Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.1993, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.1993, Blaðsíða 9
Þórdísar systur sinnar og Þorgríms goða. Hann eggjar Þorgrím goða til að vega Vé- stein á laun. Þegar Vésteinn hefur verið drepinn og heygður eiga þeir bræður tal saman og vill Þorkell að þéir taki upp leika og láti á engu bera svo „.. . að menn renni þar af því grunum í ...“. Þessi tvö dráp eiga sér bæði upptök í óljósum grun og lausmælgi. í báðum tilvik- um heggur morðinginn, ráðabaninn í tilviki Þorkels, nærri sínum nánustu; því Bárður var elskhugi Þórdísar og vildarvinur Þor- kels og Vésteinn er mágur Gísla og vinur. Þá vilja ill-virkjarnir að verklokum að kyrrt sé látið liggja. Þrisvar Verður Allt Forðum Af þessu er ljóst að höfundur sögunnar þjappar saman í upphafsköflunum fjölmörg- um minnum sem birtast síðar í sögunni í ýmsum myndum. Hann virðist hafa full- komna yfirsýn yfir efni og form sögnnar frá upphafi til loka þegar hann fellir þannig mörg aðskilin atriði framvindunnar í trausta og svipmikla heild. Sagan er fullkomlega laus við tilgerð og stirfni þrátt fyrir hina ströngu, listrænu frásagnartækni. Endurtekningar, einkum þrítekningar, eru mjög áberandi og hafa nokkur dæmi þess verið rakin hér að framan. Þær renna stoðum undir þá skoðun að skipuleg bygg- ing Gísla sögu sé ekki „háð því að hún fjalli um eina deilu“ heldur er um sjálfstæða, list- ræna sköpun að ræða sem brýtur frásagnar- efnið undir strangar kröfur fastmótaðrar frásagnartækni. Magnus Olsen segir í grein „Um bygg- ingu Gísla sögu“: „Þritalan, sem er ríkjandi í öllum þorra þjóð- sagna, verður að víkja frá þeim sviðum, þar sem aðaláhersla-er lögð á fullkomið raunsæi, og hefur þvi orðið að beita henni sparlega í íslendingasögum. í samsetningu slíkrar sögu hlaut það að vera ókleift. í Gísla sögu sjáum vér atburðum aldrei raðað saman eftir hinum einfalda þrítöluhætti ævintýrsins.“ Vissulega er það bæði satt og rétt að íslendingasögurnar lúta ekki í öllum grein- um lögmálum ævintýra og þjóðsagna enda ólíkar þeim bæði hvað varðar uppruna og efnivið en hitt er hæpnara að Gísla saga byggi ekki í veigamiklum atiðum á þrítölu- þættinum sem hér var nefndur. Þrítalan eða þrítekningin er einmitt meginatriði í bygg- ingu sögunnar. Þess er þó hvorki að vænta að þau atriði er lúta lögmáli þrítölunnar séu í öllu hlutum eins né að þeim sé ævinlega skipað hlið við hlið; frásagnartækni sögunn- ar er margbrotnari en svo. Hliðstæður og endurtekningar eru felldar inn í söguna á eðlilegan og að því er virðist fyrirhafnarlaus- an hátt þannig að sagan heldur alltaf trú- verðugleik sínum. Nokkur dæmi hafa verið nefnd um þetta hér að framan sem rekja má til upphafs sögunnar en öðrum er skot- ið inn í atburðarásina eftir því sem fram- vinda sögunnar gefur tilefni til. Fáein slík dæmi um endurtekningar, sem skotið er inn í söguna, má nefna til frekari áréttingar. Þrívegis er sagt frá því að Þor- grímur goði egnir Gísla. Fyrst er hann hnykkir hendi sinni og aftekur að gerast svarabróðir Vésteins. Öðru sinni þegar þeir eru að leikum og Þorgrímur fer með vísu- brot þar sem hann lýsir því yfir að drápið á Vésteini hryggi hann ekki. Óg að endingu er hann sendir Geirmund að Hóli eftir reflum þeim er Vésteinn hafði boðið Þorkatli að gjöf. Þrisvar ráðast konur til atlögu við Eyjólf gráa og veita honum háðulega útreið: Auð- ur blekkir Eyjólf til að telja fram silfur það sem hann tók til höfuðs Gísla. í stað þess að taka við fénu og segja til Gísla rekur hún silfrið „á nasir Eyjólfi". Aftur ræðst Auður