Lesbók Morgunblaðsins - 14.01.1984, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 14.01.1984, Blaðsíða 6
Marion Jóhannsson Lesbók/KÖE Broddurinn er skafinn af öllum tilfinningum Islendingar virðast finna til sektarkenndar og skammast sín fyrir að vera mannlegir. Þeir eiga yfir höfuð afar erfitt með að tjá tilfinningar sínar, ótta, reiði, angist, ást eða samúð, viðast telja það veikleikamerki að hafa slíkar tilfinningar, og þeir eru hræddir við að sýna þennan veikleika. Lífsviðhorf þeirra virðist mótast af stóískri ró, sem getur verið aðdáunar- verð undir vissum kringumstæðum, en hún reynist mörgum dýru verði keypt. Það er svo, að allir menn þurfa að tjá tilfinningar sínar, og hafi fólk ekki lært það, flýr það oft raunveruleikann með því að neyta lyfja, drekka áfengi í óhófi eða með annarri afbrigðilegri hegðun. Þetta eru stór orð, en Marion Jó- hannsson veit hvað hún er að segja. Glöggt er gestsaugað, og meira en það. Marion hefur undanfarið hálft þriðja ár stundað einkaráðgjöf hér á landi, og hafa leitað til hennar hartnær fjögur hundruð einstaklingar, ekki svo lítið úrtak úr Reykjavík og nágrenni. Marion hefur nú sest að í föðurlandi sínu, Bandaríkjun- um, ásamt manni sínum, Stefáni Jó- hannssyni, og munu þau stunda þar ráð- gjöf í skólum og fyrirtækjum auk einka- ráðgjafar. Ráðgjöf af því tagi sem hér um ræðir (councelling service) er hart- nær óþekkt fyrirbrigði á fslandi, en er mikið stunduð í Bandaríkjunum til að liðsinna þeim, sem eru komnir í tilfinn- ingalegar ógöngur en þurfa þó vart á hjálp sálfræðinga eða geðlækna að halda. Prestar, sálfræðingar og félagsráðgjafar sinna þessu hlutverki einkum hér á landi, en eigi að síður fann Marion frjóan starfsakur hérlendis þeg- ar hún fluttist hingað ásamt manni sín- um Stefáni, sem hún kynntist þegar hann var við nám við Hazelden-stofnun- ina í Minnesota. — Þegar einstaklingurinn er svona tilfinningalega bældur, heldur Marion áfram, fer fyrir honum eins og hraðsuðu- katli með stíflaðan ventil: fyrr eða síðar springur hann. Ég kynntist einu sinni manni, sem hafði verið kvæntur í fimm- tán ár, og hann sagði mér að á þessu tímabili hefði hann þrisvar sinnum sagt konunni sinni að hann elskaði hana. Eg sagði við hann að ég þakkaði Guði fyrir að vera ekki hlaðin því oki að vera elskuð af honum. Ég stundaði um skeið hjóna- ráðgjöf í Bandaríkjunum og er vön að segja að gott hjónaband skapist milli tveggja einstaklinga, sem báðir eru jafn- mannlegir, breyskir, og gera sér grein fyrir því. Ég vona að orð mín verði ekki túlkuð sem neikvæð gagnrýni á íslendinga — þvert á móti á hún að vera uppbyggileg, jákvæð. Sjálf kem ég úr þjóðfélagi þar sem fólk á auðveldara með að skiptast á upplýsingum og brosa en gengur og ger- ist meðal íslendinga, en það verður að segjast eins og er með landa mína, Bandaríkjamenn, að þeir virðast eiga í eins miklum erfiðleikum með að tjá til- finningar sínar og íslendingar. Ég get ekki neitað því að ég varð fyrir miklum menningarlegum áhrifum, kúlt- úrsjokki, þegar ég kom fyrst til íslands. Ég var óviðbúin afskiptaleysi íslendinga og því sem mér virtist vera tómlæti í fasi þeirra, og hélt í fyrstu að það stafaði af andúð. Seinna, þegar ég