Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.1984, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.1984, Blaðsíða 4
Jakob og meistar- inn segja sögur í Tjarnarbíói þessa dagana. Þetta leik- rit Tékkans Milan Kundera er merkilegt af ýmsum ástæðum, og ekki spillir aldeilis ljómandi uppsetning Stúdentaleikhússins undir öruggri og hugmyndaríkri leiðsögn Sigurðar Pálsson- ar. Kundera mun ennþá vera fremur lítt þekktur hérlendis en á fáeinum árum hafa verk hans — fyrst og fremst skáldsögur — farið sannkallaða sigurför um mestallan hinn vestræna heim, og nú er svo komið að hann er í hópi vinsælustu og áhrifamestu rithöfunda. Svo dæmi sé tekið af handa- hófi: nýjasti stórmeistari enskunnar, Ind- verjinn Salman Rushdie, stendur í ótví- ræðri þakkarskuld við Tékkann, svo sem sjá má af bókum hans — Midnight’s Children og Shame. Þetta eru líklega nokkur viðbrigði fyrir Kundera. Ekki eru mörg ár síðan hann var kúgað- ur, gleymdur í heimalandi sínu og fátt eitt var vitað um hann annars staðar. Milan Kundera — fæddur 1929 — var nefnilega meðal þeirra sem ötulast gengu fram í að finna mannúðlegt andlit á sósíalismann í Tékkóslóvakíu um og upp úr miðjum sjöunda áratugnum. Vorið í Prag, og villi- galtadráparinn Leóníd sendi skriðdreka sína af stað. Glaða nefið hans Dubceks var höggvið af í Kreml — eins og segir í kvæð- inu — og Kundera var strikaður út úr símaskránni. Þau örlög bera vitni um að viðkomandi sé „ópersóna" — orð sem hætt er að hafa innan gæsalappa á flestum er- lendum málum, svo fastan sess sem alræð- isstjórnir kommúnista (og fleiri, svo sem) hafa unnið því. Kundera hætti í rauninni að vera til. Honum stóð að vísu til boða að hlaupa út á torg og hrópa: „Hér er ég!“ — en sú hætta var jafnframt fyrir hendi að enginn myndi heyra. Ekki nóg með að hann hyrfi úr símaskránni heldur voru bækur hans gerðar upptækar í bókaversl- unum og á söfnum, nafn hans þurrkaðist út af öllum opinberum plöggum. Kundera mun hafa sagt svo frá að hið eina sem hafi bjargað sér frá algerri örvæntingu hafi verið hláturinn, kímnigáfan. Og það dugði; hann bugaðist ekki og árið 1975 fékk hann náðarsamlegt leyfi tékkneskra yfirvalda til þess að fara úr landi. Hann valdi Frakkland eins og fleiri útlagar, jafnt sjálfskipaðir sem tilneyddir, og er nú orð- inn franskur ríkisborgari og kennir bók- menntasögu við háskóla, auk þess að sinna ritstörfum. Bækur hans eru þessar: Brand- arinn 1967, Hlægilegar ástir 1968, Lífið er annars staðar 1973, Kveðjuvalsinn 1976, Bók hláturs og gleymsku 1979. Fyrstu tvær bækurnar komu út í Tékkóslóvakíu en eftir bann stjórnvalda hafa sögur hans jafnan birst fyrst í frönskum þýðingum. Og nú fyrir örfáum dögum kom út nýjasta bók Kundera, skáldsaga sem heitir Óþolandi léttúð tilverunnar. í síðasta eintaki af Le Matin des livres var hástemmt lof um hana, segir mér Sigurður Pálsson. Það seg- ir sig sjálft að rithöfundur með slíka fortíð hlýtur að hafa óvenju næman skilning á ýmsum hugtökum sem íbúar vestantjalds leiða sjaldan hugann að, nema í bríaríi. Frelsi og kúgun eru til að mynda mikils- verð stef í bókum hans þótt hann fjalli um þau á afskaplega persónulegan hátt. Hann er ekki pólitískur rithöfundur í þeim skiln- ingi að hann hefji á loft gunnfána hag- fræðikenninga eða hrópi