Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.1984, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.1984, Blaðsíða 4
Lesbók/Árni Sæberg. Páll Skúlason Siðblindan er Iúmsk Engin siðfræðikenning getur tekið af mönnum ómakið að velja — en þar með er ekki sagt að hver maður sé sinn eiginn æðsti dómari í siðferði- legum efnum GUÐMUNDUR PÁLL ræðir við PÁL SKÚLASON prófessor í heimspeki um siðfræði og siðferði Leiðum hugann að eftirfarandi dæmisögu: Fimm manns stórslasast í bílslysi og eru fluttir í hasti á sjúkrahús. Rannsókn leiðir í ljós að mikilvæg líffæri hafa skaddast í öllum fimm, en þó ekki það sama í neinum. Þykir læknum einsýnt að fólkið muni allt deyja ef það fær ekki nýtt líffæri fyrir hið skaddaða strax. Engin líffæri liggja á lausu. Hins vegar er dauðvona maður á spítalanum, sem er að tærast upp af ólæknandi sjúkdómi, en hefur þó öll líf- færin sem fimmmenningana skortir óskemmd. Nú vaknar sú spurning hvort ekki sé réttlætanlegt að flýta örlítið fyrir dauða þessa manns og nota úr honum líf- færin til að bjarga hinum fimm. Það er ólíklegt að þessi saga eigi sér hliðstæðu í raunveruleikanum í svo hrárri mynd, en þetta er dæmisaga og henni er ætlað að draga skýrar línur. Og kannski þyrfti ekki að breyta henni mikið til að finna henni stað í raunveruleika spítalalífs víða um heim. Hin siðferðilega spurning sem dæmisagan vekur upp er þessi: Á að fórna einu lífi til að bjarga mörgum? Ein grein heimspekinnar er siðfræði. Hennar viðfangsefni er að gera grein fyrir mannlegu siðferði, hvers konar veruleiki það er. Og þá kannski jafnframt að auð- velda mönnum að komast að niðurstöðum í siðferðilegum vanda. Eða hvað? Páll Skúlason prófessor í heimspeki við Há- skóla íslands hefur skrifað nokkuð um sið- ferðileg efni, ekki síst í tengslum við sið- ferði og siðferðisreglur heilbrigðisstétta. Blaðamaður Morgunblaðsins átti samtal við Pál um siðfræði og mannlegt siðferði almennt, og við hefjum leikinn með um- ræðu um dæmisöguna að ofan. Páll, er siðferðilega réttlætanlegt að fórna þessum dauðvona manni til að bjarga hinum fimm? INNBYGGÐAR SlÐFERÐISREGLUR „Það er næsta víst að hver einasti maður svari þessari spurningu umhugsunarlaust neitandi. Þótt vissulega sé freistandi að drepa þennan mann, sem er hvort sem er dauðans matur, þá er það ekki siðferðilega réttlætanlegt. Menn svara þannig af eðlis- hvöt, eða réttara sagt, vegna þess að þeir hafa „innbyggða" siðferðisreglu sem býður þeim að gera það. Reglu sem þeir kannski gera sér enga grein fyrir, en fylgja samt, eins og menn fylgja reglum tungumálsins án þess að leiða hugann að þeim sem slík- um. Siðferðið er veruleiki í mjög svipuðum skilningi og tungumálið, það er að segja, reglur tungumáls og siðferðis eru hlið- stæðar að mörgu leyti: Við hlítum þessum reglum löngu áður en við gerum okkur það Ijóst, og þær verða okkur varla nokkurn tíma nema að hluta til ljósar. Langt nám í siðfræði eða málfræði megnar ekki að skýra reglurnar til fullnustu. Þessar regl- ur er hægt að brjóta, viljandi eða óvilj- andi. Þær taka hægfara breytingum, ef þær breytast á annað borð, og reglur tungumáls og siðferðis eru á ytra borði ólíkar frá einu samfélagi til annars. Loks má nefna að á sama hátt og við erum oft í vanda um hvernig við eigum að tjá okkur, getum við lent í vandræðum með það hvernig við eigum að hegða okkur gagn- vart öðru fólki. En grundvallarspurningin varðandi spítaladæmið er þessi: Hvers vegna teljum við það siðferðilega óréttlætanlegt að fórna mannslífi til að bjarga öðrum?" BOÐ OG BÖNN „Það eru til tvenns konar siðferðisregl- ur: boð og bönn. Boðin eru fyrirmæli um eitthvað sem menn eiga að gera, bönnin hins vegar kveða á um eitthvað sem ekki má gera. í umræddu dæmi er um tvær siðferðisreglur að tefla, annars vegar boð um að bjarga mannslífi og hins vegar bann við að svipta mann lífi. I þessu tilfelli er ekki hægt að fylgja báðum þessum reglum, en svo virðist sem bannreglan sé ótvírætt sterkari og sú regla sem okkur ber ber- sýnilega að fylgja." — Hvers vegna? „Þú ættir eiginlega að finna svar við þessu sjálfur. En það er enginn vandi