til atlögu við Eyjólf er hún slæmir barefli sínu á hönd honum og verður þann- ig, óviljandi, til þess að hrekja hann undan „íturslegnum sverðseggjum" Gísla. Að end- ingu reynir Þórdís að vega bróðurbana sinn en lánast ætlunarverkið miður en skyldi þar sem lagið geigar. Þrívegis er greint frá galdraathöfnum og hafa þær ævinlega í för með sér dauða og ógæfu: Fyrst segir frá seiði Þorgríms nefs er spjót það er smíðað úr Grásíðubrotum sem Vésteinn er veginn með. í annað sinn er sá hinn sami seiðskratti efldi seið gegn banamanni Þorgríms goða og kom þannig í veg fyrir að GÍsli gæti náð fram sáttum eða notið atfy%is vinveittra höfðingja. Og loks þegar Auðbjörg á Annmarkastöðum hleypir skriðu á bæinn á Skammfótarmýri og drepur tólf menn. Þá má nefna að þrisvar drepur Gísli menn sem eru í tygjum við Þórdísi, þrisvar er vikið að einstökum hagleiksverkum Gísla og þrívegis etur Þorkell mönnum saman. Dæmi um þrítölu í sögunni eru mun fleiri og tengjast til að mynda drápunum á Vé- steini, Þorgrími goða og Þorkatli Súrssyni. Litbrigði Þá er einnig athyglisvert að litir eru not- aðir markvisst til að draga fram hliðstæð- ur. Þannig segir frá því að Vésteinn er kominn í Haukadal, „... og var í blárri kápu ...“. Gísli leitar hefnda eftir Véstein, tekur spjótið Grásíðu og heldur að Hóli að vega Þorgrím goða.....og er í kápu blárri ...“. Þegar Gísli er á flótta undan Berki digra er hann .... í kápu blárri ...“ sem hann gefur Þórði huglausa til að villa um fyrir óvinum sínum. Blái liturinn er þannig sérstaklega bundinn við Gísla og þá sem tengjast honum og stefna á háskaslóðir. Einnig er grár litur mjög áberandi í sög- unni. Hæst ber þar tákngerving ógæfunn- ar, Grásíðu, sem er undirrót þeirrar ógæfu er Gísli Þorkelsson ratar í og fylgir síðan ættmennum hans. Eyjólfur grái ber nafn með rentu enda bæði grár í lund og eins konar feigðarboði sem sífellt ógnar lífi Gísla. Feigðarliturinn grái kemur einnig fyrir þeg- ar draumkona Gísla birtist honum á gráum hesti og báðir eru þeir bræður Gísli og Þor- kell gráklæddir þegar þeir eru vegnir. Silfur heitir líka grámálmur og athygli lesanda er oftar en einu sinni beint að silfri því sem Eyjólfur grái tók til höfuðs Gísla. Silfursjóð- ur þessi verður í sögunni tákn ágirndarinn- ar og undirferla sem hún elur af sér. LISTIN AÐ SEGJA SEM FÆST En Þó Svo Að Það Skiljist Að endingu er áhugavert að víkja að þeirri gagnrýni sem ýmsir mætir menn hafa beint að knöppum stíl sögunnar og kristall- ast ágætlega í orðum Sigurðar Nordals: „Gísla saga ... stendur einnig á mjög háu stigi sem skáldskapur. En stöku sinnum er eins og höfundur missi algerlega tök á efn- inu, t.d. þegar um er að ræða að skýra það, hví Gísli flýr upphaflega að heiman frá sér, hvers vegna mál hans er svo illa varið, af hvetju hann flýr ekki land, þegar hann er orðinn sekur skógarmaður. Slíkt mundi hvorki henda raunsæjan sagnaritara eins og Snorra né söguskáld eins og höfunda Njálu og Hrafn- kels sögu.“ Ekki er auðhlaupið að gefa einhlít svör við því hvers vegna höfundur Gísla sögu leggur sig ekki í framkróka við að rekja öll málsatvik út í hörgul. Þó má benda á að Gísla saga er í eðli sínu ólík þeim tveim- ur sögum sem Sigurður nefnir, bæði að ytri gerð og innihaldi. Gísla saga er öðrum þræði spennandi sakamálasaga. í slíkri sögu er engan veginn við hæfi að tefja framvinduna með nákvæm- um útskýringum á því sem gerist eða er ógert látið. I slíkri frásögn er heppilegra að gefa hlutina í skyn, t.d. með því að draga fram hliðstæður eins og höfundur Gísla sögu gerir gjarnan. Þannig á „flótti“ Gísla frá Noregi sér hliðstæðu í því þegar Þorsteinn á Annmarkastöðum neyðist til að flýja land eftir að Auðbjörg, móðir hans, hleypir skriðu á bæinn að Skammfótarmýri með gernirig- um og drepur tólf menn. Þeir Gísli brenna inni Kolbjörn á Hellu við tólfta mann, selja lönd sín og búast eftir það á brott til íslands. Enn annað dæmi um að hliðstæðum er beitt með þessum hætti er fjandskapur sá sem Þorgrímur goði sýnir Vésteini, ljóst og leynt. Ástæður þess fjandskapar eru ekki raktar -en drepið á það í samtali Auðar og Ásgerðar að Þorgrímur goði og Auður hafi oft hist áður en hún var gefin Gísla. Þetta atvik minnir óneitanlega á ástir Bárðar og Þórdísar Súrsdóttur. Föður hennar hugnaði það illa og kom því til leiðar að Bárður var drepinn. Vel má ímynda sér, eins og bent hefur verið á annars staðar, að Þorgrímur goði hafi leitað eftir ástum Auðar en Vé- steinn stíað þeim sundur. Það gæti altént skýrt það hatur sem endist Þorgrími til að vega Véstein. Ástæðurnar fyrir slakri málsvörn Gísla eru vissulega ekki raktar en augljóst af því er síðar segir að þetta er „... sakir þess tröllskapar er Þorgrímur nef hafði haft í seiðnum, og atkvæða ...“. Þeirri spurningu hvers vegna Gísli flýr ekki af landi brott verður varla svarað nema persónusköpun sögunnar og boðskapur sé brotinn til mergjar. Gisli á þess kost að víkja sér undan skyldum sínum oftar en einu sinni en hann kýs frekar að beijast fyrir því sem hann telur sér og sínum til sæmdar. Það er að vísu utan þeirra marka sem þessari samantekt voru sett í upphafi en engu að siður hnýsilegt athugunarefni að gæta að persónusköpun sögunnar og boðskap en það hlýtur að bíða betri tíma. vnnn-J nt/T;rlrflRP nm m; nnntr iifmfl«ii;s iaaod 6s ó stí'sil lidirn -f: .sni: ELISABET JÖKULSDÓTTIR Saga handa Sigfúsi Daðasyni Það var lítil stelpa og henni var bannað að vera glöð svo hún var allt- af afar alvarleg og smámsaman fóru allir að segja í fjölskylduboðunum: Mikið hlýtur þetta að vera gáfað barn. En stundum þegar litla stelpan gekk ein með sjónum, jafnan í afar alvar- legu veðri, heyrðist hún reka upp krampakenndar hlátursrokur, svo sem títt er með hesta með heimþrá. Saga handa Stefáni Herði Grímssyni Einu sinni var lítil stúlka sem skar úr sér hjartað og kreisti það í lófanum og fuglarnir sungu í skóginum, annars var kyrrð og blóðdroparnir hnigu í jörðina og þegar spratt upp af þeim undrafagurt blóm með krónu, rauð stjarna og gyllt að innan hneig stúlkan niður á jörðina og líkið sem fannst var af henni og þótti mikil prýði. Saga handa Einari Bene- diktssyni Þessi stelpa hafði gefið svo mikið að hún hafði gefið vitlaust og þann morgun vaknaði hún upp með tóm í hjartanu og uppgefin á sál og líkama. Þá loksins bað hún um hjálp og þá fékk hún frið, rigningu, píanótónlist, bros sem getur breytt dimmu í dags- ljós og ofurlítinn vind sem þaut um á Islandi. Höfundur er rithöfundur í Reykjavík. Sögumar eru úr væntanlegri bók. ÁSGEIR J. JÓHANNSSON Von í snjó- húsi Bakvið þennan langa vetur býr vonin í snjóhúsi og bíður eftir geislum sólar. Komdu út veika von, hvíslar vorið og andar á gömul snjóhús sem klökkna af þrá eftir fallandi lækjum. Börn Október ’92 Þau koma eins og votir stormsveipir, ijúfa hljóðmúrinn og þrengja sér inní sviðsljósið. Lítil umbúðalaus börn með örlög heimsins í farteskinu. Snæða af skilningstré góðs og ills, vaxa yfir höfuð og verða að foreldrum. Höfundur býr í Hafnarfirði og er um- sjónarmaður í skóla. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 1.MAI1993 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.