr öllum áttum. Við litum hvort til annars, eins og við vissum ekki hvað við ættum að halda. Málverkin á veggjum herbergisins voru sem í heimi veruleikans, afmörkuð í römmum sínum, en þau voru lifandi. Þar sem gras var á myndunum, gátum við séð það vaxa, líkt og þegar við horfum í heimi veruleikans út um glugga á björtum löngum degi. Og ég sá greinar trjánna á myndunum laufgast. Hægt og eðlilega gerðist þetta, það var sem ég sæi og fyndi hvernig tíminn kom til okkar ílöngum og mjúkum bylgjum og ég fann hvernig dagar okkar liðu. Skórnir, sem við höfðum dregið af fótum okkar í gærkveldi, áður en við fórum að sofa, klæði okkar, sem höfðu legið á stólum og bekkjum, jafnvel rúmfötin, tóku að hreyfast, lyftu sér eftir hljómfalli tóna og lags og hófu dans. Það var engu líkara en að líkamir ókunnra gesta sveifluðu hvor öðrum um gólfið og svifu í lausu lofti, kannski vorum við ósýnileg í eigin fötum að dansa við ókunna vini, sem við sjálf sáum ekki með okkar jarðnesku augum. Ég man að ég hugsaði: Það er áliðið nætur. Við hljótum að vera lifandi og förum bráðum að vakna. Bjarnargreiði við minnlngu Egils eir auglýstu í sumar á Selfossi, að á ákveðnum degi og ákveðinni dag- stund yrði afhjúpuð málmsteypumynd af Ágli Gr. Thorarensen á stétt- inni sunnan undir ný- reistu vöruhúsi KÁ á Selfossi, almenningi væri frjálst að verða við athöfnina. Ég býst við að öllum hafi þótt þetta vel við hæfi og fyllilega kominn tími til að þessi öfluga stofnun, sem Egill grundvall- aði og rak af feykilegum skörungsskap til dauðadags, reisti höfundi sínum verðugan minnisvarða. Ég var einn þeirra mörgu sem kom á vettvang til að sjá Jarlinn af Sigtúnum afhjúpaðan, og í huganum sá ég hann fyrir mér, eins og ég mundi hann: Mikinn að vallarsýn, manna höfðinglegastan, svo að fæstir þjóðhöfðingjar heimsbyggðarinnar gátu státað af slíkum smíðisgrip drottins allsherjar í eigin persónu. Formaður kaupfélagsstjórnar talaði og rakti i fremur fátæklegri ræðu æviferil Egils. Síðan gekk fram eitt af barnabörn- um Egils og afhjúpaði standmyndina. Ég varð fyrir geysilegum vonbrigðum: Þarna blasti við lítil og mjóslegin brjóst- mynd af Agli, afsteypa af gipsmynd eftir Einar Jónsson frá því 1947, höfuð af frem- ur ungum manni, sléttum á hörund, ákaf- lega raunalegum, ásjónan slokknuð, næst- um því eins og dauðagríma, fjarri því að vera svipmikil, fest ofan á grannan steinstöpul með þess konar áferð sem legsteinar hafa. Ég hafði séð þessa mynd áður meðan Egill lifði og hann hafði öngvar mætur á henni, vissi ég, nema kannski helst því, að Einar frá Galtafelli hafði mótað hana, og vinir Egils höfðu gefið honum í afmælis- gjöf af góðum huga. Ef til vill sýnir myndin Egil eins og hann var — tilmynda nýstiginn upp úr veikindum, en ekki eins og hann varð. For- ingjasvipurinn á Agli óx nefnilega með aldrinum og varð konunglegastur allra síðustu æviár hans. Þannig kom hann mér að minnsta kosti fyrir sjónir. Þannig hefði átt að móta hann í langlífan eirinn. Myndin frá í sumar gæti svo sem staðið inni í anddyri KÁ-hússins, en úti fyrir því ætti að standa mynd af Agli Gr. Thorar- ensen í fullri líkamsstærð eða meira. Al- klæddur ætti hann að vera, með þeim svip og með þeirri reisn, sem þrekraun og lífs- reynsla áranna gæddu hann, í félagi við kynborna arfleifð Oddaverja hinna fornu. Það nálgast sögufölsun að segja núlif- andi fólki og fólki framtíðarinnar, að svona — eins og „brjóstmyndin" er — hafi Egill Thorarensen litið út. Stundum heyrðist það sagt, að Egill væri drambsamur. Það tel ég fjarri lagi. Hitt er satt, að hann var stoltur maður, eins og ég get hugsað mér að Jón Loftsson í Odda hafi verið. Hann smjaðraði aldrei, ekki heldur niður fyrir sig, enda sýndist hann kannski oft horfa yfir höfuðið á fólk- inu, ekki sjá það. Við vorum eitt sinn staddir einir saman uppi á fjalli, margt látið fjúka. Ég minntist á mann sem hafði orðið fyrir talsverðu skakkafalli. „Vor- kennir þú ekki þessum manni?" spurði ég. „Nei, þeim andskota vorkenni ég ekki — ég vorkenni öngvum — nema gömlu fólki og börnum. Ég á bágt með að sjá gömlu fólki líða illa — og heyra börn gráta.“ Undir bringu Egils sló hlýtt hjarta og göfugt, en honum datt ekki í hug að bera það á torg. Hann þjónaði mannslund sinni til þess að vera eðli sínu trúr, en ekki í auglýsingaskyni. Allir sem þekktu Egil heyrðu hann vafalaust taka hressilega upp í sig. Ég fór ekki varhluta af slíkum góð- gerðum. Varla var ég sá eini, sem kunni þeim fullvel. Á tungu Egils voru blótsyrði aldrei nein blótsyrði, þau voru aðeins kjarnmikil íslenska, pipar og salt i veislu- kost málsins. Maður sá ævinlega káta og hlýlega glettni í svipmóti Egils, þegar hann undirstrikaði ræðu sína með þessum hætti. Egill var vel máli farinn, þó ekki mælskari en ýmsir aðrir á okkar tíð. Öngvu að síður var hann málafylgjumaður með afbrigðum, á mannfundum réði hann alltaf því sem hann vildi. Ætli nokkru sinni hafi verið gerð fundarsamþykkt gegn atkvæði hans? Styrkur hans var fólginn í yfirburða persónuleika, sem engin járn bitu. Gagnrýnisnart, sem hann varð stundum fyrir vegna félagsmálafram- kvæmda sinna, það hrökk af honum og skaðaði hann aldrei, enda voru flutn- ingsmenn þess undir niðri fullir aðdáunar á manninum, sem með slíkum stórhug gekk að verkum sínum, að öll voru þau fremur sniðin við kröfur ókomins tíma en brýnustu þarfir líðandi stundar. Egill var í eðli sínu konungakyns og hagaði lífi sínu samkvæmt því — með glæsibrag og mikilli rausn. GUÐMUNDUR DANÍELSSON LESBOK MORGUNBLAÐSINS 3. NÓVEMBER 1984 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.