slagorð — fremur mætti segja að honum væri samspilið milli einstaklings og samfélags nokkuð hugleik- ið. Hann er að sjálfsögðu á bandi einstakl- ingsins, mannsins sem vitsmuna- og til- finningaveru. (Að sjálfsögðu? Kannski er ekkert sjálfsagt við það.) Umfram allt er hann þó listamaður og það hefur orðið honum að góðu liði að hann hefur fjandan- um meiri þekkingu á bókmenntum, ekki aðeins þessarar aldar heldur ailra alda, og kann að notfæra sér þá þekkingu, list sinni til framdráttar. Einmitt þannig varð leik- ritið undursamlega um Jakob og meistar- ann til. í leikskrá Stúdentaleikhússins er birt gagnmerk grein eftir Kundera þar sem hann reifar tildrög þess að hann skrifaði leikinn. Eftir innrás Varsjárbandalagsins í Tékkóslóvakíu var hann útskúfaður sem fyrr sagði og vinur hans, leikstjóri nokkur sem vildi hjálpa honum, bað hann að semja leikgerð upp úr Fífli Dostoévskís sem síðan yrði sýnd undir nafni leikstjór- ans. „Ég las því Fíflið enn einu sinni," skrifar Kundera, „og mér varð ljóst að ég gæti ekki gert þetta, jafnvel þó ég dræpist úr hungri að öðrum kosti. Mér bauð við þessari veröld yfirdrifinna athafna, hyi- dýpismyrkurs og tilfinningaofsa. Um leið — ég veit ekki af hverju — fór ég að sakna Jakobs örlagatrúar. — Gætir þú ekki hugsað þér að taka Diderot i stað Dostoévskís? Milan Kundera Einn fremsti rithöfundur Evrópu um þessar mundir en „ópersóna" í heimalandi sínu. LeKurinn — eitur í beinum alræðisstjórna — Af Steme, Diterot og Milan Kundera en leikrit þess síðastnefnda er nú sýnt í Stúdentaleikhúsinu. EFTIRILLUGA JÖKULSSON Laurence Sterne Denis Diterot Skáldsaga hans, Tristram Shandy, var ólík öllu sem skrifað haföi veriö í skáldsöguformi uppúr miöri 18. öld. Svo mælskur, aö þegar hann opnaði munninn var eins og eldfjall byrjaöi aö gjósa. Alfræðioröabókin hans átti sinn þátt í aö hleypa af staö frönsku stjórnarbyltingunni. Það gat hann ekki en mér var ómögulegt að losa mig við þessa undarlegu löngun og til þess að dvelja sem lengst í félagsskap Jakobs og meistara hans fór ég að virða þá fyrir mér og hugsa um þá sem persónur í mínu eigin leikriti." Og Kundera leggur enda áherslu á að enda þótt hann byggi — eins og flestir vita víst núorðið — á skáldsögu Denis Diderot, Jacques le fataliste, þá sé Jakob og meist- arinn hans eigið leikrit, eins konar óður til Diderot sem Kundera metur greinilega mjög mikils. í grein sinni bendir Kundera á að Jacques le fataliste hafi falið í sér möguleika sem skáldsaga síðari tíma hafi hreint ekki notfært sér; möguleika sem Kundera leikur sér með í þessu verki, sem og samband þeirra höfundanna, Diderot og hans sjálfs. Möguleika þessa má reynd- ar orða stuttaralega: frelsi, leikur. Allt slíkt er eitur í beinum alræðisstjórna og Kundera lét sig ekki einu sinni dreyma um að Jakob og meistarinn yrði nokkru sinni sett upp í Tékkóslóvakíu Husaks og nóta hans; leikritið var heldur ekki frumsýnt fyrr en 1981 og þá í París. Það hefur síðan verið sýnt í mörgum löndum og enn fleiri sýningar munu vera í undirbúningi. Rétt- ast er að brýna fyrir tilvonandi áhorfend- um sýningarinnar í Tjarnarbíói að lesa fyrrnefnda grein Kundera, en hún kallast Inngangur að tilbrigði, með mikilli athygli og geta má þess að innan skamms mun væntanlega birtast hér í