kynntist leik- reglum þjóðfélagsins, vissi ég betur, því vinátta fslendinga, þegar maður hefur unnið sér hana, er sönn og einlæg. Á þeim stutta tíma sem ég hef dvalið hér hefur mér auðnast að eignast jafnmarga góða vini og ég hafði eignast á hálfri mannsævi í heimalandi mínu. Að vinna traust er galdur, sem ekki er öllum gefinn. Marion Jóhannsson býður af sér slíkan þokka einlægni og fölskva- lausrar umhyggju að niann blátt áfram langar til að opinbera tilfinningar sínar fyrir henni strax við fyrstu kynni. Þegar hún spurði hvernig mér liði — en sú spurning skýtur afar sjaldan upp kollin- um í blaðaviðtölum — gaf ég mig þeirri freistingu á vald að tala um sjálfan mig og tilfinningar mínar, og leið snöggtum betur á eftir. — íslendingar eru lítið fyrir að lúta boðum og bönnum, segir Marion, — iafnvel þótt í almenningsþágu sé. Eg ætla að fara að andmæla þessu en man þá að ég lagði bílnum mínum uppá gangstétt rétt við gatnamót er ég kom til fundar við hana ... — Þetta kemur ekki aðeins fram í um- ferðinni, heldur einnig í öðrum sviðum mannlífsins. Foreldrar virðast t.d. vera stoltir af þrákelkni og óþægð í börnum sínum og telja það merki um sjálfstæði þeirra. Margir foreldrar virðast forðast þá ábyrgð sem fylgir því að eiga börn, og búa við rangt lífsgæðamat. Algengt er að báðir foreldrar vinni úti og hafi ekki tíma til að sinna börnum sínum, vinni úti ekki til þess að hafa til nauðþurfta held- ur til að eignast æ meira af veraldlegum gæðum: vídeó, nýrri bíl, enn stærra hús- næði. Þannig verður dansinn kringum gullkálfinn til þess að börn og foreldrar ná ekki saman; milli þeirra myndast gjá tilfinningalegs afskiptaleysis sem leiðir til tjáningarskorts og bælingar. Ég hef stundum sagt foreldrum sem til mín hafa leitað að fara niður á Hallærisplan- ið og sjá hvernig börnin þeirra, tán- ingarnir, hafa það, en fáir hafa viljað taka þá áhættu. Framfarir í læknavísindum og aukin lífsþægindi hafa lengt mannsævina, bæði hér og í Bandaríkjunum. En hvaða tilgangi þjónar það að líkaminn lifi utan um vanrækta sál? Hvaða gildi hefur það líf, sem hlaðið er inn á stofnanir af því fjölskyldan hefur hvorki tíma né vilja til að sinna því? Þetta er vandamál, sem taka þarf föstum tökum ef okkur á að auðnast að auka gildi þess lífs sem við lifum, því þegar öll kurl koma til grafar skiptir það máli hvernig lífi við lifum en ekki hve langi við tórum. Að vinna og vinna mikið, er hverjum manni hollt, og það má ekki ræna fólk á efri árum þeirri lífsfyllingu sem er vinnunni samfara. Hinsvegar þurfa allir að kunna að slappa af, hvílast. í Bandaríkjunum kem- ur það oft fyrir, að menn 1 störfum sem fylgir mikið álag detta niður dauðir skömmu eftir að þeir ætla að fara að njóta áhyggjulausrar elli. Margir halda sér þó gangandi með því að flytja spenn- una sem hefur haldið þeim gangandi gegnum æfina með sér út á golfvöllinn. — En víkjum aftur að því hve lokaðir íslendingar eru. Það hefur nú löngum þótt ósiður hér að bera tilfinningar sínar á torg. — íslendingar hafa alltaf tamið sér stóíska ró og talið hana kost á hverjum manni. Það er eins og þeir hafi verið herptir í ellefu hundruð ár. Stóísk hugs- un og viðbrögð hafa gengið í arf mann fram af manni. Eftirfarandi setningar heyrði ég jafnt manna á meðal og á skrifstofu minni: „Það er rangt að sýna tilfinningar sínar eða deila þeim með öðrum." „Það er rangt að hlæja of mikið eða gráta." „Maður á ekki að útjaska orðun- um ást og fegurð með því að ofnota þau. „Fjölskylduvandamál ber maður ekki á torg og ræðir þau ekki sinu sinni heima hjá sér.