að færa margvísleg rök fyrir forgangi þessar- ar reglu. Við getum til dæmis lagt dæmið þannig upp: Grundvallarverðmæti siðferð- isins er líf einstaklingsins, helgi lífsins. Það er það verðmæti sem er oftast öðrum mikilvægari. Ef við getum ekki bjargað- mannslífum án þess að ganga á þennan rétt, það er að segja taka líf einhvers ann- ars, þá erum við um leið búin að brjóta þessa grundvallarforsendu siðferðisins. Við getum líka borið fyrir okkur hrein nytjarök: Ef það væri viðtekin regla að fórna lífi til að bjarga öðrum, þá þýddi það að enginn maður gæti verið fullkomlega öruggur um sig. Sem er óbærilegt ástand. Nákvæmlega sömu rök gilda um líknar- dráp, enda held ég að allir séu sammála um það, bæði lögfræðingar og siðfræð- ingar, að ekki eigi að innleiða líknardráp í lög.“ GlLDI SlÐFERÐISRAKA — Hvert er gildi slíkra fræðilegra út- listana? Ef okkur er jafn eðlislægt að fylgja siðferðisreglum og tala móðurmálið, þarf þá nokkur sérstök rök fyrir því að eitt sé rétt og annað rangt siðferðilega? Eða verða menn að betri mönnum við það að leggja stund á siðfræði? „Eg held að það sé öllum hollt að hug- leiða siðferðileg efni, en ég veit satt að segja ekki hvort það gerir menn sjálfkrafa að betri mönnum að leggja stund á sið- fræði. Þó verð ég að viðurkenna, að ég veit ekki um neinn siðfræðing sem er siðlaus! Gildi slíkra röksemda er auðvitað fyrst og fremst það sama og gildi yfirvegunar almennt, það er að segja gildi þess að hugsa um ástæður hlutanna. Auk þess fer það ekki á milli mála að á síðari tímum hefur siðfræðin sífellt fengið aukið hag- nýtt gildi. Ástæðan er einfaldlega sú, að í nútíma þjóðfélagi eru að skapast aðstæður til aðgerða og framkvæmda sem veita mönnum alveg nýja möguleika til að hafa áhrif á mannlífið. Þessir nýju möguleikar geta vakið upp margvíslegan siðferðilegan vanda, sem menn geta einfaldlega ekki leyst með brjóstvitinu einu saman og kalla því á fræðilegar vangaveltur." — Hvað hefurðu þarna sérstaklega í huga? „Ótal atriði, fóstureyðingar, gervifrjóvg- un, notkun á tölvunni til að geyma upplýs- ingar um einkalíf manna, mengunarmál, ýmislegt í sambandið við nútíma viðskipti og margt fleira." Fóstureyðingar — Þú átt við að það sé ekkert „innra með manni", sem svarar því sjálfkrafa hvort til dæmis fóstureyðingar séu sið- lausar eða ekki? „Sú staðreynd að þetta er umdeilt mál sannar það.“ — Hver er þín persónulega skoðun? Eru fóstureyðingar siðlausar? „Það er mjög erfitt að finna gild rök fyrir fóstureyðingu, þótt hún sé sennilega ekki siðlaus undir öllum kringumstæðum. En ef fóstureyðing á rétt á sér er það einfaldlega vegna þess að önnur og mikil- vægari verðmæti eru í húfi. En það er ekkert hægt að alhæfa um þetta mál frek- ar en flest önnur siðferðileg efni, það verð- ur að skoða hvert einstakt tilfelli sérstak- lega.“ — Ertu þá á móti því að leyfa fóstureyð- ingar? „Það er að minnsta kosti varhugavert að hafa mjög frjálslynda löggjöf, því það býð- ur heim hættunni á misnotkun, eins og mörg dæmi eru um. Konur eru beittar þrýstingi af maka eða öðrum til að láta eyða fóstri án þess að þær vilji það raun- verulega sjálfar, eða þá konur leiðast út í það að nota fóstureyðingu sem getnaðar- vörn.“ SlÐFERÐILEG VERÐMÆTI — Þú talar um verðmæti sem í húfi eru, hver ákvarðar þessi verðmæti? Hver ákvarðar til dæmis hvort hamingja konu sé meira eða minna virði en að fóstur sem hún ber fái að þroskast í einstakling. Með öðrum orðum, eru til einhverjir algildir mælikvarðar á rétt og rangt í siðferðilegu tilliti, eða dæmir hver maður um slík efni út frá eigin brjósti? „Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá eru til reglur sem kveða á um hvað sé rétt í samskiptum manna og breytni. Og ef við á annað borð erum siðferðisverur, erum við háð þessum reglum hvað svo sem við höldum eða ákveðum sjálf. Siðferði er veruleiki, sem við búum einfaldlega við. Og þessi verulciki er til vegna þess að menn breyta hver gagnvart öðrum og þurfa því að taka tillit hver til annars." SJÁLFDÆMISHYGGJA „Hitt er annað mál, að það er mjög rík

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.