Lesbók ekki síður merkileg ritgerð sama höfundar þar sem hann rekur sig eftir allri bókmenntasög- unni, frá Cervantes og fram undir þennan dag, með hliðsjón af breytingum þeim sem orðið hafa á þjóðfélaginu. í bili verður hér sagt frá Diderot og þeim manni sem varð honum fyrirmynd, Laurence Sterne, höf- undi Tristram Shandys. Don Kíkóti, fyrsta raunverulega skáld- sagan, kom út í blábyrjun sautjándu ald- arinnar. Tíminn var þá annað en hann er núna og það liðu rösklega hundrað ár þar til skáldsagan drattaðist annað marktækt skref fram á við, en það gerðist á Eng- landi. Á átjándu öldinni — undir klikkuð- um Georgakóngum — hýsti England þó nokkra menningarfrömuði af ýmsu tagi, og nægir líklega að nefna þá David Hume og Samuel Johnson. Að því er virðist upp úr þurru spruttu þar einnig á fætur all- margir rithöfundar sem enn teljast í fremstu röð skáldsagnahöfunda, og höfðu altént mikil og djúpstæð áhrif bæði á sam- tíð sína og enn í dag. Laurence Sterne fæddist árið 1713, son- ur undirforingja í hernum og þrátt fyrir lítil efni foreldranna tókst honum að ganga menntaveginn. Hann lauk guð- fræðinámi frá Jesus College í Cambridge árið 1737 og hlaut vígslu skömmu síðar. Ekki er víst að guðhræðsla hafi átt mestan þátt í starfsvali hans — kirkjan varð oft þrautalendingin hjá ungum og efnalitlum menntamönnum. Altént starfaði hann innan kirkjunnar um hríð og fer litlum sögum af honum fyrr en 1760, en þá komu út fyrstu tvö bindi skáldsögunnar Tristr- am Shandy. Bindin urðu alls níu og birtist hið síðasta þeirra árið 1767. Tristram Shandy gerði höfund sinn bæði frægan og ríkan og seinustu æviár sín ferðaðist Sterne mikið, ekki síst í Frakklandi. Hann var enda berklaveikur og þoldi illa þoku- slæðinginn í heimalandi sínu. Eitt þessara ferðalaga, sjö mánaða reisa um Frakkland og Ítalíu 1765, varð honum að yrkisefni í skáldsögunni A Sentlmental Journey en fyrri hluti hennar kom út 1768. Síðari hlutinn kom alls ekki út því Sterne lést það sama ár, 55 ára gamall. Þeir urðu fæstir mjög aldraðir, ensku rithöfundarn- ir. Sterne hafði lesið einhver reiðinnar býsn áður en hann fór sjálfur að skrifa og því þekkti hann að sjálfsögðu til verka samtímamanna sinna, en fór allt aðra leið en þeir. Þótt ólíkir séu, virðist lífssýn Richardsons, Smolletts og Fieldings hafa verið svipuð; þeir litu á veruleikann sem rökræna heild og sögðu frá atburðum í réttri tímaröð og ýkjulítið — þannig séð. Sterne var aftur á móti þeirrar skoðunar, eins og Locke, að samband hugmynda væri afskapiega órökrænt fyrirbæri og Tristr- am Shandy virðist fram úr hófi órökræn skáldsaga. Það er hlaupið úr einu í annað, numið staðar þegar minnst varir og frá- sögnin tekur ótal heljarstökk. Svona skáldsaga hafði aldrei verið skrifuð áður og fáir treystust til að fylgja fordæmi Sternes — því er það sem Milan Kundera segir að möguleikarnir sem fólust í Tristr- am Shandy og Jacques le fataliste hafi ekki verið nýttir, og leikurinn sem skáld- sagan getur brugðið á þegar henni sýnist svo hafi verið stöðvaður áður en hann hófst fyrir alvöru. Bókin um Tristram heitir fullu nafni The Life and Opinions of Tristram Shandy, Gentleman, eða Líf og skoðanir Tristram Shandy, herramanns, en þessi 4

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.