“ „Það er veikleikamerki að gef- ast upp, gefa eftir eða leita málamiðlun- ar.“ Ég get aldrei látið í veðri vaka að ég sé þreyttur eða veikur." „Best er að trúa á sjálfan sig og treysta engum." Þannig gæti ég lengi talið. Ást, samhygð og mannleg þörf fyrir samneyti eru bæld niður ekki síður en hræðsla, reiði, blygð- un og sársauki. Þannig er broddurinn skafinn af öllum tilfinningum. Þær radd- ir sem ég hef heyrt og þau andlit sem ég hef séð hafa ekki í fyrstu endurspeglað tilfinningar viðkomandi heldur bælingu hans og seiglu. Stundum virðist fólk orð- ið svo hlédrægt, að meira líkist uppgjöf fyrir lífinu en sáttum við það. í meira en þúsund ár hafa íslendingar barist fyrir afkomu sinni með einföldum meðulum. En nú er öldin önnur. Á síð- ustu 45 árum hefur nútíminn haldið hraða innreið í þjóðfélagið, með öllum sínum kvillum. Færri gifta sig, hjóna- skilnuðum fjölgar, táningar gerast upp- reisnargjarnir, fleiri konur vinna utan heimilis, umferð, skattar og verðbólga magnast og aðrir streituvaldar færast í aukana. Hefðbundin viðbrögð við áreiti lífsins duga ekki lengur. Flestir þeirra sem leitað hafa til mín hafa brugðist við álagi með því að draga sig inn i skelina, þræla sér út, veikjast, fá taugaáfall, reyna sjálfsmorð eða finna flótta í kynlífi, áfengi eða lyfjum. Flestir hafa verið lamaðir af sektarkennd og skömm yfir því að fá ekki afborið sárs- auka á sama hátt og eldri kynslóðin ger- ir. En það má margt jákvætt tína til. Hvergi eru tiltölulega fleiri sjúkrarúm fyrir ofneytendur áfengis og fíkniefna en á íslandi. Stjórn landsins, kirkja og þeir sem með fræðslumál fara gera sér æ bet- ur grein fyrir vandanum sem fylgir neyslu vímuefna og leita leiða til að greina vandann og vinna gegn honum. Atvinnurekendur eru farnir að velta fyrir sér gildi skipulagðrar aðstoðar við starfsmenn sína, en læknastéttin virðist hafa dregist aftur úr á þessu sviði. Læknaþjónusta er til fyrirmyndar á mörgum sviðum, t.d. í greiningu og með- ferð á krabbameini, en margir læknar virðast mjög fákunnandi um drykkju- sýki. Til bóta væri ef læknanemar yrðu fræddir meira á þessu sviði og læknar skyldaðir til símenntunar. Þrátt fyrir allt þetta óskar Marion þess að njóta ellinnar hér á íslandi. Von- andi bíða hennar færri verkefni þegar hún kemur hingað næst. Ég tek undir það sem hún sagði við mig þegar hún þrýsti hönd mína í kveðjuskyni: Enginn þarf að vera hræddur við að sýna ást sína. Hún gengur aldrei til þurrðar, held- ur vex hún því meira sem af henni er tekið. Ef allir tileinkuðu sér þessi sann- indi, myndi okkur öllum líða betur. Marion Jóhannsson sem um árabil hefur stundað sálræna ráðgjöf í Bandaríkjunum og á íslandi, telur að Islendingar séu tilfinningalega bældir og segir þeim opinskátt til syndanna í samtali við Guðbrand Gíslason

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.